Talar gegn útlendingahatri og íslamafóbíu – Segir grunngildi samfélagsins standa ógn af ákveðnum hópi fólks
„Það er uggur í mörgum og fólk sér fram á það í þessum kosningum standi þjóðinni til boða að taka mjög einarða afstöðu gegn þessari þróun og ákveðinn hópur sér í mér, og hvernig ég hef talað að undanförnu, trúverðugan valkost,“ segir Davíð Þór Jónsson héraðsprestur á Eskifirði en hann hann íhugar nú alvarlega að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Segist hann trúa því að þjóðin vilji stjórnast af mannúð og kærleika í stað tortryggni og vænisýki þegar kemur að málefnum innflytjenda enda hefur að hann eigin sögn varað við uppgangi útlendingahaturs og íslamafóbíu í gegnum tíðina.
Í samtali við Vísi segir Davíð að grunngildum samfélagsins hafi verið sagt stríð á hendur af ákveðnum hópi fólks. „Við sjáum mjög hættulega þróun eiga sér stað á meginlandi Evrópu og meira segja vestanhafs líka þar sem hún birtist í persónu Donalds Trump,“ segir hann og bætir við að í komandi kosningum gefist þjóðinni færi á að taka einarða afstöðu gegn þessari þróun.
Davíð Þór segir einnig að í kosningunum fái Íslendingar tækifæri á að senda skýr skilaboð. „Við höfum tækifæri til að segja við þau: Verið óhrædd, þið eru óhult. Þeir sem tala svona eru hávær minnihluta hópur. Ísland er gott land.“
„Forseti sem er svo upptekinn af því að vera sameiningartákn að hann þorir ekki að fá fasistana upp á móti sér, það er forseti sem ekki skiptir neinu máli. Ég vil að forsetinn skipti máli. Ég vil að það sé á hreinu fyrir hvað hann stendur,“ segir Davíð jafnframt en hann segir að ef hann fái „þokkalega tilfinningu“ fyrir því hvort hugmyndir hans um forsetaembættið njóti nógu mikils fylgis og fái tilfinningu fyrir því að fólk treysti honum til að vera í forsvari fyrir þær þá muni hann tilkynna um þá ákvörðun sína að bjóða sig fram til embættisins.