Egill og félagar hans syrgja sinn gamla félaga, en Vilhjálmur svipti sig lífi þar síðustu helgi í Bandaríkjunum þar sem hann hafði búið síðustu fjögur ár.
„Hann var mikill húmoristi og alltaf til í að gera grín að sér sjálfum,“ segir Egill Einarsson, vinur Vilhjálms Árna Sveinssonar, eða Villa WRX eins og hann var oftast kallaður á síðum dagblaðana um miðjan síðasta áratug.
Egill og félagar hans syrgja sinn gamla félaga, en Vilhjálmur svipti sig lífi þar síðustu helgi í Bandaríkjunum þar sem hann hafði búið síðustu fjögur ár.
Fregnirnar eru reiðarslag fyrir félagana, en Sólmundur Hólm, fjölmiðlamaður, hefur einnig minnst félaga síns á Facebook þar sem hann hvetur fólk til þess að aðstoða fjölskyldu Vilhjálms við að fjármagna flutning á líkamsleifum Vilhjálms til Íslands, en slík aðgerð er mjög kostnaðarfrek.
Vilhjálmur, sem var fæddur árið 1985, varð landsfrægur á svipstundu þegar hann og Egill ákváðu að umbreyta útliti hans fyrir augum þjóðarinnar á síðum DV.
Fréttirnar skrifaði Sólmundur og má finna fjölmargar frásagnir af svaðilförum þeirra félaga, meðal annars þegar Vilhjálmur litar á sér hárið og lærir mannasiði hjá Agli.
„Við tókum smá „makeover“ grín á þetta. Mataræðið var tekið í gegn, fórum í ræktina og eitthvað svoleiðis,“ segir Egill í samtali við DV en það er óhætt að segja að greinarnar hafi ekki síður vakið athygli á Agli sem einkaþjálfara og fígúru.
Egill fékk í kjölfarið sjónvarpsþátt á Sirkus sjónvarpsstöðinni sálugu sem naut mikilla vinsælda hjá ungum áhorfendum.
„Þetta vakti alveg lygilega mikla athygli á sínum tíma. Í þættinum rifum við líka Gússa [Gunnar Jónsson leikara] í gang sem og Davíð Þór Jónsson,“ segir Egill.
„Þetta varð svona ótrúlega vinsælt vegna þess hversu fyndinn og skemmtilegur Villi var,“ segir Egill sem á sínum gamla félaga margt að þakka.
Leiðir skildu þó fyrir nokkrum árum þegar Vilhjálmur flutti til Bandaríkjanna. Þar kynntist hann konu og giftu þau sig skömmu síðar. Það er ljóst að samstarfið með Agli varð til þess að Villi fékk mikinn áhuga á líkamsrækt og almennu hreysti og starfaði hann sem einkaþjálfari þar til hann lést.
„þetta breytti alveg lífi hans. Villi fór að vinna sem einkaþjálfari og var fær í sínu fagi og vissi heilmikið um þetta,“ segir Egill og bætir við: „Það var alltaf gaman að taka æfingar í Sporthúsinu með honum, enda klár náungi.“
Vilhjálmur hafði tekist á við krabbamein og sigrast á því. Það breytti því þó ekki að þunglyndið náði yfirhöndinni með þeim afleiðingum að hann svipti sig lífi.
Fjölskylda Vilhjálms vinnur nú hörðum höndum að því að flytja hann heim aftur með það að leiðarljósi að hann verði jarðsungin hér á landi.
Slíkur flutningur kostar töluvert og því vill Egill og fjölskylda Vilhjálms koma reikningsnúmeri fjölskyldunnar á framfæri, vilji fólk létta undir með aðstandendum Vilhjálms.
Hér má finna bankaupplýsingar.
Reikningsnúmer: 0536-14-400569 kt. 050578-5859