Magnús Ingi Magnússon, forsetaframbjóðandi, er meðal þeirra sem ekki ætla frá að hverfa þrátt fyrir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi ákveðið að gefa kost á sér í sjötta sinn.
Magnús hefur starfað sem veitingamaður í þrjá áratugi og rekur meðal annars veitingastaðinn Texasborgara. Í gær sendi Magnús frá sér kosningamyndband sem má segja að sé nokkuð óhefðbundið.
„Ég sá mér leik á borði að bjóða mig fram því ég á full erindi,“ segir Magnús Ingi í upphafi myndbandsins. „Mig langar að gera embættið jákvætt. Vera í sambandi við fólkið í landinu á jákvæðan hátt.“
Í kjölfarið má sjá ótal svipmyndir frá Íslandi undir hæfilega dramatískri tónlist og loks poppsmell sem saminn var til heiðurs „Texas Magga“ en textinn er sunginn við lagið Cotton Eye Joe sem hljómsveitin Rednex gerði vinsælt um miðjan tíunda áratug.