Vinsældir Mamma mia slá öll met – Fullt út úr dyrum á frumsýningu
Söngleikurinn Mamma mia var frumsýndur í Borgarleikhúsinu á föstudagskvöld fyrir fullu húsi, að sjálfsögðu, enda fjölmargir búnir að bíða sýningarinnar með mikilli eftirvæntingu. Mamma mia hefur farið sigurför um heiminn og því var ekki við öðru að búast en að undirtektirnar hér á landi yrðu góðar. Óhætt er að segja að eftirspurnin eftir miðum hafi farið fram úr björtustu vonum því nú þegar er búið að selja um 36 þúsund miða á söngleikinn. Ef allir hafa greitt 7.500 krónur fyrir miðann sinn, sem hann kostar í miðasölu án afsláttar, er Borgarleikhúsið búið að selja miða á sýninguna fyrir 270 milljónir króna. Það hlýtur að teljast nokkuð gott miðað við að aðeins ein sýningarhelgi er liðin. Leikhúsgestir hafa keppst við að lofsama sýninguna á samfélagsmiðlum og má því ætla að Mamma mia standist allar væntingar. Gott orðspor sýningarinnar mun eflaust auka eftirspurnina enn frekar og ljóst er að þeir sem að sýningunni standa munu ekki unna sér hvíldar fyrr en einhvern tímann í sumar, þegar leikhúsið fer í frí. Það er Unnur Ösp Stefánsdóttir sem leikstýrir sýningunni, en með aðalhlutverk fara Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Helgi Björnsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir.