fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Fókus

Una Margrét í topp 5 í Body fitness á Arnold Classic í Ohio

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 22. mars 2016 10:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Una Margrét Heimisdóttir lenti í 4. sæti á Arnold Classic í Ohio á laugardaginn eftir að hafa stigið á svið með fremstu Body fitness keppendum heims. Þetta er í fyrsta skiptið sem hún keppir í fullorðinsflokki á erlendum vettvangi en hún varð Evrópumeistari og Arnold Classic Europe meistari í unglingaflokki árið 2014. Hún hefur unnið til fjölda titla og er hvergi hætt. Una er 25 ára geislafræðingur og starfar á Landspítalanum í fullu starfi og er í auka vinnu á hollustuveitingastaðnum Ginger og því nóg að gera hjá Unu. Blaðakona DV fékk Unu í smá spjall um fitness, undirbúninginn fyrir Arnold Classic og það sem er framundan hjá henni.

Hvað kom til að þú byrjaðir í fitness?

„Ég er fædd og uppalin á Akureyri og byrjaði ung að fara í ræktina þar. Þar var lítil og niðurgrafin gömul líkamsræktarstöð sem hét Vaxtarræktin en hana átti einn af stjórnarmönnum IFBB á Íslandi, hann Sigurður Gestsson. Einn daginn kom hann upp að mér og spurði mig hvort ég hefði ekki áhuga á að keppa í fitness en ég hef alltaf verið frekar vöðvastælt og alltaf verið í íþróttum. Á þessum tíma var sportið mjög lítið og ég vissi lítið hvað ég var að fara út í en ákvað að slá samt til. Eftir það var ekki aftur snúið og ég kolféll fyrir íþróttinni. Eftir þetta fyrsta mót ákvað ég svo að finna mér þjálfara sem mér leist vel á og í þessa litlu líkamsrækt var fluttur nýr þjálfari sem ég hafði heyrt góða hluti um. Ég sá að þeir sem voru hjá honum tóku vel á því og lyftu vel. Ég manaði sjálfa mig loksins upp í að tala við manninn og segja honum frá því að mig langaði að koma til hans í þjálfun og hvort hann gæti ekki komið mér í ágætis keppnisform. Þessi þjálfari heitir Jón Gunnarsson og er betur þekktur sem „Bóndinn“ en undir hans leiðssögn vann ég minn fyrsta titil sem var Íslandsmeistari unglinga í fitness árið 2011 og enn í dag þakka ég honum fyrir að hafa alið mig almennilega upp í lyftingasalnum.“

Nú lentir þú í 4. sæti á Arnold Classic í Ohio um helgina á fitnessmóti sem er stærsta sinnar tegundar á heimsvísu. Hvernig líður þér?

„Mér líður ótrúlega vel líkamlega og andlega. Spenningurinn var alveg að fara með mig fram að móti þar sem þetta er lang fjölmennasta mót sem ég hef tekið þátt í og í fyrsta skipti sem ég ferðast til Bandaríkjanna.“

Hver eru þín markmið í sportinu?

„Mig langar alltaf að gera betur en síðast og bæta sjálfa mig sem íþróttamann.“

Una að fagna Evrópumeistaratitlinum 2014
Una að fagna Evrópumeistaratitlinum 2014

Hvað er framundan hjá þér núna?

„Næst á dagskrá er Íslandsmótið þar sem ég mun keppa í fyrsta skipti í opnum flokki heima. Framhaldið er óráðið en ég ætla að leyfa mér örlítið frí eftir mót fram í júlí en það er alveg inni í myndinni að taka einhver spennandi mót í framhaldinu.“

Hvað er erfiðast í undirbúningi að þínu mati?

„Að komast með allt dótið úr bílnum og upp stigann í einni ferð eftir langan dag,“ segir Una og hlær. „Nei nei, það sem er að mínu mati erfiðast… tjaaa nú þarf ég bara virkilega að hugsa en mér finnst ekkert alveg lang erfiðast því mér finnst allt ferlið svo ofboðslega skemmtilegt en jafnframt mjög krefjandi á köflum.“

Hvað þarf til að keppa í fitness að þínu mati?

„Skipulag, aga, ákveðni, karakter, hörku, vilja og vera tilbúin að leggja þig meira fram en manneskjan á hægri eða vinstri hönd. Góður og reyndur þjálfari er einnig lykillinn að árangri hvers og eins ásamt mikilli vinnu. En þó einstaklingur hafi alla þessa kosti og besta þjálfarann þá þarf skrokkurinn einnig að henta í íþróttina svo genalottóið spilar líka hér stórt hlutverk.“

Una með þjálfarnum sínum og eiganda Iceland Fitness Konráði Vali Gíslasyni
Una með þjálfarnum sínum og eiganda Iceland Fitness Konráði Vali Gíslasyni

Keppnisferill Unu síðustu ár

„Árið 2014 varð ég Íslandsmeistari, Bikarmeistari, Evrópumeistari og Arnold Classic Europe meistari í unglingafitness. Auk þess lenti ég í 7. sæti á Evrópumeistaramóti í bodyfitness 163-167cm flokki og 5. Sæti á Arnold Classic Europe í bodyfitness 163-167cm sama ár.“
„Árið 2013 varð ég Bikarmeistari í unglingafitness og heildarsigurvegari mótsins. Árið 2012 varð ég einnig Bikarmeistari í unglingafitness, lenti í 2. sæti á Íslandsmeistaramóti í sama flokki og 3. sæti á Heimsmeistaramóti unglinga og öldunga. Árið 2011 varð ég Íslandsmeistari í unglingafitness.“

Eitthvað að lokum?

„Hafðu gaman af því sem þú gerir, þá gengur allt svo miklu betur.“

Íslandsmótið í fitness og vaxtarækt verður núna um páskana á Skírdag og Föstudaginn langa í Háskólabíó fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna