Andri Már lét lífið í fallhlífarstökki þegar varafallhlíf hans opnaðist of seint – „Ég var svo ótrúlega reið og sár “
„Ég var svo ótrúlega reið og sár þegar mér var tjáð þetta og hugsaði bara af hverju í ósköpunum þessi varafallhlíf hefði þá verið þarna?“ segir Alda Kolbrún Haraldsdóttir, móðir Andra Más Þórðarsonar sem lét lífið í fallhlífastökksslysi í Flórída þann 23. mars 2013. Aðalfallhlíf hans opnaðist ekki en kennari hans, Örvar Arnarsson fórnaði lífi sínu við að reyna að bjarga honum. Varafallhlífar þeirra beggja opnuðust en náðu ekki að virkjast í tæka tíð. Þeir létust báðir við fallið. Alda segir viss atriði í kringum fráfall Andra sitja í sér. Vitanlega myndi hún aldrei hvetja neinn af fyrra bragði til að stunda slíkt áhættusport. Rætt er við Öldu Kolbrúnu í helgarblaði DV sem kemur út í dag.
Það var ekki auðvelt að opna lokið á kistu Andra. Það sára augnablik rifjar Alda upp með miklum herkjum. „Ég vissi að hann var meiddur en ég vissi ekki hversu illa slasaður hann var,“ segir hún og tekur örstutt hlé á máli sínu. „Helmingurinn af andlitinu var svo illa brotinn að hann var óþekkjanlegur.“
Það var falleg stund þegar Andri var jarðsunginn þann 11. apríl. Stutt var í að Andri hefði fagnað tuttugasta og sjötta afmælisdeginum. Eins og við var að búast var kirkjan þéttsetin. Bubbi Morthens söng Kveðju.
„Andra, sem við kveðjum í dag, auðnaðist ekki að eiga langt líf, því miður. Hörmulegt slys þar sem hann lést á erlendri grund við annan mann kom yfir okkur öll sem reiðarslag, högg sem svo sannarlega svíður undan,“ var meðal þess sem séra Svavar Stefánsson las upp. Tilviljun réði því að jarðarförin fór fram sama dag og Tristan Andri, sonur vinar hans, hefði átt að koma í heiminn.
Hún kveðst einnig setja spurningarmerki við það að nemendur í fallhlífarstökki fái að stökkva einir eftir einungis nokkur stökk þar sem þeir eru fastir við kennara. „Mér finnst þetta persónulega of fljótt. Þetta er náttúrlega val hvers og eins en mér finnst að fólk ætti ekki að fá að stökkva eitt svona snemma. Ég hef ótal sinnum fengið að heyra þá afsökun að það séu fleiri sem deyja í bílslysum heldur í fallhlífarstökki en það má ekki gleyma að í fallhlífarstökki eru svo miklu fleiri hlutir sem þarf að huga að. Það eru miklu fleiri hlutir sem maður þarf að vera meðvitaður um.“
Örvar er svo sannarlega hetja fyrir að hafa stokkið á eftir Andra og ég veit að hann reyndi allt sem hann gat til að bjarga honum. Það hefðu ekki allir gert það. Og mér skilst á þeim sem þekktu Örvar að hann hafi verið þannig gerður; öðlingsmaður og falleg sál og líklega hefði hann aldrei verið sáttur ef hann hefði ekki stokkið út á eftir honum,“ heldur Alda áfram.