fbpx
Fimmtudagur 05.september 2024
Fókus

Flosi: „Ég hef aldrei komist jafn nálægt því að týna lífinu eins og þennan dag“

Trillan Kári sigldi í strand á Breiðafirði árið 1981- Biðu klukkutímum saman í ísköldum sjó og myrkri

Auður Ösp
Miðvikudaginn 27. apríl 2016 20:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það augnablik er byrjaði að leka ofan í stígvélin hjá manni ískaldur sjór, er ógleymanlegt. Ég fæ ennþá hroll þegar ég hugsa um það,“ segir Flosi Þorgeirsson, gítarleikari HAM sem var hársbreidd frá dauðanum eitt aprílkvöld árið 1981. Hinn 13 ára gamli drengur var þá farþegi á trillunni Kára sem sigldi í strand á Selasundi skammt utan við Stykkishólm, og fór á hliðina. Við tók löng bið eftir björgun í myrkri og kulda en Flosi segist þó hafa verið furðurólegur miðað við aðstæður.

Í greinum sem birtust í Þjóðviljanum og Dagblaðinu árið 1981 er atburðurinn rifjaður upp. Í grein Þjóðviljans er rætt er við hálfbróður Flosa, Ólaf H. Torfason en þeir bræður voru um borð í Kára ásamt Jónasi Pálssyni stýrimanni, Melkorku Teklu, dóttur Ólafs og Ágústi Guðmundssyni kvikmyndagerðarmanni sem slóst með í för til að leita að hentugum tökustöðum fyrir kvikmyndina Útlaginn.

Fram kemur í greininni að þegar báturinn hafi lent á skeri og farið á hliðina hafi orðið aðfall og hafi Ágúst þá snarað sér úr fötum, bundið um sig kaðal og lagst til sunds, um 100 metra yfir til Purkeyjar. Þegar Ágúst kom í land tók við hálftíma gangur, hrakinn og blóðrisa á fótum, þar til hann hafði uppi á Ágústi Jóni Jónssyni sem var nýkominn til eyjarinnar og gat hringt eftir hjálp í landi.

Ólafur segir í samtali við Þjóðviljann að líkja megi för Ágústs við sund sjálfs Gísla Súrssonar og að það hafi verið mikið lán hversu vel Ágúst var á sig kominn líkamlega. Þá hafi menn jafnvel rætt um að skýra sundið upp á nýtt og kalla það Gústasund.

Gríðarlegt högg og allt hristist til

Í samtali við blaðamann DV.is rifjar Flosi upp þetta eftirminnilega kvöld fyrir þrjátíu og fimm árum.

„Það hafa margir haft það á orði við mig að þetta sé magnað og að þetta hljóti að hafa verið svakaleg lífsreynsla. En einhvern veginn hef ég ekki litið á það þannig,“ segir hann.

Viðhorfið var til mannskaða á sjó var öðruvísi í upphafi níunda áratugarins.

„Þessi slys voru þá algengari og þegar það gerðist þá töluðu menn varla um það. Ég hef rætt um þetta við eldri menn sem á árum áður störfuðu í Landhelgisgæslunni og allir minnast þeir þess að á þessum árum þekktist ekki áfallahjálp heldur voru hlutirnir þaggaðir niður. Menn áttu bara að harka þetta af sér,“ bætir hann síðan við.

„Það var ekki fyrr en löngu seinna að bróðir minn benti mér á hvað ég var í raun nálægt dauðanum þetta kvöld. Ég hafði aldrei spáð í því; enda kanski ekki eitthvað sem þú hugsar um þegar þú ert þrettán ára strákur.“

Reynslulítill á sjó

Flosi bjó á þessum tíma hjá hálfbróður sínum Ólafi í Stykkishólmi. Hinn baldni unglingur hafði verið sendur í sveitina til stóra bróðurs. „Svo byrjar hann á því að drepa mig næstum því með því að fara með mig í þessa ferð!“ segir hann og hlær.

„Ég var nú ekki mjög reynslumikill á sjó á þessum og hafði ekki farið í margar ferðir. En ég hafði alltaf gaman af því, og geri það enn,“ segir hann jafnframt. Svo virðist sem að slysið hafi ekki alið á hræðslu við sjó eða djúp vötn eins og algengt er hjá þeim sem ganga í gegnum raunir af þessu tagi.

Hann segir atburðinn vera ljóslifandi í minninu eftir öll þessi ár. „Þetta var rosaleg upplifun fyrir þrettán ára strák. Ég man ekki nákvæmlega allar tímasetningar en ég man mjög skýrt eftir því þegar við lentum á skerinu. Það er afskaplega vond tilfinning. Að finna þetta gríðarlega högg og allt hristast til.“

Ekki var hægt að kalla á hjálp þar sem talstöðin hafi farið á kafi og því varð úr að Ágúst Guðmundsson synti í land til að ná sambandi við vitavörð í eynni.

„Ágúst var afskaplega góður sundmaður svo þess vegna varð úr að hann fór út í sjóinn á meðan Óli bróðir var eftir hjá okkur krökkunum og stýrimanninum en sá var í miklu áfalli,“ segir Flosi og minnist þess að þeir Ólafur og Ágúst hafi sýnt aðdáðunarverða ró og yfirvegun við þessar aðstæður. Ég minntist einmitt á það við Ágúst um daginn hvað mér hefði fundist hann svalur þarna á þessum tímapunkti.“

„Ég man að ég horfði á Gústa í sjónum þar sem hann gaf frá sér andvörp og greip andann á lofti, enda sjórinn nístingskaldur, og straumarnir mjög sterkir. Þetta hefur því verið mikið erfiði fyrir hann.“

Báturinn kom á hárréttum tíma

Eftir þetta tók við óralöng bið „í algjörri óvissu“ eins og Flosi orðar það. Að hans sögn voru engin björgunarvesti um borð, enda varrúðarráðstafanir í sjóförum mun bágbornari á þessum árum heldur en þekkist í dag.

„En ég minnist þess ekki að hafa verið hræddur. Við vorum alveg merkilega róleg, þó svo að það hafi verið farið að húma og síðan orðið dimmt og kalt og aðstæðurnar orðið mjög óhugnalegar. Það var þá helst í lokin að manni leist ekki á blikuna,“ heldur hann áfram.

„Á þeim tímapunkti var báturinn kominn meira og minna á kaf. Við stóðum þarna á skerinu og sjórinn var farinn að flæða að. Við vorum orðin mjög köld. Ég hef setið skyndihjálparnámskeið eftir þetta þar sem ég hef lært hvað kuldinn getur verið öflugt drápsvopn. Ef við hefðum þurft að bíða í klukkutíma til viðbótar þá er ég ekki viss um að hefðum lifað þetta af. Kuldinn hefði verið orðinn þannig að hefði verið óbærilegur og líklega hefði hann þá orðið okkar banamein.

„Björgunarbáturinn kom því á hárréttum tíma,“ segir hann þvínæst og bætir við að tilfinningin sem hann fann þegar hann sá björgunarbátinn nálgast hafi verið ólýsanleg. „Mér verður alltaf svo hlýtt þegar ég rifja það upp. Það var frábær tilfinning að sjá bátinn koma. Og líka að sjá hvað þeir voru glaðir að finna okkur.“

„Mér skilst að skipsstjórinn hafi ætlað að fara á sjó að veiða þennan dag en eitthvað hafi sagt honum að vera heima. Allir aðrir bátar voru úti á sjó þennan dag og langt í burtu, þannig að hann var sá eini sem gat lagt strax af stað. Hann sagði seinna að hann myndi aldrei gleyma því þegar hann kom að okkur. Það hafi ssvo sannarlega ekki verið hugguleg sjón.“

Fær hroll við tilhugsunina um að stranda

Hann segir það vera mikinn létti að hugsa til þess hversu mikið varrúðarráðstafanir um borð í sjóförum hafa batnað á undanförnum áratugum.

„Ég þurfti á sínum tíma að fara á námskeið hjá Slysavarnarskólanum til að geta fengið að vinna á hvalaskoðunarskipi. Þá sá ég hvað Slysavarnarfélag Íslands hefur unnið gríðargott starf undanfarna áratugi, það hefur gífurlega mikið breyst á síðustu 35 árum. Það sést til dæmis á því þegar rætt er við menn sem á árum áður störfuðu hjá Landhelgisgæslunni. Þá þótti ægilega hallærislegt að vera með hjálm úti á sjó. Í dag þykir það alveg sjálfsagt.“

„Ég hef verið að vinna mikið á sumrin við hvalaskoðun á Húsavík. Þegar ég fer nálægt Lundey á Skjálfanda þá verður mér alltaf hugsað til þessa atviks, því þar hafa margir bátar strandað í gegnum tíðina. Þá kemur þessi minning alltaf upp í hugann,“ segir hann aðspurður um hvernig atvikið hefur lifað með honum í gegnum árin. „Það er alltaf þessi tilhugsun um að stranda sem vekur hjá mér hroll.“

Gangan var löng

„Það skipti sköpum að við höfðum þarna tíma til að vega og meta hvað væri best að gera. Svo var niðurstaðan sú að best væri að ég færi og synti í land,“ segir Ágúst Guðmundsson í samtali við blaðamann þegar kvöldið eftirminnilega berst til tals.

Hann minnist þess ekki að hafa frosið hugur við að stinga sér í ískalt hafið. „Maður var nú ungur og sprækur á þessum árum. Ég hef alltaf verið góður sundmaður, ég var bara að koma úr laugunni í þessum töluðu orðum,“ segir hann síðan glettilega.

„Ég hafði þó aldrei synt í svona köldum sjó. Ég dofnaði upp frekar fljótt og hafði aðallega áhyggjur af því að ég yrði of krókloppinn til að synda almennilega,“ segir hann síðan og rifjar upp að það hafi verið ansi löng gangan sem tók við þegar hann komst í land á eynni. „Ég varð fljótt móður og gat ekki gengið mjög hratt. Ég vissi að þetta hús var á eynni og hafði hugsað mér að brjótast inn í það til að geta hringt á hjálp. Svo var það til happs að húseigandinn var þarna staddur.“

Hann man atvikið vel eftir öll þessi ár og segist búa að þessari lífsreynslu.

„Einhvern veginn hafði maður þetta af. Ég var reyndar aldrei hræddur um líf mitt, ég vissi að ég myndi hafa þetta af. En það var vissulega skrítið að lenda í þessu. En svona gerast slysin. Þau gera sjaldnast boð á undan sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Bolli biðst afsökunar
Fókus
Í gær

Sunneva átti erfitt með að kveðja goðsagnakennda bílnúmerið – „Þetta er búið að vera svo gaman en samt mjög vandræðalegt“

Sunneva átti erfitt með að kveðja goðsagnakennda bílnúmerið – „Þetta er búið að vera svo gaman en samt mjög vandræðalegt“
Fókus
Í gær

Sagði Kanye West hafa sent sér hugskeyti og sagt henni að stela bílnum

Sagði Kanye West hafa sent sér hugskeyti og sagt henni að stela bílnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bandaríkjamaður fann kassa af myndum frá Íslandi á sjötta áratugnum – Sýna Ísland í skemmtilegu ljósi

Bandaríkjamaður fann kassa af myndum frá Íslandi á sjötta áratugnum – Sýna Ísland í skemmtilegu ljósi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Brad Pitt og kærastan stíga fram í sviðsljósið

Brad Pitt og kærastan stíga fram í sviðsljósið