Getur ekki staðið í meira en hálfa mínútu – „Ég hélt aldrei að líf mitt yrði svona“ – Fær opin sár við að hreyfa sig
Sean Milliken er 25 ára og vegur meira en 400 kíló. Hann býr hjá móður sinni í Kaliforníu og algjörlega ósjálfsbjarga sökum ofþyngdar. Milliken getur nánast ekkert hreyft sig og veit að ef hann léttist ekki mun hann ekki lifa mikið lengur.
Saga Milliken var umfjöllunarefni sjónvarpsþáttarins „My 600 lb Life,“ á bandarísku sjónvarpsstöðinni TLC, sem sýndur var í gærkvöldi. Þar greinir Milliken sjálfur frá því að hann eyði öllum stundum í herbergi sínu og sé algjörlega háður aðstoð frá öðrum.
„Í hvert sinn sem ég vakna þarf ég að horfast í augun við raunveruleikann. Ég er orðinn svo stór að ég get nánast ekki hreyft mig. Það eina sem ég get er að fikra mig að enda rúmsins, til þess að gera þarfir mínar eða gá hvort að mamma sé vakandi,“ segir Milliken sem notar fötu við enda rúmsins til þess að gera þarfir sínar.
Móðir Milliken sér um hann að mestu leyti en hefur síðastliðin tvö ár fengið fjölskylduvin til að aðstoða sig. Sjálfur segist hann aðeins hreyfa sig þegar hann þarf nauðsynlega á því að halda, þar sem allar hreyfingar valda honum miklum sársauka.
„Þegar þú ert svona rosalega feitur þá hreyfir þú líkaman í eina átt og fitan fer annað,“ segir móðir Milliken en hann er með mörg opin sár þar sem húð hans getur ekki gefið meira eftir og rifnar við minnstu hreyfingu.
Milliken segir að erfiðustu dagarnir séu þegar hann sé baðaður. Þá þurfi hann að hreyfa sig meira en vanalega og að auki geti hann ekki andað þegar hann liggur á hliðinni.
Í þættinum er sýnt þegar að móðir hans og fjölskylduvinurinn baða Milliken. Þar sést hversu erfitt ferlið er fyrir alla aðila, en móðir hans og vinur eiga í mesta basli með að hreyfa hann til. Þá þarf hann einnig að standa upp úr rúminu í skamma stund.
„Ég get staðið upp en ég get aðeins tekið örfá skref,“ segir Milliken en hann getur ekki staðið í fæturna í meira en hálfa mínútu.
Fram kemur í þættinum að Milliken hafi alla tíð verið of þungur og var alltaf „stærsti krakkinn í hverfinu.“ Hann var lagður í einelti í skóla og átti mjög erfitt andlega eftir að foreldrar hans skildu. Hann segist hafa sótt huggun í mat og áður en hann vissi af hafði hann algjörlega misst stjórn á lífinu sínu.
„Ég hélt aldrei að líf mitt yrði svona. Ég er fangi og ég verð að komast út,“ segir Milliken.
Milliken segist vita að líkami hans þoli vart mikið meira álag og ef hann léttist ekki muni hann ekki lifa lengur en til þrítugs. Hann og móðir hans hafa nú ferðast til Houston, í Texas, þar sem hann vonast til að geta farið í aðgerð sem eigi að hjálpa honum í baráttunni við ofþyngdina.
Hér má sjá myndskeið úr þættinu um Milliken.