Stakk atburðinum ofan í skúffu – Fór svo að vinna markvisst í sínum málum – Litlu sigrarnir kraftaverki líkastir
„Sársaukinn við að vinna úr þessum málum hefur skilað sér í mun betri lífsgæðum, fleiri hamingjustundum og betra jafnvægi á öllum sviðum. Aðalverkefnið er að reyna að jafna út allan þann sjálfsefa, sjálfshöfnun og skömm sem þurrkaði út sjálfsmyndina á sínum tíma,“ segir Kristjana Sveinsdóttir í grein á vef Kvennablaðsins sem vakið hefur mikla athygli.
Í pistlinum skrifar Kristjana um skelfilegt atvik sem átti sér stað fyrir 22 árum. Hún hafði farið út á lífið með samstarfsfélögum sínum á skemmtistað í miðbænum. Hún segir að hún og samstarfskonur hennar hafi verið nýbúnar að panta sér bjór þegar þær skruppu niður í kjallara á salernið. Þegar þær komu aftur upp hafi þær haldið áfram að spjalla og skála í bjórnum. Skyndilega fór henni að líða illa og svima.
„Það næsta sem ég man er að tveir menn halda undir sitthvorn handlegginn á mér og leiða mig út í leigubíl. Ég gat ekki hugsað skýrt eða farið í burtu, það var allt í móðu og mig sundlaði þótt ég hafi ekki verið búin að drekka mikið. Ég man ekki mikið meir eftir leigubílaferðinni. Það næsta sem ég man er að ég ligg í káetu í skipi og annar maðurinn heldur fyrir munninn á mér. Það var þessa nótt fyrir 22 árum sem ég varð fyrir einu stærsta áfalli lífs míns. Á meðan á þessu stóð sváfu tveggja ára dóttir mín og barnsfaðir minn vært á heimili okkar, maðurinn minn algjörlega grunlaus um hvað var að gerast,“ segir Kristjana.
Það var af illri nauðsyn að hún sagði frá atburðinum, en mánuði eftir hann komst hún að því að hún væri ólétt eftir nauðgunina. Hún treysti sér ekki til þess að eignast barnið og var fóstureyðing því næsta skref. Í kjölfarið kom langt tímabil sorgar, ótta og vanlíðunar. „Samband okkar sambýlismannsins þoldi ekki álagið og við skildum.“
Litlu sigrarnir sem hafa unnist undanfarið ár eru kraftaverki líkastir og hafa sannað fyrir mér að með góðri aðstoð.
Í grein sinni segir Kristjana að lausnin hennar í tuttugu ár hafi verið að stinga atburðinum ofan í skúffu og afneita því að þetta hefði komið fyrir. Hún fór að vinna markvisst í sínum málum ekki alls fyrir löngu og bætir við að sársaukinn við að vinna úr þessum málum hafi skilað sér í betra jafnvægi á öllum sviðum.
„Aðalverkefnið er að reyna að jafna út allan þann sjálfsefa, sjálfshöfnun og skömm sem þurrkaði út sjálfsmyndina á sínum tíma […] litlu sigrarnir sem hafa unnist undanfarið ár eru kraftaverki líkastir og hafa sannað fyrir mér að með góðri aðstoð og viljann að vopni er hægt að yfirstíga alla erfiðleika. Ég er full þakklætis fyrir það sem hefur áunnist og hlakka til að lifa lífinu frjáls og fjötralaus.“