Frétt unnin upp úr færslu um meydómsmissi – Sendi póst á Hringbraut í gær
„Ég sendi póst til ritstjórnar Hringbrautar í gær og lýsti yfir furðu minni á þessu fréttamati,“ segir Erla Hlynsdóttir blaðakona í samtali við DV um frétt sem birtist á vef Hringbrautar í gær. Umrædd frétt var unnin upp úr lokaðri Facebook-færslu Erlu og tengdist brunanum á Grettisgötu á mánudagskvöld.
Í færslunni upplýsti Erla að hún ætti minningar tengdar húsinu sem brann, nánar tiltekið hefði hún misst meydóminn í húsinu. Umrædd færsla var lokuð og var markmið Erlu að slá á létta strengi. Engu að síður vann Hringbraut frétt upp úr færslunni og var fyrirsögnin: ERLA MISSTI MEYDÓMINN Í BRENNDA HÚSINU.
Nokkur umræða spannst um þetta á Facebook-síðu Erlu og kom fréttin Erlu – og fleirum til – í opna skjöldu. Erla segir til dæmis að hún hafi aldrei átt von á því að nokkur fjölmiðill myndi taka færsluna upp og skrifa frétt upp úr henni. Þess vegna hafi hún leyft sér að skrifa færsluna.
Í samtali við DV kveðst Erla ekki hafa fengið nein viðbrögð við póstinum sem hún sendi á Hringbraut. Í nýrri Facebook-færslu, sem DV fékk leyfi til að birta, segir Erla í léttum dúr:
„Jæja, kæru Facebook-vinir. You have done this to yourselves: Ég ætla aldrei aftur að vera fyndin á Facebook. Héðan í frá ætla ég bara að skrifa um gengisþróun og holur í malbiki.“