fbpx
Miðvikudagur 04.september 2024
Fókus

„Dópið var deyfilyf fyrir kvíðann“

Þórhallur leitaði í fíkniefni á unglingsárum – Líkamsárás breytti öllu – Missti þrjá nána vini í sjálfsvígi

Auður Ösp
Þriðjudaginn 22. mars 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég gat aldrei svarað í símann ef það var óskráð númer sem hringt var úr því ég var viss um að ég myndi fá einhverjar hræðilegar fréttir. Ég hef líka oft gert grín að því að ég gat ekki farið á Subway í mörg ár þar sem ég þurfti að standa og vera svakalega fljótur að velja hvað ég ætlaði að fá mér á samlokuna. Ég hreinlega höndlaði það ekki,“ segir Þórhallur Þórhallsson uppistandari. Hann þjáist af kvíða og félagsfælni og leiddist út í fíkniefnaneyslu á unglingsárum til að deyfa vanlíðanina. Hann segir það ekki óalgengt að þeir sem eru þekktir sem gleðigjafar beri á sama tíma harm sinn í hljóði enda missti hann sjálfur tvo vini í sjálfsvígi, stráka sem allir höfðu séð sem trúða. Hann ræddi við blaðamann um kúkabrandara, dópið, samtöl við gardínur, löngunina til að verða helgarpabbi, líkamsárás sem breytti lífi hans og svo auðvitað það að alast upp sem sonur Ladda.


Þórhallur er að eðlisfari hljóðlátur og fámáll sem kann að hljóma einkennilega hvað varðar grínista. En þegar hann stígur á svið til að skemmta þá er hann ekki hann sjálfur. Þá er hann uppistandarinn Þórhallur sem er fullur af öryggi. Nokkurs konar hliðarsjálf. „Fólk heldur oft að ég sé að grínast allan daginn, að ég sé þessi sonur hans Ladda sem er ofboðslega hress. Svo hittir það mig og skilur bara ekkert í því hvað ég er leiðinlegur!“

Fólk gefur sér fyrirfram hugmyndir um uppistandara. „Ósjaldan koma menn, oftast fullir, upp að mér: „Hei, þú ert svona sprellari, heyrðu, ég er hérna með einn góðan brandara! Þú mátt nota hann!“,“ segir Þórhallur og ekki er laust við að hann sé örlítið mæðulegur þegar hann minnist á þetta. „Síðan kemur einhver óskiljanleg saga eða einstaklega lélegur Séð og Heyrt-brandari sem ég á að vera þakklátur fyrir.“

Hann segir fólk oft hafa ranghugmyndir um kvíðasjúkdóminn. „Auðvitað er það eðlilegt að kvíða hlutum eins og að fara í atvinnuviðtal eða til tannlæknis. En þegar það er orðið óyfirstíganlegt að fara út í búð að skipta vöru og tilhugsunin um það fær þig til að svitna og skjálfa, það getur ekki verið neitt eðlilegt við það. Munurinn er sá að hugsanir hjá þeim sem eru með kvíðaröskun eru margfalt öfgakenndari og fáránlegri. Það er allt blásið upp og þessu fylgja miklir líkamlegir verkir, hjartsláttur, svitaköst og kuldi. Það er mikill munur á þessu tvennu.“

Öskraði og grenjaði fyrsta skóladaginn

Hann er örverpi foreldra sinna sem skildu þegar hann var sjö ára gamall. Eldri bræður hans tveir voru komnir á unglingsaldur þegar hann loksins mætti á svæðið. Það gat verið gaman að eiga pabba sem var landsþekktur grínisti. Þórhallur gantast þó með að hafa átt frekar svefnlausa æsku. „Á kvöldin kom pabbi og bauð mér góða nótt og fór fram. En svo þurfti Elsa Lund auðvitað líka að koma og bjóða mér góða nótt og síðan kom Saxi læknir og Marteinn Mosdal og þannig hélt þetta áfram.“

Hérna sjást þeir Þórhallur og Þórhallur, saman í viðtali við Morgunblaðið.
Feðgarnir Hérna sjást þeir Þórhallur og Þórhallur, saman í viðtali við Morgunblaðið.

Hann var ekki hár í loftinu þegar fyrst fór að bera á einkennum kvíðans. „Ég man eftir að hafa verið bara polli, þriggja eða fjögurra ára. Ég fór að sjá ofsjónir, alls konar viðbjóðslegar skepnur og skrímsli og nornir og ég varð logandi hræddur vegna þess að fyrir mér voru þessar verur mjög raunverulegar, jafn raunverulegar og fólkið í kringum mig,“ segir hann en hann minnist þess að hafa mörgum árum seinna lært að um var að ræða einkenni ofsakvíða hjá börnum. „Þessar sýnir hurfu seinna meir en þetta er það fyrsta sem ég man eftir.

Ég man líka eftir því að hafa stöðugt verið að hanga í pilsfaldinum hennar mömmu. Ég var nefnilega sannfærður um að hún ætti eftir að stinga mig af. Ég svaf í sama herbergi og hún langt fram eftir barnsaldri. Ég vildi ekki að hún næði að hlaupast í burtu frá mér á meðan ég svæfi.“

Svo kom að fyrsta skóladeginum í grunnskóla. „Mamma mátti gjöra svo vel og bera mig inn í skólann öskrandi og gargandi af hræðslu. Kennarinn þurfti að slíta mig úr fanginu á henni og ég reif í hárið á henni. Ég var logandi hræddur við alla nýja hluti og aðstæður sem ég þekkti ekki.“

Stöðugt með fíflalæti

Eins og við er að búast var Þórhallur bekkjartrúðurinn í skólanum. Laddasonurinn gat auðvitað ekki verið þekktur fyrir annað en endalaust grín og sprell. „„Hei, nú kemur Þórhallur, hann er svo fyndinn, gerðu svona eins og pabbi þinn gerir. Geturu hermt eftir strumpunum? Taktu Saxa lækni, taktu Elsu Lund“, sögðu krakkarnir.

Ef þetta hefði verið atriði í bíómynd þá hefðu himnarnir opnast og englakór sungið hallelúja, segir Þórhallur um fyrsta sopann af áfengi.
Fyrsti sopinn Ef þetta hefði verið atriði í bíómynd þá hefðu himnarnir opnast og englakór sungið hallelúja, segir Þórhallur um fyrsta sopann af áfengi.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Trúðurinn var náttúrulega bara vörn enda leið mér illa í skólanum. Ég lagði ekkert á mig við að læra því alltaf var sú hugsun til staðar að ég ætti eftir að gera mistök, klúðra einhverju, gera mig að fífli. Þannig að það var fínt að vera bara fyndni gaurinn. Það lá líka beinast við.“

Áfengið og dópið

Hann rifjar upp þegar hann tók fyrsta sopann af áfengi þegar hann var 13 ára gamall. „Ef þetta hefði verið atriði í bíómynd þá hefðu himnarnir opnast og englakór sungið hallelúja. Allt í einu var ekkert mál að tala við ókunnugt fólk og allur kvíði og allar þessar þjakandi hugsanir hurfu strax. Þetta varð deyfilyf.“

Vinir Þórhalls á þessum tíma voru eldri strákar sem fiktuðu við sterkari efni en áfengi. „Ég tók allan pakkann; gras, amfetamín, kókaín og e-töflur. Örvandi efnin voru best. Ég taldi mér trú um að ég væri ekki í neyslu, ég væri bara að fikta. Þetta var auðvitað bara afneitun.“

Neyslan hélt áfram næstu árin á milli þess sem Þórhallur kláraði eina önn í menntaskóla og sinnti hinum og þessum störfum. E-töflu-neyslan náði hámarki á tímabili og Þórhallur minnist þess að hafa átt áhugaverðar samræður – við gardínur. Og verið í partíum með milljón manns, sem síðan reyndust bara vera tveir einstaklingar. „Á þessum tíma var rútínan þannig að um helgar tók maður inn efni og allt var æðislegt og frábært og ég var kóngurinn – enda ekki að ástæðulausu að það er talað um alsælu. Síðan vaknaði ég á mánudegi og þá var lífið búið. Mér leið eins og ég hefði myrt þrjár manneskjur og vanlíðanin var ólýsanleg. Síðan þraukaði maður einhvern veginn fram að næstu helgi og þá tók sama sagan við. Þá varð lífið gott aftur. Þannig að dópið var deyfilyf fyrir kvíðann, en bara að takmörkuðu leyti.“

Hnífstunga breytti öllu

Það kann að hljóma undarlega að það hafi bjargað lífi Þórhalls að vera stunginn með hnífi þegar hann var 17 ára. „Ég var í einhverju dóppartíi í flottu einbýlishúsi í Breiðholti þar sem fyrir var alls konar lið úr öllum áttum. Ég sat við hliðina á náunga og við vorum að tala saman. Allt í einu dró hann upp vasahníf og stakk mig í kálfann, líklega bara af því að ég fór svo mikið í taugarnar á honum. Ég var búin að dæla í mig einhverjum töflum, var mjög hátt uppi og fann varla fyrir þessu; hugsaði bara um að halda áfram í partíinu og hvar næsta partí væri,“ segir hann.

„Neyslufélagarnir hentu mér út enda var þetta gaurinn sem sá um að skaffa dópið fyrir alla og ég átti ekki neitt. Þarna áttaði ég mig á því að þetta voru ekki vinir mínir, þetta voru neyslufélagar. Þetta varð til þess að ég fór að sjá á hvaða braut ég var kominn. Þetta var ekki lífið sem ég vildi. Þarna ákvað ég að hætta.“

Hann er þakklátur fyrir að hafa haft vit fyrir sjálfum sér. Það sama gildir ekki um marga af gömlu neyslufélögunum sem enduðu á götunni eða á Hrauninu. Nokkrir gáfust upp og bundu enda á líf sitt. „Mér tókst að hætta sjálfur og ég tek því ekki sem gefnu. Ef ég hefði haldið neyslunni áfram vil ég ekki vita hvar ég hefði endað.“

Kvíðinn og allt sem honum fylgdi fór þó ekkert eftir að neyslan hætti. „Ég klúðraði þó nokkuð mörgum störfum út af kvíðanum. Ég þorði aldrei að hringja mig inn veikan af því að mér leið svo illa andlega.“

Lyfin breyttu öllu

Þegar Þórhallur var 18 ára kom bróðir hans, sem sjálfur þekkir einkenni kvíða, honum til bjargar og benti honum á að leita sér til hjálpar. Þórhallur hlustaði og fékk í kjölfarið lyf við kvíðanum. Í kjölfarið varð hann breyttur maður. „Þetta var eins og að losna við risastóran steypuklump úr höfðinu.“

Hann tekur lyfin enn í dag, það er jafn eðlilegur partur af deginum og að bursta tennurnar. „Ég hætti um tíma því ég vildi ekki verða háður lyfjum alla ævi. En svo sá ég að það var bara ekki að ganga.“

Þórhallur vissi alveg að hann elskaði að búa til grín og skemmta fólki. En kvíðinn stoppaði hann auk þess sem Laddasonarviðurnefnið átti sinn þátt í því að hann afneitaði löngun sinni. Hann var tvítugur þegar hann steig fyrst á svið með uppistand, á árshátíð hjá vöruflutningafyrirtæki. Að fá fólk til að hlæja reyndist betra en nokkur víma.

„Ég gleymi ekki fyrsta skiptinu, hvernig það var að segja eitthvað fyndið og fá alla til að hlæja. Ég hugsaði með mér: „Hei, vá þetta er geggjað, af hverju gerði ég þetta ekki fyrr?“ Síðan þá hef ég ekki getað stoppað.“

Toppurinn var að vinna keppnina Fyndnasti maður Íslands árið 2007, enda hyggst Þórhallur svo sannarlega blóðmjólka þann titil það sem eftir er.

Stóð einn eftir

Þórhallur hefur átt þrjá nána vini í gegnum ævina sem allir bundu enda á líf sitt. Enginn af þeim náði að verða þrítugur. Hann var tvítugur þegar sá fyrsti dó. „Það var gamall neyslufélagi úr grunnskóla. Við höfðum ekki verið í sambandi í nokkur ár en við vorum nánir vinir á sínum tíma. Þess vegna var það mikið áfall að fá fréttirnar.“

Það var annað með hina tvo vini hans sem létust nokkrum árum seinna. Á aðeins einu og hálfu ári kvöddu þeir báðir og Þórhallur stóð skyndilega einn eftir. „Við vorum alltaf þrír saman, endalaust að sprella og grínast eitthvað. Sögðum hver öðrum brandara um menn að kúka sem enginn skildi nema við. Við áttum marga drauma um framtíðina og það sem okkur langaði að gera saman.

Það trúði því enginn að þessum strákum liði illa. Þetta voru fyndnustu strákar sem ég þekkti. Þeir voru alltaf tilbúnir til þess að gera allt fyrir alla, þeir voru alltaf fyrstir til þess að hjálpa öðrum og hressa þá við en leið á meðan verst af öllum. Þeir voru bara alltof þrjóskir til að leita sér hjálpar og þess vegna endaði þetta svona.

Það er undarleg tilfinning að horfa á eftir besta vini sínum síga niður í gröf. Ég var lengi að átta mig á því að þeir væru virkilega farnir. Og ég var mjög oft reiður því ég hugsaði með mér af hverju ég hefði ekki verið meira til staðar. Af hverju hvatti ég þá ekki til að leita sér hjálpar? Ég hugsa daglega til þeirra og ég lendi ennþá í því í dag að ég fæ einhverja sniðuga hugmynd og ætla að hringja í þá en geri mér svo grein fyrir því að það er ekki hægt.“

Gerir grín að sjálfum sér

Þórhallur er búinn að læra inn á kvíðann og félagsfælnina hjá sjálfum sér. Og hann hikar ekki við að gera grín að öllu saman í uppistandinu. Uppspretta grínsins er hann sjálfur enda er það ekki óalgengt í uppistandsheiminum að veikleikar manna verði að styrkleikum þeirra. „Ég finn að fólk er þakklátt fyrir að ég er hreinskilinn með þetta og get snúið þessu upp í grín. Fólk kann að meta það því það getur samsamað sig því sem ég er að tala um. Enda held ég að sannleikurinn sé oft miklu ótrúlegri en nokkur lygi eða skáldskapur.

Það á alls ekki skilja það þannig að ég sé eitthvað pirraður yfir því að hafa alist upp með þekktan pabba, þvert á móti er ég þakklátur enda lít ég mikið upp til pabba. Mér finnst hann frábær listamaður. Ég hef fengið að vinna baksviðs á sýningum með honum og þær stundir sem við höfum átt þar eru þær bestu sem ég veit um.“

Þórhallur hikar ekki við að gera grín að öllu saman í uppistandinu.
Þórhallur hikar ekki við að gera grín að öllu saman í uppistandinu.

Mynd: Ljósmynd/Jón Hjörtur Sigurðsson

Vill verða helgarpabbi

Dagsdaglega vinnur Þórhallur á frístundaheimili. Honum finnst gaman að vinna með börnum enda liggja þau ekki á skoðunum sínum. Hann er að verða 33 ára og á unnustu, Grétu Sóleyju. Hann er þó sjálfur ekki að stressa sig á barneignum; það gerist ef það gerist. Í bili nægja hundarnir.

„Ég er samt tilbúinn til að vera helgarpabbi. Samt ekki hverja helgi. Bara svona þegar ég er laus og hef ekkert að gera.“

Á fimmtudaginn næstkomandi, 24 mars, ætlar Þórhallur að vera með afmælissýningu í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Hún ber heitið Þórhallur þrjátíuogþriggja. Þar ætlar hann að flytja allt það besta sem hann hefur gert undanfarin ár ásamt haug af nýju efni. Hann ætlar til dæmis að tala um gæludýraeign, ferðaþjónustu fatlaðra og furðulegan smekk þeirra stúlkna sem hafa verið skotnar í honum að ógleymdum pítsustaðnum Ugly. Þórhallur er nefnilega andlit staðarins. Þá er ekki útilokað að áhorfendur verði vitni að stórkostlegum danstöktum.

„Ég fer víða og mun fjalla um allt og ekkert. Aðallega þó mig sjálfan og hvað ég er asnalegur. Enda er nægur efniviður þar,“ segir hann.

Hægt er að nálgast miða á sýningu Þórhalls á miði.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Ragnhildur veit leyndarmálið á bak við betri heilsu

Ragnhildur veit leyndarmálið á bak við betri heilsu
Fókus
Í gær

Móðir sem fór í Disney World en skildi börnin eftir heima skiptir fólki í tvö lið

Móðir sem fór í Disney World en skildi börnin eftir heima skiptir fólki í tvö lið