Fyrrverandi öryggisvörður Elton John hefur lagt fram kæru á hendur honum fyrir kynferðislega áreitni en hann segist hafa orðið fyrir grófu áreiti af hálfu söngvarans árið 2014. Þá hefur hann einnig lagt fram kæru á hendur söngvaranum fyrir líkamsárás.
Fram kemur á vef TMZ að öryggisvörðurinn haldi því meðal annars fram að Elton hafi leitað á sig þegar þeir sátu saman í bíl, gripið um kynfæri hans, þuklað á honum og klæmst við hann. Einnig heldur hann því fram að söngvarinn hafi í annað skipti snúið upp á geirvörturnar hans og haft í frammi óviðeigandi orðbragð.
Þá heldur öryggisvörðurinn því fram að söngvarinn hafi margsinnis áreitt sig á meðan hann starfaði fyrir hann, þrátt fyrir hann hefði ítrekað sagt honum að að hætta. Hann lét af störfum í september 2014. Elton John hefur sjálfur ekkert tjáð sig um málið, né talsmenn hans.