Eva Davíðsdóttir og Stephen Anderson komin heim eftir hjálparstarf á Lesbos – Söfnuðu 300 þúsund krónum til að kaupa nauðþurftir á vettvangi – Gáfu um 70 kg af fatnaði
„Þetta er mjög sérstök reynsla sem við erum í raun enn að vinna úr,“ segir Eva Davíðsdóttir, sem ásamt kærsta sínum, Stephen Anderson, ferðaðist til grísku eyjunnar Lesbos til þess að taka þátt í hjálparstarfi. [Eins og DV greindi frá]( http://www.dv.is/frettir/2016/2/10/lesbos/] í byrjun febrúar þá stóðu skötuhjúin fyrir söfnun sem ætlunin var að nota til þess að gera aðstæður flóttafólksins bærilegri. „Viðbrögðin voru frábær. Á stuttum tíma fengum við ótrúlegt magn af fötum og söfnuðum tæplega þrjú hundruð þúsund krónum inn á reikning. Við keyptum því aukatöskur í flugið og gátum farið með um 70 kílógrömm af fatnaði auk þess að kaupa nauðþurftir á staðnum fyrir peningana,“ segir Eva.
Lesbos er falleg eyja sem er skammt frá ströndum Tyrklands. Hún er um 1.600 ferkílómetrar að stærð en til samanburðar er höfuðborgarsvæðið rúmlega 1.000 ferkílómetrar. „Við dvöldum á norðurhluta hennar og í raun og veru þá er enn hægt að heimsækja Lesbos án þess að verða nokkuð var við neyðina sem á sér stað. Út af fréttaflutningi hafa ferðamenn sniðgengið eyjuna og því kom okkur skemmtilega á óvart að hitta marga innfædda sem voru að aðstoða. Þeir sem hafa horn í síðu flóttamanna láta þó líklega ekki sjá sig á vettvangi og við heyrðum alveg miður skemmtilegar sögur af kynþáttafordómum og áreiti sem grískir sjálfboðaliðar verða fyrir,“ segir Eva. Almenn velvild eyjarskeggja hefur ekki farið fram hjá alþjóðasamfélaginu því að íbúar Lesbos voru tilnefndir til friðarverðlauna Nóbels í ár út af samkennd sinni og fórnum í þágu flóttamanna.
Eva segist ekki hafa vitað við hverju ætti að búast á vettvangi en að upplifun hafi verið sérstök. „Þegar flóttamennirnir ná að landi á Lesbos þá er það ákveðinn léttir og maður finnur hvernig von kviknar í brjósti þeirra. Það er skrítið að upplifa þessar jákvæðu tilfinningar miðað við hvað aðstæðurnar eru að mörgu leyti nöturlegar,“ segir Eva. Hún segir að sjálfboðaliðarnir séu hvattir til þess að búa flóttamennina eins vel og efni standa til fyrir áframhaldandi ferðalag. „Fæstir staldra við á Lesbos nema í 2–4 daga. Við reyndum því að veita fólki hlýlegar móttökur því að þarna var ákveðin stund milli stríða hjá flóttafólkinu. Fötin sem við fórum með nýttust vel og við gátum keypt ýmislegt á vettvangi til þess að gefa fólki, aðallega keyptum við skó,“ segir Eva.
Að hennar sögn var ótrúlegt hversu fallegt andrúmsloft tókst að skapa á vettvangi og skipulag hjálparstofnana var gott miðað við manneklu og fjárskort. „Ég fann mig best í barnatjaldinu þar sem reynt var að hlúa að krökkunum og gefa þeim tækifæri til þess að leika sér áhyggjulaust. Þrátt fyrir erfiðleikana var magnað að sjá hversu fljót þau voru að gleyma sér við þá iðju,“ segir Eva. Að sama skapi fannst henni átakanlegt að leika sér við sum börn, vitandi það að þjóðerni þeirra gerði það að verkum að þau og fjölskyldur þeirra myndu að öllum líkindum ekki komast áfram inn í álfuna. „Sýrlendingar og Írakar eru í forgangi en til dæmis komast afganskir flóttamenn að öllum líkindum ekki lengra. Við hittum allnokkrar fjölskyldur frá Afganistan á meðan við störfuðum á Lesbos,“ segir Eva.
Frá Lesbos halda flóttamennirnir til Aþenu og þaðan freista þeir þess að komast til Makedóníu. „Þar er nánast alfarið búið að loka landamærunum sem hefur gert það að verkum að um 13 þúsund flóttamenn lifa við hræðilegar aðstæður við landamærin,“ segir Eva. Staðurinn sem um ræðir heitir Idomeni og í nýlegum pistli lýsti Þórunn Ólafsdóttir, sem meðal annars hefur komið að hjálparstörfum á Lesbos, staðnum sem „úthverfi helvítis“. „Margt af því fólki sem við kynntumst á Lesbos ætlaði að halda til Idomeni næst eða til Líbanon þar sem ástandið er einnig slæmt. Evrópubúar hafa misst áhugann á ástandinu en neyðin er enn mikil,“ segir Eva.