fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Fókus

Helena, Ástrós og Ísabella komu til bjargar á Hlemmi: Allir hunsuðu manninn nema unglingsstelpurnar

Vegfarendur hunsuðu „ógæfumanninn“

Auður Ösp
Laugardaginn 23. apríl 2016 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Því er gjarnan slegið fram að unglingarnir nú til dags séu sjálfhverfir einstaklingar sem láti sig lítið varða um samfélagið. Það á svo sannarlega ekki við um vinkonurnar Helenu Rós, Ástrós Helgu og Ísabellu Rún sem síðastliðið þriðjudagskvöld komu ókunnugum manni til bjargar í miðborg Reykjavíkur. Höfðu þá aðrir vegfarendur látið manninn afskiptalausan. Vilja þær stöllur hvetja fólk til að bregðast við og huga að næsta manni ef hann virðist vera í neyð, sama í hvaða stöðu viðkomandi er.

Lá hreyfingarlaus

Vinkonurnar þrjár eru nemendur í tíunda bekk Ölduselsskóla og Seljaskóla og voru þær að koma af polefitness æfingu þegar þær urðu varar við manninn. „Þetta var á milli sex og hálf sjö um kvöldið. Við vorum þrjár saman að bíða eftir strætó á Hlemmi,“ segir Ástrós. „Þá sáum við manninn þar sem hann var liggjandi á bekk á stoppistöðinni.“

Samkvæmt vinkonunum lá maðurinn algjörlega hreyfingarlaus á bekknum og varla hægt að sjá hvort hann andaði. Hann var að sögn miðaldra og klæddur í ósköp venjuleg föt ,en lyktaði þó nokkuð þegar betur að var gáð: Líklega það sem flestir myndu kalla einn af „ógæfumönnum“ bæjarins.

Enginn skipti sér af

„Það var síðan alveg hellingur af fólki þarna í kring sem sá hann,“ segir Ísabella en bætir við að engu að síður hafi enginn annar skipt sér af manninum þrátt fyrir ástand hans. „Það komu reyndar tveir ungir strákar upp að honum og annar þeirra ýtti eitthvað við honum. Svo sagði hann við okkur að ef við vildum hjálpa honum þá gætum við bara hringt á hjálp. Svo fóru þeir og skiptu sér ekki meira af honum,“ segir Ástrós.

Þær stöllur segjast þvínæst hafa reynt að ýta við manninum sem sýndi engin viðbrögð. Ísabella kveðst þá hafa tekið upp símann til að hringja á neyðarlínuna en það var Helena sem sá um símtalið. „Þá var okkur sagt að bíða hjá honum og að það væri sjúkrabíll á leiðinni,“ segir hún.

Mikilvægt að skipta sér af

Lögregla og sjúkrabíll komu á staðinn innan nokkurra mínútna og tókst með miklum erfiðsmunum að koma manninum inn í sjúkrabíl. „Ég spurði einn lögreglumanninn hvort það myndi verða í lagi með manninn og hann sagðist ekki vera viss en hann héldi það samt,“ segir Ísabella.

„Þessi maður hefði getað verið alvarlega veikur án þess að nokkur vissi“

Stúlkurnar furða sig á að engum öðrum nálægum hafi dottið í hug að athuga með manninn, hvorki áður en þær þrjár fóru að hjálpa honum eða á meðan þær voru að koma honum til aðstoðar. Þær telja víst að fólk hafi talið ástæðulaust að koma manninum til aðstoðar.

„Það er kanski bara of algengt að sjá fólk í þessu ástandi niðri á Hlemmi. Ég held að fólk sé bara svo fljótt að ákveða, þegar það sér eitthvað svona, að þetta sé bara einhver dauður maður sem geti bara átt sig,“ segir Helena. „Þessi maður hefði getað verið alvarlega veikur án þess að nokkur vissi. Hvað ef hann hefði til dæmis verið að fá hjartaáfall?“ spyr Ísabella og hinar tvær taka í sama streng. „Það eru alltof margir sem sjá það bara sem tímasóun að vera að hjálpa þeim sem flokkast sem ógæfufólk,“ segir Ástrós.

Vinkonurnar vita ekki hver afdrif mannsins urðu en vonast að sjálfsögðu til að hann hafi fengið þá hjálp sem þurfti. Þær vilja allar hvetja fólk til að líta sér nær og koma náunganum til aðstoðar ef þörf er á. „Við vitum náttúrulega ekki alla söguna en við vonum að hann hafi fengið góða hjálp. Það er ótrúlega mikilvægt að skipta sér af.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vikan á Instagram – Athyglissjúk stjörnuhjón og bótox

Vikan á Instagram – Athyglissjúk stjörnuhjón og bótox
Fókus
Í gær

Aþena Sól var frelsissvipt og pyntuð en vitnið þagði – „Ég elska að sjá þig þjást“

Aþena Sól var frelsissvipt og pyntuð en vitnið þagði – „Ég elska að sjá þig þjást“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nær óþekkjanleg Ellen DeGeneres á pöbb í Bretlandi

Nær óþekkjanleg Ellen DeGeneres á pöbb í Bretlandi