Hin 57 ára gamla Janet Horrocks hefur eytt andvirði tæpra sjö milljóna íslenskra króna í alls kyns fegrunaraðgerðir. Ástæðan er sú að hennar heitasta ósk er að líta út eins og 35 ára gömul dóttir sín Jane Cunliffe, sem tók svo sannarlega ekki vel í uppátæki móður sinnar í fyrstu.
Janet, sem kemur frá Burnley í Englandi hóf að leggjast undir hnífinn árið 2001 og hefur síðan þá gengist undir brjóstastækkun, nefaðgerð og augnlyftingu, svo fátt eitt sé nefnt. Þá hefur hún látið sprauta botox í andlitið, sett í sig hárlengingar og látið tattúvera á sig augabrúnir auk þess sem hún hefur misst 12 kíló.
Auk þess að vera nauðalíkar í útliti eiga þær mæðgur nákvæmlega eins smáhunda. „Ég vil líta út eins og dóttir mín af því að hún er falleg, ég skapaði hana og ég vildi virkilega öðlast þetta útlit. Ég þurfti bara aðeins að eiga við líkamann og andlitið til að virðast yngri,“ segir Janet.
Dóttirin segist hafa verið „dauðskelkuð“ í fyrstu þegar hún komst að ætlunarverki móður sinnar. „Ég hafði áhyggjur af því að hún myndi að lokum líta út fyrir að vera yngri en ég og að það er að sjálfsögðu frekar ógnvænleg tilhugsun þar sem dóttirin á auðvitað ekki að líta út fyrir að vera eldri en móðir sín,“ segir Jane.
„Mér fannst eins og æskuljóminn væri tekinn af mér og mér fannst það ekki sanngjarnt,“ segir hún jafnframt og bætir við að á tímabili hafi hún neitað að láta sjá sig með móður sinni á almannafæri vegna þess að ókunnugt fólk dró alltaf þá ályktun að þær tvær væru systur.
Segir hún að á þeim tíma hafi hún verið yngri og óöruggari en í dag sé búin að sætta sig við hlutina. Þær mæðgur eru í dag afar nánar og eyða miklum tíma saman. Jane segist þó hafa önnur viðhorf en móðir sín þegar kemur að því að eldast. Hún er á móti lýtaaðgerðum og hyggst halda sínu náttúrulega útliti í framtíðinni.
Janet segist hins vegar ekki vilja deyja eins og „hrukkótt, gömul kona“ og kærir sig kollótta um álit fólks á aðgerðunum sem hún hefur farið í. „Þetta er minn líkami og ég geri það sem ég vil við hann. Ef fólk hefur eitthvað á móti því þá er mér í raun alveg sama.“