Var ættleidd af ömmu sinni og hefur aldrei kynnst föður sínum
Ragna Fossberg,einn ástsælasti förðunarmeistari þjóðarinnar ólst upp við nokkuð óvenjulegar fjölskylduaðstæður. Móðir hennar var heilsulítil og var Ragna því ættleidd af ömmu sinni sem gekk henni í móðurstað. Föður sinni þekkti hún hins vegar aldrei.
Ragna er í ítarlegu viðtali við Páskablaði DV þar sem hún ræðir meðal annars hið óvenjulega fjölskyldumynstur. Hún ólst upp hjá ömmu sinni og blóðmóðir hennar bjó hjá þeim. Hún segist hafa fengið „fínt uppeldi“: „Ég fékk uppeldi mitt frá tveimur konum og þekki ekki föður minn. Ég veit ekki hver hann er. En það undarlegasta er kannski að ég hef aldrei haft einhverja löngun til að komast að því.“
Sú staðreynd að Ragna var ættleidd af ömmu sinni var aldrei rædd að hennar sögn. „Ég man alltaf eftir því þegar ég þurfti að fá fæðingarvottorð fyrir ferminguna, þá hreinlega las ég það þar að ég væri ættleidd af ömmu minni. Auðvitað vissi ég þetta en það var aldrei rætt. Þetta var fyrsta staðfestingin sem ég fékk svart á hvítu á blaði. Mömmu hef ég alltaf kallað systur mína þó að hún hafi verið 28 ára þegar hún átti mig.“