Á von á barni með kærasta sínum – Gerði sér fljótt grein fyrir að þetta væri maðurinn sem hún vildi vera með
„Þetta gerðist frekar hratt. Við hittumst í heita pottinum og höfum verið saman síðan,“ segir Kristrún Ösp Barkardóttir sem um tíma var ein umtalaðasta kona landsins. Kristrún er í einlægu viðtali í nýjasta tölublaði Akureyri vikublaðs.
Þar greinir Kristrún meðal annars frá því hvernig hún kynntist kærasta sínum, snjóbrettakennaranum Viktori Helga Hjartarsyni, en parið á von á sínu fysta barni saman. Fyrir á Kristrún soninn Baltasar Börk sem er nýorðinn fjögurra ára.
Kristrún og Viktor kynntust í fyrrasumar, eru bæði Akureyringar og eru á svipuðu reki. Þau vissu af hvort öðru og þegar þau hittust óvænt í sundi segist Kristrún hafa gerst svo djörf að bjóða honum á stefnumót.
„Ég gerði mér fljótt grein fyrir því að þetta væri maðurinn sem ég ætlaði að vera með. Í fyrsta lagi heillaðist ég af útliti hans en svo sá ég fljótt hvað hann er ótrúlega skemmtilegur og ljúfur,“ segir Kristrún og bætir við að hún hafi ekki átt kærasta síðan hún varð móðir.
Faðir Baltasars Barkar er lögfræðingurinn Sveinn Andri Sveinsson, en þau voru par um hríð. Sveinn Andri hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið, sér í lagi í tengslum við samskipti hans við ungar stúlkur. Í viðtalinu segist Kristrún lítið vilja tjá sig um hans mál.
„Ég er eiginlega ónæm fyrir umræðunni um Svein Andra. Þetta hefur verið í gangi síðan ég var ófrísk. Við Sveinn erum í ágætis sambandi, við gerum það besta úr þeirri stöðu að við eigum barn saman og það finnst mér að fleiri mættu taka til fyrirmyndar. Það gengur allt betur í sátt og samlyndi, sér í lagi þegar börn eru í spilinu. Ég veit að hann er góður pabbi, hann má eiga það, hann er góður við börnin sín og það er það eina sem skiptir mig máli.“
Í viðtalinu ræðir Kristrún einnig um fæðingarþunglyndi og kvíða. Nýjasta tölublað Akureyri vikublaðs má nálgast hér.