fbpx
Miðvikudagur 04.september 2024
Fókus

Elsa og Gabríel standa þétt saman: Aðeins 13 ára og ítrekað reynt sjálfsvíg – „Hver dagur er sigur“

Eineltið enn til staðar þrátt fyrir fjölmiðlaumfjöllun – „Hann vill að fólk beri virðingu fyrir honum eins og hann er“

Auður Ösp
Þriðjudaginn 12. apríl 2016 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við tökum einn dag í einu og í raun einn klukkutíma í einu því ég veit aldrei hvernig dagurinn er hjá honum,“ segir Elsa Margrét Víðisdóttir, móðir Gabríel Víðis en þau mæðgin stigu fram í viðtali við DV árið 2011 og greindu frá hrottalegu einelti sem Gabríel hefur orðið fyrir frá sex ára aldri en hann er greindur með ódæmigerða einhverfu, ADHD, þroskaröskun, lina vöðva og málstol. Gabríel verður fjórtán ára á þessu ári og forvitnaðist blaðamaður DV.is um hver staðan er í dag hjá þeim mæðginum.

Í samtali við blaðamann segir Elsa að eftir að þau mæðgin stigu fram í viðtali við DV árið 2011 hafi viðbrögðin verið gríðarleg, í langflestum tilvikum góð en inn á milli hafi þó einnig leynst neikvæðar athugasemdir. Í viðtalinu sagði Elsa meðal annars frá því að Gabríel liði svo miklar sálarkvalir vegna eineltisins að hann hefði sagst vilja „sofna að eilífu.“ Þá var Gabríel aðeins níu ára. Hafði hann gert tilraun til sjálfsvígs. Umfjöllun DV vakti mikla athygli og fékk Gabríel gríðarlegan stuðning alls staðar að úr þjóðfélaginu. Meðal annars var samið um hann lag og þjóðþekktir einstaklingar tóku sig til og buðu Gabríel út að borða og bíó og sáu til þess að hann ætti glaðan dag. Þá sagði Elsa frá grimmilegu einelti sem Gabríel hefur mátt þola í samtali við Bleikt tveimur árum síðar.

Í kjölfar umfjöllunar DV fór Gabríel í Selásskóla og fékk þar frábærar móttökur. „Skólinn og starfsfólk var til fyrirmyndar en sá skóli er eingöngu upp í sjöunda bekk og þurfti hann því að kveðja þann skóla í fyrra með miklum söknuði. Auðvitað voru skin og skúrir en starfsfólkið tók tillit til einhverfu Gabríels og hélt vel utan um allt ásamt flottri vinnu milli heimilis og skóla. Eftir Selásskóla fór hann í Brúarskóla en þar starfar eingöngu fagfólk og vel er tekið á öllu. Allt er sett upp að hans þörfum og mjög vel skipulagt. Þessi skóli er til fyrirmyndar í einu og öllu og á mikið hrós skilið fyrir sína vinnu,“ segir Elsa.

„Hann þráir að falla inn í hópinn“

Gabríel er afar sterkur námsmaður og á auðvelt með að læra. „Hann rannsakar allt vel og vill djúp svör við öllu. Vegna greininga hans verður hann því miður oft á milli tannanna á fólki, bæði börnum og fullorðnum. Einhverfir sækja ekki mikið í samveru eða hópa en Gabríel gerir það og það veldur honum oft erfiðleikum því hann ræður ekki við aðstæður. Hann segir kannski eitthvað sem er ekki viðeigandi en meinar engu að síður vel. Hann þráir að falla inn í hópinn en hann á erfitt með það. Það koma dagar þar sem að krakkar leyfa honum að vera með en þeir dagar eru því miður fáir.“

Eineltið enn til staðar

Elsa segir að einelti í garð Gabríels sé vissulega enn til staðar og komi í dag fram á annan hátt en áður. Dregið hafi úr líkamlegu einelti að einhverju leyti en andlega eineltið hafi ekki hætt. „Hann fær misskemmtileg skilaboð í pósti og Facebook og mikið öskrað á eftir honum ef hann er úti, þetta eru allskonar ljót og niðrandi orð,“ segir hún og bætir við að meðal annars hafi aðilar skemmt síma Gabríels og tölvu og tekið af honum peninga. Alltaf sé hann þó tilbúinn til þess að taka á móti afsökunarbeiðni og fyrirgefa, þó svo að hann fái dauðu hlutina ekki bætta.

„Hann hefur í nokkur skipti reynt að kveðja okkur vegna vanlíðunar og áreitisins sem fylgir þessu öllu. Ég er mjög opin hvað varðar greiningar og einnig hvað varðar sjálfsvígstilraunir hans. Við höfum í nokkur skipti frá síðustu frétt sem birtist um hann, þurft að bjarga honum frá sjálfsskaða. Einelti er út um allt og ekki tengt einum stað sérstaklega. Netið er auðvitað erfitt að eiga við.“

„Í gegnum eineltið og stríðnina er hann alltaf tilbúinn að fyrirgefa“

„Gabríel er glaður strákur sem vill öllum vel en vegna fötlunar sinnar er hann mjög misskilinn. Ef hann reiðist verður hann mjög sár og reiður, en það er alltaf ástæða fyrir því. Ef hann er glaður fer það heldur ekki á milli mála. Í gegnum eineltið og stríðnina er hann alltaf tilbúinn að fyrirgefa,“

Elskar dýr

Gabríel á sér mörg áhugamál að sögn Elsu eins og tölvur, hjól, boltaíþróttir og bretti. „Hann getur þó ekki stundað boltaíþróttir eins og hann gerði vegna veikinda og verkja í fótum og vegna greininganna hans tekur hann ýmis konar lyf sem valda bæði þyngdaraukningu og bjúg.“

„Bestu vinir hans eru gæludýrin hans og einnig starfsfólk úr Vinakoti en þangað hefur hann fengið að fara í nokkur skipti til að auka á félagsleg samskipti og minnka depurð og kvíða. Einnig til að auka lífsviljann og minnka sjálfsskaða, byggja upp sjálfstraust og hjálpa honum með samskipti,“ segir Elsa síðan og tekur fram að frábært fólk starfi í Vinakoti. „Eftir skóla fer hann í um tvo klukkutíma í frístund sem heitir Höllin og þar starfa einnig algerir englar sem hafa stutt okkur í nokkur ár og gert mikið fyrir Gabríel.“

Fá úrræði í boði

Elsa segir að einhverf börn eða börn með nokkrar greiningar eins og Gabríel séu oft kölluð „bolta börnin.“

„Það er lítil úrræði eru fyrir þau og fjölskyldur þeirra. Almenningur situr oft hinum megin við borðið og skilur ekki hvað við foreldrarnir erum að tala um því fáfræðin er svo mikil. Minn strákur er til dæmis mjög klár og fattar vel ef fólk lýgur að honum eða sýnir honum kulda og óvirðingu,“ segir hún.

„Hann þekkir orðið „nei“ ansi vel og fær oft ekki að fara inn í hóp nema gefa hluti af sér eins og nammi, ís, föt, dót eða tölvuleiki. Hann gerir allt fyrir viðurkenningu og það er mjög sárt að heyra af því.“

Þakklát lögreglunni

Elsa segir að nú þegar Gabríel er kominn á kynþroskaaldur og farinn að taka út líkamlegan þroska þá vandist hlutirnir nokkuð:

„Hann er orðin hærri en ég og í sínu ójafnvægi getur verið erfitt fyrir mig að ræða við hann í þeim ham. Þá hef ég þurft að fá lögreglu til að hjálpa mér. Þetta eru vissar maníur: hann heyrir varla og bara veður áfram og getur þá meitt sig eða óvart mig. Ég var nú ekkert á því að hringja fyrst á lögreglu enda fannst mér það lítið passa við skapkast hjá fötluðum syni mínum en svo kyngdi ég stoltinu og lét vaða og hringdi eitt sinn,“ segir hún.

Hún ber lögreglunni í Reykjavík vel söguna og vill þakka þeim fyrir skilning og vel unnin störf. „Það er ekki sjálfgefið að fá svona skilning og flotta umhyggju eins og þeir sýndu okkur. Ég hef nýtt mér aðstoð þeirra eftir þetta eða þegar mér finnst eins og hann sé að fara sér á voða og alltaf grípa þeir jafn fljótt og vel inn í. Mér þykir mjög vænt um það. Umhverfið skiptir einnig miklu og svo hef ég góða nágranna sem ég met mikið.“

Stóð sig eins og hetja

Síðasta sunnudag rann upp stór stund í lífi Gabríels en þá var hann fermdur. „Hann var einn með frábærum presti sem sérhæfir sig í að ferma börn með ýmsar greiningar eða fötlun. Hún heitir Guðný Hallgrímsdóttir og var dagurinn algerlega eftir hans höfði. Hann valdi að spila geisladiskinn með Hjálmum undir athöfninni. Athöfnin var rétt 15 mínútur og þá bauð hann ættingjum og vinum uppá mat og kaffi. Hann stóð sig eins og hetja þrátt fyrir áreiti og álag.“

Elsa vill hvetja fólk til að kynna sér nánar raskanir á borð við einhverfu, ADHD, málstol, kvíða, þráhyggu og hvatvísi. Andstætt við það sem margir foreldrar haldi þá smiti þessar raskanir ekki börnin þeirra.

„Við getum öll lært mikið af einhverfum, til dæmis að dæma ekki og taka öllum eins og þeir eru. Gabríel kennir okkur öllum eitthvað nýtt á hverjum degi en oft eru dagarnir ekki auðveldir. En við mæðgin erum sterk saman og systkini hans eiga hrós skilið fyrir að vera til staðar fyrir hann. Það má gleyma því að það er líka erfitt að eiga systkini með fötlun.“

„Gabríel vill fyrst og fremst að þegar fólk hittir hann, þá beri það virðingu fyrir honum eins og hann er. Hann er ekki einhverfa, heldur er hann með einhverfu. Gabríel er mjög flottur og klár strákur sem þarf að taka einn dag í einu og andlegt eða líkamlegt áreiti er ekki boðlegt.“

Elsa stendur þétt við bakið á syni sínum og hefur alltaf gert. „Við höldum áfram að berjast og vera sterk. Hver dagur er sigur og erum við þakklát fyrir hvern dag,“ segir hún að lokum. Hún viðurkennir að það taki á andlega að standa í baráttu dag eftir dag. „Ég á það alveg til að brotna. En ég stend og veð eld og brennistein fyrir hann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Konan mín fór í háloftaklúbbinn með öðrum en mér

Konan mín fór í háloftaklúbbinn með öðrum en mér
Fókus
Í gær

Bensi og Sunneva hugsa sér til hreyfings

Bensi og Sunneva hugsa sér til hreyfings
Fókus
Í gær

Hinn fimmtán ára Oddur Bjarni leggur til SKVÓP matseðil í grunnskólum landsins – Hefur sent forsetanum bréf

Hinn fimmtán ára Oddur Bjarni leggur til SKVÓP matseðil í grunnskólum landsins – Hefur sent forsetanum bréf
Fókus
Í gær

Margar spurningar leituðu á hugann þegar óléttuprófið reyndist jákvætt nokkrum dögum eftir að þau komu heim af sjúkrahúsinu

Margar spurningar leituðu á hugann þegar óléttuprófið reyndist jákvætt nokkrum dögum eftir að þau komu heim af sjúkrahúsinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur veit leyndarmálið á bak við betri heilsu

Ragnhildur veit leyndarmálið á bak við betri heilsu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Móðir sem fór í Disney World en skildi börnin eftir heima skiptir fólki í tvö lið

Móðir sem fór í Disney World en skildi börnin eftir heima skiptir fólki í tvö lið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Kroppamyndataka á hótelherbergi og skvísufrumsýning

Vikan á Instagram – Kroppamyndataka á hótelherbergi og skvísufrumsýning
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég myndi ekki vilja að dóttir mín væri í sambandi með manni eins og mér“

„Ég myndi ekki vilja að dóttir mín væri í sambandi með manni eins og mér“