Hugsaði um sjálfsvíg daglega – Íþróttirnar hjálpuðu honum
Akureyringurinn Eymundur Lúter Eymundsson hefur verið frá unga aldri verið illa haldinn af félagsfælni, kvíða og þunglyndi. Eymundi, líkt og mörgum sem glíma við geðræn vandamál tókst að fela líðan sína fyrir vinum og fjölskyldu.
„Þetta er mikið myrkur, já,“ sagði Eymundur í samtali við DV og bætti við að eymdin hafi fylgt sér um langa hríð. Aðspurður hvort honum líði illa alla daga, svarar hann að svo sé ekki alveg. „Ég kvíði fyrir að fara út í daginn. Ég þorði ekki að tala um þetta þegar ég var yngri og birgði þetta bara inni. Frá tólf ára aldri hafa sjálfsvígshugsanir herjað á mig daglega,“ segir Eymundur.
„Íþróttirnar voru það sem hélt mér gangandi. Þegar maður var búinn með grunnskóla, þá treysti maður sér ekki í neitt. Maður sá engan tilgang,“ segir Eymundur. Að sögn Eymundar var lítið talað um geðræna sjúkdóma á hans yngri árum. „Það var svo mikil skömm sem fylgdi þessu. Maður hélt að maður væri eitthvað öðruvísi,“ segir hann.
Í viðtali sem birtist á dögunum við Eymund á vef SÍBS greindi hann frá veikindum sínum. Í viðtalinu greinir hann frá hvernig hann hafi falið veikindi sín fyrir fjölskyldunni og sagði frá hvernig hann reyndi að taka ekki þátt í fjölskyldulífinu.
„Ég fór ekki einu sinni út í búð. Átján ára var ég farinn að borga þeirri yngstu af þremur systrum mínum fyrir að út í búð fyrir mig, hún var níu ára og ég lét hana einnig fara í bankann fyrir mig. Allir héldu að ég væri svona góður að skaffa henni tækifæri til að vinna sér inn pening. Ég keypti mér íbúð árið 1995 og bjó í henni í hálft ár. Ég fór aldrei í Bónus að versla inn, heldur í Hagkaup klukkan hálf átta á kvöldin, þá voru fæstir að versla og ég fór alltaf í kerfi fyrir framan kassastelpuna,“ segir Eymundur.
Aðspurður hvort hann hafi átt kærustur á unglingsárunum, segir hann aldrei neitt slíkt hafa verið í gangi hjá sér. Hann segist hafa kynnst konum þegar hann hafi verið undir áhrifum áfengis. Sumar hverjar hafi viljað eiga í nánara sambandi við hann, en það var eitthvað sem hann gat ekki hugsað sér.
Við 27 ára aldur lenti hann í því að greinast með bein í bein í mjaðmarlið. Þá þurfti hann að hætta afskiptum af fótboltanum. Hann segir að skipt hafi verið um lið í sér árið 1998 og að eigin sögn hafi það hafi það farið illa með hann og þegar liðið var á fullorðinsár Eymundar fór hann að nota áfengi til að slá á áhrif sjúkdómsins.
Árið 2004 segist hann aftur hafa þurft að fara í mjaðmaliðaskipti, sömumegin. Hann telur þá aðgerð hafa bjargað lífi sínu. „Aðgerðin heppnaðist reyndar ekki nógu vel þannig að ég hef verið verkjasjúklingur æ síðan. En þess vegna þurfti ég að fara í verkjaskólann inni á Kristnesi, og þar fékk ég mína fyrstu fræðslu um kvíða, félagsfælni og þunglyndi,“ þarna segir Eymundur að ljós hafi runnið upp fyrir sér, eftir erfið veikindi.
Sjálfseflingu sína segir hann hafa byrjað árið 2007 hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands. Hann greinir frá því í viðtalinu við SÍBS að hann hafi byrjað aftur í skólanámi á þessum tímapunkti, þar sem hann hafði ekki hlotið neina menntun eftir grunnskóla. Enn fremur segir hann að eftir sex vikna prógramm á Reykjalundi þá hafi líf hans verið stöðugt upp á við.
Í dag starfar hann við Grófina – geðverndarmiðstöð. Þar miðlar hann reynslu sinni til þeirra sem eru að glíma við það sama og hann gerði á sínum yngri árum. Hann segist núna fyrst vera orðinn sáttur við sjálfan sig – og það sé það sem skipti mesti máli. „Ég er orðinn virkur þátttakandi í lífinu, til dæmis innan fjölskyldunnar. Ég kvíði ekki lengur að vakna á morgnana og eiga allan daginn framundan – heldur er þvert á móti byrjaður að njóta þess að vera til,“ segir hann að lokum.