fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024
Fókus

„Stundum verð ég rosa kvíðin“

Þórunn Arna er í stöðugri sjálfskoðun í leikhúsinu – Með sex vikna dóttur sína á æfingar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 18. mars 2016 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórunn Arna Kristjánsdóttir fer með eitt aðalhlutverka í söngleiknum Mamma mia! sem nýlega var frumsýndur í Borgarleikhúsinu og er að slá öll aðsóknarmet. Síðan Þórunn útskrifaðist fyrir sex árum er búið að vera nóg að gera hjá henni og þannig vill hún helst hafa það. Eftir að dóttir hennar fæddist fyrir tveimur árum hefur hún lært að slaka aðeins á í vinnu, en sú stutta var reyndar bara rétt orðin sex vikna þegar Þórunn var mætt á æfingar í leikhúsinu. Starfið í leikhúsinu gerir að verkum að hún er stöðugt í sjálfskoðun. Hún er bæði hlédræg og feimin, en er nú að vinna í stækka sjálfa sig og takast á við kvíða sem stundum háir henni.

Þórunn er glöð í bragði þegar hún tekur á móti blaðamanni á heimili sínu í gamla Vesturbænum. Það er stór dagur hjá henni því um kvöldið verður söngleikurinn Mamma mia! frumsýndur í Borgarleikhúsinu, þar sem hún fer með eitt aðalhlutverkanna. Hópurinn er reyndar búinn að vera að sýna fyrir framan áhorfendur alla vikuna en frumsýningardagur er samt alltaf sérstakur. Hún viðurkennir að hafa fengið smá bakþanka yfir því að hafa boðið blaðamanni heim einmitt þennan dag, en þeir hurfu þó jafnskjótt og þeir komu. „Ég hugsaði með mér að þá yrði dagurinn bara hversdagslegri, meira eins og flestir aðrir dagar,“ segir hún brosandi áður en blaðamaður nær að fá samviskubit. „En þegar ég er búin að segja bless við þig þá ætla ég samt að dekra aðeins við mig,“ bætir hún við og hlær örlítið feimnislega. Blaðamanni líst vel á það plan.

Töfravikurnar

Við fáum okkur sæti í notalegri stofunni og Þórunn opnar sér dós af engiferöli. Veggurinn fyrir ofan borðstofuborðið er skreyttur með litríkum, útklipptum, pappírsstöfum sem mynda orðin: „Kría, 2 ára“ en skreytingin er síðan úr afmæli dótturinnar sem varð tveggja ára fyrir skömmu.
Það á eftir að koma í ljós hvernig sú stutta tekur yfirvofandi fjarveru Þórunnar frá heimilinu vegna þeirrar vinnutarnar sem framundan er við sýningar á Mamma mia!. En hún á það til að verða sár út í móður sína þegar hún vinnur mikið.

En vinnutörnin er að sjálfsögðu hafin því stífar æfingar hafa staðið yfir á söngleiknum frá því í byrjun janúar, enda ekkert smáræði sem þarf að smella saman svo úr verði heill söngleikur.
„Þegar verið er að æfa fyrir söngleik þá eru oft æfingar á þremur stöðum í einu. Einhverjir eru á söngæfingu, einhverjir á leikæfingu og aðrir á dansæfingu. Þannig að til að byrja með þá er þetta algjört púsluspil hvar maður á að vera á hverjum tíma. Síðustu tvær vikurnar fyrir frumsýningu eru eiginlega töfravikur, þá gerist allt og maður sér hvernig öll vinna smellur saman. Stundum hugsar maður með sér þegar það eru þrjár vikur í frumsýningu: „úff er þetta að fara að verða eitthvað, mun þetta smella saman?“ En svo koma þessar tvær töfravikur þar sem allt gerist,“ útskýrir hún

„Fólk sem þekkir mig ekki trúir því kannski ekki að ég sé feimin og verði stundum hrædd, enda fel ég það ágætlega.“

Búin að gleyma draumnum

Þórunn segist vera mátulega mikill Abba-aðdáandi. Hún er ekki að spila lögin í tíma og ótíma en textar hljómsveitarinnar höfða vel til hennar. „The winner takes it all hefur verið eitt af uppáhaldslögunum mínum í langan tíma. Það er svo og mikill sannleikur og harmur í textanum og auðvelt að setja sig í spor þess sem syngur. Það dýrka ég,“ segir Þórunn sem sá Mamma mia! á West End í London í kringum aldamótin. „Það var fyrsti West End-söngleikurinn sem ég sá og það var heilmikil upplifun. Ég man að ég sat í sætinu mínu og hugsaði að það væri gaman að gera þetta einhvern tímann. En eins og með alla drauma, þá kastar maður þeim út í alheiminn og sumir koma til baka. Aðrir ekki. Ég var kannski ekki búin að spá mikið í þetta í langan tíma, og í rauninni löngu búin að gleyma þessum draum. En þegar ég frétti að það ætti að setja upp sýninguna þá varð ég mjög spennt,“ viðurkennir hún. Og að sjálfsögðu voru það mikil gleðitíðindi þegar ljóst var að hún yrði Sophie, eftir að hafa farið í prufur fyrir hlutverkið. Þetta er í fyrsta skipti sem hún fer með aðalhlutverk í söngleik í svona mikilli keyrslu og því um töluverða áskorun að ræða.

Horfði öfundaraugum til Reykjavíkur

Þórunn er fædd og uppalin á Ísafirði þar sem hún bjó þangað til hún kláraði menntaskólann. Tónlistin og leiklistin áttu hug hennar allan, alveg frá því að hún man eftir sér. En hún hafði lítinn áhuga á að stunda íþróttir. Sem barn og unglingur eyddi hún mestum sínum tíma í tónlistarskólanum þar sem hún lærði meðal annars á fiðlu og píanó, sem og söng. Þá tók hún þátt í öllum leiksýningum sem settar voru upp. „Fyrsta hlutverkið mitt var óbreyttur þorpsbúi í Kardimommubænum með Litla leikklúbbnum þegar ég var átta ára. Það var alveg æðislegt og þá var ekki aftur snúið. Ég hafði alltaf horft öfundaraugum til Reykjavíkur þar sem verið var að setja upp sýningar á borð við Bugsy Malone eða Söngvaseið. Í þessum sýningum voru börn á sviði í atvinnuleikhúsunum og það hafði mig langað svo mikið til að gera,“ segir hún einlæg.

En Þórunn dó ekki ráðalaus. Hún stofnaði sinn eigin leikklúbb fyrir vestan ásamt vinkonum sínum og þær settu upp fjölda sýninga fyrir vini og ættingja. Hún segir metnaðinn hjá þeim stöllum hafa verið mikinn og telur sig hafa haft gott af því að gera hlutina sjálf með þessum hætti. „Ég þurfti ekkert að vera barn í sviðsljósinu í Reykjavík til að blómstra. Fyrir mér var Ísafjörður nafli alheimsins. Mér fannst æðislegt að búa þarna. Fjöllin, fólkið og orkan. Ég er mjög þakklát fyrir þessi fyrstu tuttugu ár.“

En tvítug hélt Þórunn suður til Reykjavíkur til að mennta sig í listinni sem hafði gjörsamlega heltekið hana. Síðan þá hefur hún reyndar verið mjög dugleg að heimsækja Ísafjörð, enda búa foreldrar hennar fyrir vestan. Á því er hins vegar að verða breyting, því þau stefna á flutning í borgina í haust. „Ég er örlítið kvíðin fyrir því, en á sama tíma er ég ofboðslega þakklát fyrir að þau skuli vera að koma í bæinn. Koma nær mér. Það er samt erfitt að horfa á eftir æskuheimilinu og eiga ekki lengur þennan örugga stað fyrir vestan. En þetta eru breytingar sem maður verður bara að sætta sig við og verða eflaust af hinu góða.“

Sjö ár í Listaháskólanum

Þegar Þórunn kom til borgarinnar á sínum tíma sótti hún bæði um söng- og leiklistarnám í Listaháskólanum en komst ekki inn í leiklistarnámið. Hún hóf því nám í klassískum söng, en draumurinn um að verða leikkona var alltaf til staðar. Hún reyndi í annað sinn að komast inn í leiklistarnámið, án árangurs, og svo það þriðja þegar söngnáminu var að ljúka, og hafði þá erindi sem erfiði.

„Í dag er ég svo þakklát fyrir að hafa ekki komist fyrr inn. Þetta átti að fara svona. Ég var búin að fá tvisvar höfnun og sú síðari var sérstaklega erfið því þá hafði ég komst í lokahóp. Það var hrikalega erfitt að komast næstum því inn. Það tók mig smá tíma að finna hugrekkið til að sækja um einu sinni enn. Þegar ég sótti um í þriðja sinn fór ég með opnari huga en áður, ég var búin að ákveða að hvað sem yrði þá ætlaði ég ekki að gefa þennan draum upp á bátinn, enda væri skólinn hér heima ekki eini möguleikinn.“

Þórunn segist að sjálfsögðu ekkert hafa gefið eftir þegar hún fór í prufurnar í þriðja skiptið. Það skipti hana ekki lengur öllu máli hvort hún kæmist inn í þennan skóla, hún myndi komast inn í einhvern skóla. „Þessi hugsanabreyting gerði kannski gæfumuninn. Þegar ég var í lokahópnum árið áður þá ætlaði ég mér svo mikið inn að það var það eina sem komst að. Ég átti líklega bara að komast inn á þessum tíma,“ segir Þórunn sem eyddi því samtals sjö árum í Listaháskólanum.

„Ég held að ef ég væri ekki í svona skapandi vinnu þá væri ég allt öðruvísi manneskja í dag.“

„Ég hélt að ég gæti allt“

Hún hefur heldur betur haft nóg að gera frá því hún útskrifaðist og hefur ekki einu sinni tölu yfir fjölda þeirra sýninga sem hún hefur tekið þátt í hjá leikhúsunum. Yfirleitt hefur hún verið með mörg járn í eldinum á sama tíma, en hefur fundist hún hálf aðgerðarlaus þegar hún er bara í einu verkefni. Þetta er þó aðeins að breytast. „Mér finnst betra núna að geta einbeitt mér að fáum verkefnum í einu og gera þau vel, ekki vera í stresskasti og alltaf að biðja leikstjóra um leyfi til að hlaupa af æfingum í önnur verkefni. Það tætir mann svolítið. Ég er búin að læra það á þessum sex árum frá útskrift að maður þarf ekki að gleypa allan heiminn í einu. Þegar maður er nýútskrifaður þá langar mann svo í alla bitana, í stærstu hlutverkin og allt það. En það er mjög gott að þetta komi ekki allt til manns á færibandi. Að þurfa að hafa fyrir hlutunum. Það er líka gott að geta sagst ekki hafa tíma. Ég var ekki mjög góð í því fyrstu árin. Ég hélt að ég gæti allt,“ segir Þórunn hreinskilin. En hún átti sér á þessum tíma ekkert líf fyrir utan leikhúsið. Það var hvort tveggja vinnustaður hennar og heimili.

„Vinnan tók allan tímann minn, en svo eignast maður barn og þá stækkar heimurinn rosalega mikið,“ segir hún og ljómar öll þegar talið berst að dótturinni. Í sömu andrá rekur maðurinn hennar, Vignir Rafn Valþórsson, nefið inn í stofuna: „Eru þið að tala um mig?“ spyr hann kíminn, en er farinn aftur áður en hann fær svarið. Vignir er líka leikari, og leikstjóri, og þau Þórunn hafa verið saman um árabil. „Þetta getur því orðið ansi skrautlegt þegar við erum bæði í törn,“ segir hún og vísar þar til vinnunnar, sem telst líklega ekki mjög fjölskylduvæn.

Með dótturina sex vikna á æfingum

Á meðan Þórunn var ólétt fannst henni hún ekki vera að gera neitt, en þegar hún hugsar til baka, um öll verkefnin sem hún sinnti á þessum tíma, þá sér hún að það var ekki alveg rétt. Hún vara bara ennþá svo föst í því að þurfa að vera í öllu og alls staðar. „Lífið fór í svo mikla pásu, en samt var ég að æfa sýningar og fór til útlanda með sýningu og gerði alveg heilmargt. En af því að ég var ekki í 200 prósent vinnu þá fannst mér þetta eitthvað lítið. Ég öfundaði kollega mína sem voru á fullu. Ég naut þess alveg að vera ólétt en mér fannst erfitt að þurfa að stoppa. Í leikhúsinu er heldur aldrei réttur tími til að verða ólétt. Þegar það gerist þá þarf maður bara að takast á við það. Það er svo oft eitthvað sem maður sér í hillingum, eða eitthvað sem maður gæti kannski verið að fara að gera. Þetta var samt dásamlegur tími en ég þurfti aðeins að læra að slaka á.“

Miðað við hve illa Þórunni gekk að gíra sig aðeins niður á meðgöngunni kann eflaust engan að undra að hún tók ekki langt fæðingarorlof. Dóttir hennar var aðeins sex vikna þegar hún var komin aftur upp í leikhús á æfingar. „Ég sé samt alls ekki eftir því að hafa ekki tekið lengra orlof. Ég náði að vera afskaplega mikið með barninu mínu, þrátt fyrir þetta.“
Þórunn æfði sýninguna Litla prinsinn alveg fram að fæðingu dótturinnar, fór í upprifjun og rennsli þegar dóttir hennar var sex vikna og svo var verkið frumsýnt þegar hún var tveggja mánaða. Þórunn ætlaði reyndar að taka sér mánaðarhvíld eftir að æfingum lauk og fram að fæðingu dótturinnar en hún var ekki á sama máli og kom í heiminn tæpri viku eftir að Þórunn hætti að vinna.

Þórunn vill hafa nóg að gera og fannst erfitt að þurfa að hægja aðeins á sér á meðgöngunni. Hún var komin með dótturina á æfingar þegar hún var sex vikna.
Nóg að gera Þórunn vill hafa nóg að gera og fannst erfitt að þurfa að hægja aðeins á sér á meðgöngunni. Hún var komin með dótturina á æfingar þegar hún var sex vikna.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Nánar mæðgur í dag

„Þetta hljómar kannski illa, að ég hafi farið að vinna þegar hún var sex vikna, en ég fór alls ekki á fullt. Hún var með mér á æfingum og maðurinn minn eða ættingjar tóku hana, fóru í göngutúra og komu svo aftur með hana og hún fékk brjóst. Allir sem að sýningunni komu hugsuðu svo vel um okkur mæðgurnar, svo sagan er falleg og boðskapurinn. Mér leið svo vel með barnið, að vinna í þessu verki. Ég veit ekki hvort ég hefði verið til í að fara út í ofbeldi, dramatík eða einhvern ljótleika, en þetta var einmitt rétta verkið og rétta fólkið,“ segir Þórunn einlæg, en Litli prinsinn var sýndur í nokkra mánuði og svo var hún komin í sumarfrí. Hún fór því ekki aftur í fulla vinnu fyrr en um haustið, þegar dóttirin var orðin sjö mánaða. „Þá fór ég í að æfa leikrit, taka upp bíómynd og sjónvarpsþætti á sama tíma og það var smá geðveiki. Með hana á brjósti líka,“ segir hún hlæjandi.

En fólkið í kringum Þórunni þekkir hana vel og veit að hún unir sér best þegar hún hefur nóg fyrir stafni. Maðurinn hennar og fjölskylda lögðust því öll á eitt til að þetta gæti gengið upp. „Annars var eiginlega alveg dásamlegt að vera með barn á brjósti í svona mikilli vinnu, því þá hafði ég afsökun fyrir því að hitta hana oft yfir daginn. En nú er hún orðin tveggja ára og þegar ég horfi á hana þá hugsa ég ekki að ég hafi þurft að gefa henni meiri tíma. Því þegar ég var ekki að vinna þá gaf ég henni allan tímann minn. Við erum ofboðslega nánar í dag, en auðvitað verður hún stundum sár út í mig þegar ég er mikið í burtu og refsar mér pínu fyrir það, en ég næ henni alltaf til baka á endanum.“
Þórunn viðurkennir að þetta geti orðið ansi erfitt í þeirri miklu vinnutörn sem framundan er í Mamma mia!. „Ég er ekki alveg búin að ákveða hvernig ég ætla að gera þetta. En dagurinn er þannig að hún fer á leikskólann og ég undirbý mig fyrir sýningu, svo sæki ég hana og við eigum tvo góða klukkutíma saman áður en ég fer aftur upp í leikhús. Maður þarf bara að búa til góðu stundirnar.“

Búin á því eftir rennslið

Þetta virkar nefnilega alls ekki þannig að Þórunn mæti upp í leikhús rétt fyrir sýningu, klæði sig í fötin, fari í smink og sé þá tilbúin í slaginn. Fyrir svona krefjandi sýningar þarf aðeins meira til. „Ég þarf að hugsa mjög vel um röddina og til þess að gera það þarf ég líka að hugsa um líkamann. Ég þarf því að fara í ræktina á hverjum degi, þjálfa röddina og svo finnst mér gott að geta hugleitt smávegis. Ég þarf einfaldlega að hugsa vel um sjálfa mig, sofa nóg og borða rétt. Það er svo mikið álag í þessari sýningu og stundum erum við að sýna sjö sýningar á viku. Ég finn að þegar ég er búin með rennsli þá er ég algjörlega búin á því, orkan og krafturinn í þessari sýningu er svo mikill. Og við viljum gera vel við áhorfendur á hverri einustu sýningu. Það skiptir ekki máli hvort fólk kemur á frumsýningu eða sýningu 39. Þær eiga að vera jafn geislandi og frábærar.“

Aðspurð segist Þórunn þó alls ekki vera kvíðin fyrir törninni, hún lítur einfaldlega á þetta sem skemmtilegt ferðalag. Þá spillir ekki fyrir hve frábærir mótleikarar hennar eru og allir þeir sem að sýningunni standa.

„Ég naut þess alveg að vera ólétt en mér fannst erfitt að þurfa að stoppa.“

Stóð á gati á sviðinu

Í ljósi þess að aðeins nokkrir klukkutímar eru í frumsýningu er ekki úr vegi að spyrja Þórunni hvort hún sé orðin spennt. „Frumsýningardagar eru alltaf sérstakir, en samt svo frábærir. Fiðrildin í maganum og orkan sem maður er með er alveg einstök. Ég myndi aldrei vilja sleppa henni. Mér finnst frumsýningardagar vera hátíðisdagar. Og ég elska hátíðisdaga.“

Þórunn hefur þó passað sig á að festast ekki í rútínu á frumsýningardögum. Hún óttast að þá yrði hún einfaldlega hrædd ef rútínan brygðist. Hún man reyndar bara eftir einu stóru atviki þar sem hún klúðraði senu og stóð á gati. Þá gleymdi hún að koma inn á sviðið á ákveðnum tímapunkti og vissi ekkert hvað var að gerast í verkinu loksins þegar hún óð inn. „Ég er mjög hörð við mig hvað varðar að gera mistök sem er ekki nógu gott því mistök gefa manni bara gjafir. En eftir þetta var ég alveg í sjokki í tvær vikur. Ég stóð á sviðinu með 500 manns fyrir framan mig í salnum, horfði á mótleikarann og hugsaði að ég vissi ekkert hvað kæmi næst. Það reddaðist samt allt því ég var með frábæra mótleikara. Í svona aðstæðum finnst manni eins og það líði tíu mínútur en kannski eru þetta ekki nema tíu sekúndur.
Það er svo gaman að sjá hvað leikhópurinn er tilbúinn að grípa mann ef maður gerir mistök. Svona klúður setur bara líf í leikhópinn. Ég er svo heppin að vera umkringd góðu fólki, bæði innan sviðs og utan,“ segir Þórunn sem biður ekki um meira en það. Hún á sér engin óskahlutverk eða neitt slíkt, vill bara vera hluti af góðum hópi og fá fjölbreyttar áskoranir.

„Ég stóð á sviðinu með 500 manns fyrir framan mig í salnum, horfði á mótleikarann og hugsaði að ég vissi ekkert hvað kæmi næst.“

Lærir að stækka sjálfa sig

„Þetta er þannig vinna að maður er alltaf að leggja hjarta sitt á borðið, opna sig endalaust. Svo er maður mikið fjarri fjölskyldunni. Þannig að ef þetta er ekki gaman, þá er þetta ekki þess virði. Og sem betur fer er oftast gaman. Það sem er líka svo gott við þessa vinnu er að maður sjálfur er alltaf að stækka og breytast. Maður er endalaust í sjálfskoðun og kemst ekki upp með að flýja vandamál sín. Ég hef lent í því að vera í verkefni og allt í einu er eitthvað ljóslifandi beint fyrir framan mig, sem mér finnst fjalla um mig og þá verð ég að takast á við það. Ég held að ef ég væri ekki í svona skapandi vinnu þá væri ég allt öðruvísi manneskja í dag. Ég væri ekki verri manneskja, en örugglega öðruvísi.“
Stundum hefur Þórunn talið sig hafa náð fullum tökum á lífinu en þá kemur eitthvað upp á sem kallar á meiri sjálfskoðun. Nú er hún til að mynda í ansi verðugu verkefni. „Það sem ég er að læra núna er að stækka sjálfa mig svolítið mikið. Ég held mig nefnilega yfirleitt til hlés og er gefandi fyrir aðra, en gleymi mér. En það getur stefnt í óefni á endanum ef maður gleymir sjálfum sér. Ég þarf að byrja á því að muna eftir sjálfri mér og leyfa mér að taka plássið mitt. Ég þarf að læra að þó að ég stækki sjálfa mig þá er ég ekki að minnka neinn annan á sama tíma,“ segir Þórunn og heldur áfram:

„Ég er mjög hlédræg og feimin. Það er til dæmis svo mikil orka sem fer í Mamma mia! að ég þarf að passa að gefa mér tíma til að vera ein með sjálfri mér til að hlaða batteríin. Mér finnst það alveg æðislegt. Svo verð ég að passa að refsa sjálfri mér ekki fyrir að vilja ekki alltaf vera innan um fólk.“

Feimnin stoppar hana stunum

En hefur feimnin aldrei háð henni sem leikkonu? „Jú, það hefur háð mér þannig að stundum verð ég rosa kvíðin. En ég kemst oftast yfir það. Svo stoppar það mig stundum í að gera allt sem mig langar að gera og það þoli ég ekki. En þetta er auðvitað líka hluti af því hvernig ég er og það er því líka gjöf á einhvern hátt,“ segir Þórunn auðmjúk. En hún vinnur mikið í þessum þáttum einmitt núna og viðurkennir að eiga erfitt með að koma orðum að þessu öllu saman.

„Fólk sem þekkir mig ekki trúir því kannski ekki að ég sé feimin og verði stundum hrædd, enda fel ég það ágætlega. En í dag skil ég ekki af hverju ég ætti að vera að fela það. Auðvitað á maður bara að viðurkenna hvernig manni líður. Þá er líka auðveldara að fara í gegnum þessar tilfinningar – viðurkenna kvíðann en ákveða samt að gera það sem maður kvíðir fyrir.“

Þórunn er að vinna í því að stækka sjálfa sig og tekst jafnframt á við kvíða sem stundum hellist yfir hana.
Vinnur í sjálfri sér Þórunn er að vinna í því að stækka sjálfa sig og tekst jafnframt á við kvíða sem stundum hellist yfir hana.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 18 klukkutímum

Fyrirsætan gagnrýnd harðlega: Kærastinn er 16 ára en hún 21 árs

Fyrirsætan gagnrýnd harðlega: Kærastinn er 16 ára en hún 21 árs
Fókus
Fyrir 20 klukkutímum

Jói Fel trúlofaði sig á Miami – „Allt eins og það á að vera“

Jói Fel trúlofaði sig á Miami – „Allt eins og það á að vera“
Fókus
Í gær

Halla myndi velja fiskibollur í brúnni sem eilífðarmat, leiðist þrif og hreyfingin er Akkilesarhæll

Halla myndi velja fiskibollur í brúnni sem eilífðarmat, leiðist þrif og hreyfingin er Akkilesarhæll
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur segir marga klóra sér í skallananum yfir orkuefnunum – „Miklu meira valdeflandi að nálgast mat en að forðast mat“

Ragnhildur segir marga klóra sér í skallananum yfir orkuefnunum – „Miklu meira valdeflandi að nálgast mat en að forðast mat“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Smeyk við að fara ein til Íslands eftir að kærastinn lét sig hverfa

Smeyk við að fara ein til Íslands eftir að kærastinn lét sig hverfa
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Ástin, fjölbreytileikinn og kelerí í Skógarböðunum

Vikan á Instagram – Ástin, fjölbreytileikinn og kelerí í Skógarböðunum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Auður Gísla og Elvar Freyr eiga von á barni

Auður Gísla og Elvar Freyr eiga von á barni