Íþróttakonur upplifa togstreitu á milli þess að vera stæltar og að vera kvenlegar
„Það eru bara alltof margar konur í dag sem hafa afskaplega lélega sjálfsmynd, hvort sem þær eru grannar, breiðar eða með vöðva. Það er engin ein fullkomin líkamsímynd og það er leitt að sjá hvað það eru margar flottar konur sem eru að láta þetta rífa sig niður. Það er eins og það sé alltaf hægt að finna eitthvað til að rífa sig niður. Við erum aldrei nógu fullkomnar. Ef við tikkum í eitt box þá tikkum við ekki í eitthvað annað,“ segir Anna Soffía Víkingsdóttir júdóþjálfari í samtali við DV.is.
Anna Soffía starfar sem júdóþjálfari hjá Draupni á Akureyri þar sem hún þjálfar bæði karla og konur frá 10 ára og upp í fimmtugt. Sjálf hefur hún stundað íþróttina frá barnsaldri og segist hún vissulega hafa fengið athugasemdir fyrir að vera að æfa „strákasport.“ „Ég hef líka séð þetta hjá þeim stelpum sem ég hef þjálfað, það er þessi togstreita að vilja æfa íþrótt sem gerir mann sterkan og stæltan en á sama tíma áttu að vera sæt, fínleg og kvenleg. Þú lendir svolítið á milli steins og sleggju. Þetta er sérstaklega algengt hjá stelpum frá 15 og upp í 20 ára.“
Hún birti nýlega meðfylgjandi mynd af sér á Facebook en í samtali við blaðamann segist hún hafa viljað vekja fólk, og þá sérstaklega konur, til umhugsunar um mikilvægi þess að hafa heilbrigða líkamsímynd.
„Þetta er líkaminn minn. Ég hef lagt mikið á hann í gegnum tíðina bæði æfingalega séð og með slæmum hugsunum. Ég byrjaði að æfa Júdó mjög ung og því komu vöðvarnir fljótt í ljós. Mér hefur þótt líkaminn minn of massaður og því ekki nógu kvenlegur. Einnig hefur mér oft fundist hann of feitur eða hann mætti nú missa nokkur kíló og hann hefur því stundum þurft að vera vannærður,“ ritar Anna Soffía í færslu sem fylgir myndinni.
„Fyrir stuttu síðan fór ég markvisst að taka líkamann minn í sátt enda er hann frábær! Þessi líkami kemur mér á milli staða, hann er fáránlega sterkur (góður til dæmis að aðstoða við flutninga), getur lyft þungum hlutum og kastað fólki og læst það og hengt. Einnig býr hann yfir mjög góðu faðmlagi fyrir fólk sem þarf á því að halda.“
Anna Soffía brýnir fyrir fólki að bera virðingu fyrir líkama sínum.
„Við erum ekki öll eins og það er frábært enda væri lífið ekkert skemmtilegt ef við værum það. Líkaminn sem við fengum í fæðingu er okkar og því þurfum við ekki aðeins að hugsa vel um hann heldur þurfum við einnig að hugsa vel til hans.“