Þrjár kynslóðir taka höndum saman í Þórunnartúni
Johansen Delí heitir ný sælkeraverslun sem var opnuð í vikunni í Þórunnartúni 2 í Reykjavík. Þrjár kynslóðir sælkera standa að Delíinu. Það eru þeir Ámundi Óskar Johansen, faðir hans, Carl Jónas Johansen, og afi, Sveinn Valtýsson.
Fyrir viku var haldið opnunarhóf í Delíinu og lögðu fjölmargir leið sína í nýju verslunina. Smakk var í boði og fór enginn svangur af vettvangi.
Þeir feðgar reka Veislumiðstöðina í Borgartúni og hafa gert í rúman áratug. Ein af ástæðunum að hugmyndin að Delíinu kviknaði var áhugi viðskiptavina á mörgu af því sem boðið var upp á í veisluþjónustunni. „Við finnum fyrir miklum áhuga og þetta er virkilega spennandi,“ sagði Ámundi í samtali við DV í opnunarhófinu. Hægt er að kaupa mat, snarl eða tilbúna vöru fyrir öll tækifæri í Johansen Delí.