Hélt að hún hefði fengið skrámu – Var tvær vikur á sjúkrahúsi – „Þetta er partur af mér og ég skammast ekki fyrir það“ – Varð fyrir aðkasti í fyrstu sundferð eftir slysið – „Ég er að fá sjálfstraustið aftur“
Fyrir næstum þremur árum, eða 13. mars 2013, lenti Steingerður Björk Pétursdóttir, ung stúlka frá Hafnarfirði, í alvarlegu slysi þegar hún var í skólaferð í Bláfjöllum. Þegar Steingerður var að renna sér niður brekku féll hún og fór annað skíðið í lærið á henni með þeim afleiðingum að gapandi sár myndaðist. Steingerður hefur síðan þá verið með stórt ör á utanverðu lærinu. Hún vill nú fríska upp á örið, sem henni þykir vænt um, með fallegu húðflúri.
„Ég var með vinkonu minni þegar ég datt. Skíðið fór undir mig og í lærið. Pabbi var nýbúinn að brýna skíðin svo að þau voru flugbeitt. Eftir að ég datt fór ég að hlæja. Ég hélt í fyrstu að þetta væri bara smá skráma,“ segir Steingerður í samtali við DV.
Steingerður fór svo að finna fyrir miklum sársauka og gat ekki staðið upp. Starfsmaður kom henni svo til bjargar og reyndi að hughreysta hana.
„Ég spurði hvort að þetta væri stórt sár. Hann sagði svo ekki vera og að allt yrði í góðu lagi. Ég heyri hann svo tilkynna slysið í talstöðina. Þá sagði hann að ég væri með um það bil 13 sentímetra langan skurð sem væri nokkurra sentímetra djúpur. Þá fékk ég fyrst sjokk.“
Steingerður var í kjölfarið flutt á slysadeild þar sem læknar tóku á móti henni. Skömmu seinna kom lýtalæknir og ræddi við Steingerði.
„Hann gaf mér tvo kosti. Að loka sárinu þannig að eitt ör, sem væri eins og lína eftir lærinu, myndaðist eða að halda hringlaga lýtinu. Ég kaus seinni kostinn, að halda lýtinu og eiga örið sem minningu um slysið.“
Steingerður var rúmliggjandi á sjúkrahúsi í 13 daga eftir slysið og segir hún þann tíma hafa verið mjög erfiðan. Hún upplifði mikinn sársauka og átti verulega erfitt með að hreyfa sig. Tæpum mánuði eftir slysið fór hún svo að sýna batamerki og segist hún hafa verið tiltölulega fljót að ná sér, að mestu leyti.
Steingerður er nú búin að fara í þrjár aðgerðir til að reyna láta laga örið og segist hún eiga eina eftir. Steingerður segist alls ekki skammast sín fyrir örið en segist þó hafa orðið fyrir aðkasti vegna þess og hafi það haft áhrif á hana.
„Þetta er partur af mér og ég skammast ekki fyrir það“
„Þegar ég fór til að mynda í fyrsta sinn í skólasund eftir slysið kom ókunnug kona að mér og sagði mér hvað þetta væri ógeðslega ljótt og að ég ætti ekki að sýna þetta,“ segir Steingerður, sem var þá að verða 15 ára, og bætir við:
„Ég er að fá sjálfstraustið aftur. Þetta er partur af mér og ég skammast ekki fyrir það.“
Fyrir skemmstu fékk Steingerður svo þá hugmynd að setja húðflúr yfir örið. Hún segir þó tilganginn ekki vera að fela örið heldur til að fríska upp á það.
„Mig langar í eitthvað flott tattú sem passar við örið. Ég vil samt ekki fela örið alveg því það minnir á hvað ég hef þurft að ganga í gegnum.“
Steingerður segist hafa ýmsar hugmyndir um hvers konar húðflúr hún vilji fá yfir örið, þó hún enn hafi ekki ákveðið neitt. Í gær bauðst svo eldri bróðir hennar til að birta mynd af örinu á Facebook-síðunum „Sjomlatips!“ og „Tattoo á Íslandi.“ Þar bað bróðir hennar um ráðleggingar og spurði hvaða húðflúrarar fólk mælti með. Fjölmargir hafa nú sett athugasemdir við færslurnar og gefið Steingerði góð ráð.
„Það er æðislegt að sjá viðbrögðin. Það eru allir til í að hjálpa og er ég mjög þakklát fyrir aðstoðina.“