Aldís Elva missti bróður sinn á Spáni – Var sökuð um að hafa drepið bróður sinn
Aldís Elva Sveinsdóttir hefur upplifað raunir sem fæstir 16 ára unglingar geta ímyndað sér. Bróðir hennar féll úr rússíbana beint fyrir augum hennar þann 7. júlí 2014. Þá var Aldís aðeins 13 ára. Til að bæta gráu ofan á svart varð hún fyrir öðru áfalli nokkrum dögum síðar. Þá sá Aldís að henni höfðu borist mörg nafnlaus skilaboð. Þar var hún til dæmis ásökuð um að hafa drepið bróður sinn .
Haustið 2013 ákváðu faðir Aldísar, Sveinn Sigfússon, og stjúpmóðir, Hulda Guðjónsdóttir, að bjóða öllum börnunum sínum til Spánar um sumarið. Með í för voru albræður Aldísar, Anton Ingi og Andri Freyr, stjúpsystkini þeirra, Daníel og Írena, og yngsta systirin í hópnum, Freydís. Með í för var vinur systkinanna, Hilmir.
Þegar Aldís byrjar að segja blaðamanni frá atburðunum voveiflegu á Spáni sumarið 2014, er greinilegt að þeir eru henni í fersku minni, og það reynir mikið á hana að rifja upp atburðarásina sem fór í gang eftir slysið sem breytti lífi fjölskyldunnar til frambúðar.
„Á sjöunda degi ákváðum við að fara í Terra Mitica sem er einn vinsælasti skemmtigarðurinn á Benidorm,“ segir Aldís en eftir að hafa eytt drjúgum tíma í garðinum ákvað hluti fjölskyldunnar að fara í stærsta rússíbanann, sem heitir Inferno.
„Einhvern veginn var okkur raðað upp þannig að Andri sat við hliðina á Hilmi og ég sat ein í vagninum fyrir aftan þá. Stjúpmamma mín og stjúpbróðir komust ekki með í ferðina heldur áttu að fara í þá næstu.“
Aldís rifjar upp að mikið óöryggi hafi komið yfir hana þegar hún settist í tækið. Hún hafði sterklega á tilfinningunni að eitthvað ætti eftir að fara úrskeiðis en bældi hugsanirnar niður með því að einbeita sér að því að öll tívolítæki væru örugg.
„Það næsta sem ég man er að bróðir minn hrapar úr tækinu sem var á fullri ferð og skellur í jörðina. Mér datt helst í hug að garðurinn væri að gera at í okkur. En um leið og ég leit á milli sætanna og sá Andra liggja á jörðinni vissi ég að þetta væri ekkert grín.“
„Dreptu þig.“
„Það er bara gott á þig að bróðir þinn dó. Þú átt ekkert gott skilið.“
„Þú hefðir átt að detta úr rússíbananum. Fokkíngs ógeð.“
„Af hverju drapstu bróður þinn?“
„Geturu hengt þig fyrir framan mömmu þína svo hún grenji meira.“
„Þetta er allt þér að kenna.“
„Litla mellan þín dreptu þig.“
„Litla hóran þín.“
„Átt ekkert gott skilið.“
„Plís nenniru að byrja að skera þig aftur.“
„Af hverju ertu ekki búin að drepa þig?
„Ef ég gæti myndi ég drepa þig til að fá bróður þinn til baka.“
„Það er gott á þig að bróðir þinn dó. Þú átt ekkert gott skilið.“
„Fokk, þetta er allt þér að kenna. Núna get ég ekki farið í Terra Mitica.“
Í framhaldinu upphófst mikið fár, bæði í vagninum sem stöðvaðist ekki alveg strax, sem og meðal annarra gesta í garðinum sem horfðu á Andra detta 18 metra niður á steinsteypta jörðina.
„Ég gjörsamlega fríkaði út. Þegar vagninn stöðvaðist loksins var það beint fyrir ofan staðinn þar sem Andri lá þannig að alltaf þegar ég leit á milli sætanna horfði ég beint á hann. Það var vægast sagt skelfilegt.“
15 mínútur liðu þar til vagninn komst aftur niður á jörðina og farþegarnir voru leystir úr tækinu. Allan þann tíma fylgdist Aldís með því sem gerðist á jörðu niðri.
„Fyrst hélt ég að það væri í lagi með Andra því hann hreyfði sig mikið og gaf frá sér hljóð. Eftir á fengum við þó að heyra að þetta hafi líklega verið dauðaviðbrögð en Andri var úrskurðaður látinn í sjúkrabílnum, sem kom þó ekki á staðinn fyrr en 20 mínútum eftir að slysið varð.“
Síðustu misseri hefur mikið verið fjallað um einelti á netinu. Samfélagsmiðlar á borð við Ask.fm eru gróðrarstía fyrir slíkt en þar getur fólk sent spurningar og skilaboð til annarra notenda nafnlaust. Ask.fm sem og sambærilegir miðlar eru einkum vinsælir meðal unglinga. Á síðum notenda má sjá margs konar spurningar og staðhæfingar um það sem börnum á þessum aldri er hugleikið. Til dæmis er vinsælt að spyrja hvort þessi og hinn sé sætur, hvað eigi að gera um helgina, í bland við alvarlegri málefni á borð við spurningar er varða kynlíf, rógburð og fíkniefnanotkun. Einnig eru sjálfsvíg og sjálfskaði mikið rædd á Ask.fm.
Aldís segir að tíminn frá því að Andri féll úr rússíbananum og þar til sjúkrabíllinn kom á svæðið hafi liðið eins og heil eilífð. Enginn vissi hvernig ætti að bregðast við, mikið öngþveiti skapaðist, starfsfólkið hljóp um ráðvillt og fjölskyldan var í miklu losti.
Þegar sjúkrabíllinn kom loks á svæðið þurfti að bera Andra á sjúkrabörum yfir tveggja metra háa girðingu þar sem bifreiðin komst ekki inn í garðinn.
Aldísi, sem og öðrum fjölskyldumeðlimum, var í framhaldinu komið fyrir í tveimur leigubílum sem áttu að elta sjúkrabílinn á spítalann. Tuttugu mínútum síðar, þegar bílarnir voru enn ekki lagðir af stað, fékk hópurinn að vita að verið væri að reyna endurlífgun á Andra. Upphófst þá erfið bið en að lokum kom lögregluþjónn á miðjum aldri, ásamt túlki, og tilkynnti þeim að Andri væri látinn.
Daginn eftir flaug Aldís heim til Íslands ásamt Antoni bróður sínum og yngri systkinum þeirra. „Strax eftir að við lentum á Íslandi fengum við Anton fylgd í herbergi á flugvellinum þar sem mamma okkar og stjúppabbi biðu. Það var mjög stressandi að hitta foreldra sína í ljósi þess að það vantaði einn krakkann.“
Eftir heimkomuna segist Aldís hafa verið í mikilli afneitun og að það hafi tekið langan tíma að átta sig á því að Andri væri raunverulega dáinn.
Fyrstu dögunum eftir að Aldís kom heim frá Spáni eyddi hún að mestu inni í herberginu sínu. Tæpri viku eftir slysið reið annað áfall yfir þegar hún ákvað að fara inn á samfélagsmiðilinn Ask.fm en þar er hægt að senda skilaboð og spurningar til fólks nafnlaust. „Þú hefðir átt að detta úr rússíbananum. Fokkíngs ógeð,“ sagði í einum skilaboðunum. Önnur litu svona út. „Fokk, þetta er allt þér að kenna. Núna get ég ekki farið í Terra Mitica.“ Fleiri skilaboð má sjá hér til hliðar.
„Ég lenti í einelti þegar ég var yngri en það hætti sem betur fer. Síðan fæ ég öll þessi ógeðslegu skilaboð á þessum tímapunkti og heimurinn fór endanlega á hvolf.“
Í fyrstu burðaðist Aldís ein með tilfinningaflækjurnar sem mynduðust innra með henni eftir að hún las þessi óhuggulegu skilaboð. Hún segir það algeng viðbrögð því skömmin sé svo mikil.
„Mér fannst þetta auðvitað fáránlegt. Þú segir ekki svona við manneskju sem var að missa einhvern nákominn sér. Ég fékk fullt af fallegum skilaboðum líka en um leið og ég sá þessi ljótu þá stóðu þau upp úr.“
Aldís veit enn ekki hverjir sendu henni skilaboðin. Hún hefur ekki farið aftur inn á síðuna. „Ég veit ekkert hvað bíður mín ef ég fer þangað aftur,“ segir hún og bætir við, „mér finnst að foreldrar barna sem eru á Ask.fm, eigi að fylgjast vel með því sem gengur á þar inni. Sjá spurningarnar sem barnið fær og hvað það hefur verið að senda.“
Mánuðina eftir slysið leið Aldísi mjög illa. Hún varð þunglynd, var þjökuð af kvíða og greindist síðar með áfallastreituröskun.
[[0594DD2F94]]
Aldís endurupplifði aftur og aftur atvikið þegar grindin opnaðist og Andri féll úr rússíbananum og átti fyrir vikið erfitt með svefn. Þegar Aldís heyrir hljóð líkt og eitthvað sé að falla á steinsteypta jörð þá missir hún enn stjórn á tilfinningum sínum því það var hljóðið sem hún heyrði þegar Andri féll úr rússíbananum.
„Mér finnst sömuleiðis oft eins og ég sé að detta.“
Fyrstu mánuðina reyndi Aldís að loka á tilfinningarnar sem gerði þó ekkert annað en að magna þær upp. Að lokum náðu foreldrar Aldísar þó að sannfæra hana um að fara til sálfræðings.
„Sem betur fer tókst þeim það. Annars veit ég ekkert hvar ég væri stödd í dag.“
Aldís segir að nafnlausu skilaboðin hafi verið stór þáttur í vanlíðan hennar. Aldísi fannst hún ekki eiga skilið að lifa og óskaði þess að hún hefði dáið í staðinn fyrir bróður sinn.
Í dag eru tæp tvö ár frá slysinu. Aldís glímir enn við kvíða og segir þunglyndið blunda í sér. Hún segir það þó mjög jákvætt að hún sé farin að sofa töluvert betur og að það sé merki um bata hvað hún eigi orðið auðvelt með að ræða slysið og áhrif nafnlausu skilaboðanna á andlega líðan sína. Sömuleiðis er hún farin að geta talað miklu meira um bróður sinn og er orðin nánari vinum sínum aftur. Þrátt fyrir að eiga nokkuð í land með að finna hugarró þá skiptir Aldísi mestu máli í dag að hún stefnir í rétta átt.
Sveinn Sigfússon, faðir Aldísar Elvu, tók á móti blaðamanni DV á heimili sínu í Árbænum. Hann hafði verið að fylgjast með æsispennandi lokamínútum í úrslitaleik í körfubolta þegar ég bankaði upp á en restin af fjölskyldunni var stödd á leiknum. Á heimilinu ráða litagleði og notalegheit ríkjum.
Sveinn, eða Denni eins og hann er alltaf kallaður, hefur þægilega nærveru og nýtur þess mjög að tala um börnin sín sem hann er augljóslega mjög stoltur af. Í miðri íbúðinni er eiturgrænn minningarveggur sem er tileinkaður Andra. Myndir af honum hanga á veggnum. Upp við vegginn stendur skenkur þar sem duftker, kerti og aðrir hlutir sem tengjast Andra og hafa tilfinningalegt gildi fyrir fjölskylduna, fá að njóta sín. Ástæða þess að veggurinn er eiturgrænn er sú að það var uppáhaldslitur Andra. Þess vegna klæðist Denni aðeins grænum bolum eftir að Andri lést. Þegar við loks færum talið að 7. júlí 2014 færist nístandi sorg yfir andlit Denna.
Héldu að Andri myndi lifa
Við byrjum á að ræða augnablikið þegar hann frétti að Andri hefði fallið úr rússíbananum þennan örlagaríka dag. Denni rifjar upp að áfallið hafi verið svo gríðarlegt að hann hafi ekki þekkt Aldísi dóttur sína, sem var sömuleiðis afmynduð af skelfingu, þegar hann hljóp framhjá henni og upp að Andra. Í fyrstu töldu þau að Andri myndi lifa fallið af. Hann hreyfði sig mikið, umlaði og Denna fannst hann vera að reyna að standa upp.
„Eftir að við komum heim sagði réttarmeinafræðingur okkur að líkaminn geti hreyfst í allt að klukkutíma eftir svona fall. Þó svo að hjartað hafi haldið áfram að slá þar til hann var kominn í sjúkrabílinn lést hann í raun og veru samstundis. Hann átti aldrei von.“
Engin áfallahjálp
Það dimmir yfir andliti Denna þegar hann talar um upplifun barnanna af því að sjá Andra liggjandi á maganum í steinsteyptri mölinni. „Þú getur rétt ímyndað þér hvernig skrokkur sem fellur úr 18 metra hæð á svona miklum hraða lítur út.“Sumarfríið varð endasleppt eftir slysið voveiflega, en sólarhring síðar flaug barnahópurinn til Íslands. Sveinn og Hulda komu heim viku síðar þegar búið var að klára alla pappírsvinnu og koma kistu Andra í flug. „Ég get ekki ímyndað mér hvernig tilfinning það er að horfa á og heyra bróður sinn falla úr 18 metra hæð. Aldís var gjörsamlega stjörf þegar hún fór upp á flugvöll en hún var ekkert búin að sofa. “
Eitt af því sem Sveinn og Hulda hafa gagnrýnt er að ekkert áfallateymi tók á móti börnunum eftir að þau komu heim. „Ég hefði viljað að áfallateymi hefði fylgt prestinum sem hitti börnin daginn eftir að þau komu heim. Þau þurftu nauðsynlega á slíkri aðstoð að halda á þeim tímapunkti.“
Bent á að fara til sálfræðings
Nokkrum vikum seinna fékk fjölskyldan tíma hjá áfallateymi Landspítalans. Þar sem þau fóru ekki í gegnum bráðamóttöku spítalans þá áttu þau í raun og veru ekki rétt á þjónustunni.
„Ég fékk einn tíma og krakkarnir tvo. Eftir það var okkur bent á að fara til sálfræðings.“Denni segist sjá það núna hversu illa var haldið utan um fjölskylduna eftir að þau komu frá Spáni. Ekkert þeirra gerði sér grein fyrir því hversu mikilvægt það er að fá sálræna aðstoð við þessar aðstæður. Þau ætluðu sér að tækla sorgina á hörkunni en fljótlega eftir jarðarförina var þeim orðið ljóst að þau þyrftu utanaðkomandi aðstoð.Sömuleiðis fylgir gríðarlegur kostnaður því að sækja tíma hjá sálfræðingi en samtals hafa þau Denni og Hulda lagt út milljónir króna í kostnað vegna andláts Andra.
Heimurinn hrundi
Í fyrstu gekk foreldrum Aldísar illa að sannfæra hana um að fara til sálfræðings. „Við linntum ekki látum fyrr en hún lét undan. Það hefur hjálpað henni mjög mikið.“
Denni viðurkennir að hann hafi verið mjög sleginn þegar hann frétti af nafnlausu skilaboðunum sem Aldís fékk dagana eftir að bróðir hennar lést. „Það er skelfilegt að horfa upp á barnið sitt í svona hugarástandi. Heimurinn hennar hrundi gjörsamlega.“Hann segist hafa reynt að útskýra fyrir Aldísi að fólki, sem skrifaði svona, hlyti að líða mjög illa. Denni segir að einelti á netinu meðal unglinga sé miklu algengara en fólk geri sér grein fyrir og bendir á að mikið sé um að fólk hreinlega svipti sig lífi sökum eineltis.
Að auki segir Denni að Aldís hafi verið gagnrýnd fyrir að hafa fengið sér húðflúr í minningu Andra. „Það er auðvitað sérstakt að 14 ára barn fái sér húðflúr en kringumstæðurnar voru líka mjög sérstakar.“
Minningarferð í sumar
Aðspurður hvort hann hafi haft áhyggjur af því að Aldís myndi fremja sjálfsmorð svarar Denni: „Við vorum óheyrilega hrædd um öll börnin. Þetta eineltismál reif okkur ennþá meira niður. Það sem bjargaði Aldísi er hvað hún er sterkur persónuleiki og kemur sífellt á óvart.“
Í sumar ætlar fjölskyldan í minningarferð til Spánar og vera í garðinum á dánarstund Andra. Upphaflega ætluðu þau að fara í fyrra en þá voru börnin ekki tilbúin. „Ég veit að þetta verður gríðarlega erfitt fyrir þau. Að finna lyktina af Spáni og standa við tækið á þeirri stundu sem Andri lést. En þetta er þýðingarmikið fyrir okkur til að komast yfir áfallið. Við verðum að klára þennan kafla.“