Þórunn Arna er í stöðugri sjálfskoðun í leikhúsinu – „Ég er mjög hlédræg og feimin“
„Þetta er þannig vinna að maður er alltaf að leggja hjarta sitt á borðið, opna sig endalaust. Svo er maður mikið fjarri fjölskyldunni. Þannig að ef þetta er ekki gaman, þá er þetta ekki þess virði. Og sem betur fer er oftast gaman,“ segir Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikkona um starfið í leikhúsinu.
„Það sem er líka svo gott við þessa vinnu er að maður sjálfur er alltaf að stækka og breytast. Maður er endalaust í sjálfskoðun og kemst ekki upp með að flýja vandamál sín. Ég hef lent í því að vera í verkefni og allt í einu er eitthvað ljóslifandi beint fyrir framan mig, sem mér finnst fjalla um mig og þá verð ég að takast á við það. Ég held að ef ég væri ekki í svona skapandi vinnu þá væri ég allt öðruvísi manneskja í dag. Ég væri ekki verri manneskja, en örugglega öðruvísi.“
Stundum hefur Þórunn talið sig hafa náð fullum tökum á lífinu en þá kemur eitthvað upp á sem kallar á meiri sjálfskoðun. Nú er hún til að mynda í ansi verðugu verkefni. „Það sem ég er að læra núna er að stækka sjálfa mig svolítið mikið. Ég held mig nefnilega yfirleitt til hlés og er gefandi fyrir aðra, en gleymi mér. En það getur stefnt í óefni á endanum ef maður gleymir sjálfum sér. Ég þarf að byrja á því að muna eftir sjálfri mér og leyfa mér að taka plássið mitt. Ég þarf að læra að þó að ég stækki sjálfa mig þá er ég ekki að minnka neinn annan á sama tíma,“ segir Þórunn og heldur áfram:
„Ég er mjög hlédræg og feimin. Það er til dæmis svo mikil orka sem fer í Mamma mia! að ég þarf að passa að gefa mér tíma til að vera ein með sjálfri mér til að hlaða batteríin. Mér finnst það alveg æðislegt. Svo verð ég að passa að refsa sjálfri mér ekki fyrir að vilja ekki alltaf vera innan um fólk.“
En hefur feimnin aldrei háð henni sem leikkonu? „Jú, það hefur háð mér þannig að stundum verð ég rosa kvíðin. En ég kemst oftast yfir það. Svo stoppar það mig stundum í að gera allt sem mig langar að gera og það þoli ég ekki. En þetta er auðvitað líka hluti af því hvernig ég er og það er því líka gjöf á einhvern hátt,“ segir Þórunn auðmjúk. En hún vinnur mikið í þessum þáttum einmitt núna og viðurkennir að eiga erfitt með að koma orðum að þessu öllu saman.
„Fólk sem þekkir mig ekki trúir því kannski ekki að ég sé feimin og verði stundum hrædd, enda fel ég það ágætlega. En í dag skil ég ekki af hverju ég ætti að vera að fela það. Auðvitað á maður bara að viðurkenna hvernig manni líður. Þá er líka auðveldara að fara í gegnum þessar tilfinningar – viðurkenna kvíðann en ákveða samt að gera það sem maður kvíðir fyrir.“