Langt komin á þrítugsaldur en leika unglinga í kvikmyndum og þáttum
Það kemur líklega engum á óvart að þær stjörnur sem hafa leikið í unglingaþáttum og -myndum og eiga að vera á unglingsaldri, eru það fæstar. En það kann að koma á óvart hvað þær eru gamlar í raun og veru. Í sumum tilfellum fer vissulega ekki á milli mála að leikarinn er miklu eldri en persónan sem hann túlkar. En svo eru leikarar sem eru einfaldlega mjög barnalegir í útliti og tekst mjög vel að túlka miklu yngri manneskju.
Leikkonurnar í Clueless voru allar eldri en 15 ára þegar þær léku í myndinni, en Stacey Dash var elst. Hún var 28 ára þegar hún túlkaði Dionne og þurfti því að fara 13 ár til baka og finna unglinginn í sjálfri sér. Alicia Silverstone, sem fór með aðalhlutverkið í myndinni, var þó ekki nema 18 ára.
Keiko Agena, sem lék Lane Kim í þáttunum Gilmore girls, var 27 ára þegar fyrsta þáttaröðin var tekin upp, en hennar persóna var þá vel undir tvítugu. Þegar síðasta þáttaröðin fór í loftið var hún komin vel á fertugsaldurinn en Lane átti að vera rétt rúmlega tvítug.
Gabrielle Carteris sem lék hina 16 ára gömlu Andreu Zuckerman í Beverly Hills 90210 var hvorki meira né minna en 29 ára þegar hún landaði hlutverkinu. Sögur gengu reyndar af því að hún hefði logið til um aldur til að komast í áheyrnarprufur og það gekk svona líka vel. Allir leikararnir í þáttunum voru reyndar miklu eldri en persónurnar sem þeir léku, en Gabrielle var elst.
Unglingadramaþættirnir Pretty Little Liars hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár, en þeir fjalla um vinkonur á aldrinum 17 til 18 ára. Sjálfar eru leikkonurnar hins vegar á aldrinum 25 til 29 ára. Elst er Troian Bellisario sem leikur Spencer Hastings.
Kevin Bacon var 26 ára þegar hann lék unglingsstrák sem barðist fyrir rétti sínum, og annarra unglinga, til að dansa og skemmta sér í smábæ einum í myndinni Footloose. Hann var reyndar frekar strákslegur og náði því ágætlega að sannfæra áhorfendur um að hann væri í raun unglingur.
Unglingarnir í Rydell High í söngva- og dansmyndinni Grease voru ekki allir þar sem þeir voru séðir, enda voru þeir engir unglingar. John Travolta var reyndar með þeim yngri í hópnum, þá 23 ára. En mótleikkona hans, Olivia Newton-John, var 28 ára þegar hún túlkaði hina saklausu Sandy.