Eyddi tveimur mánuðum á sjúkrahúsi – „Tilfellið einn á móti milljón“ – Yfirstigið hindranir – „Ekkert gat stoppað mig nema ég sjálf“
Kristfríður Rós Stefánsdóttir, háskólanemi og einkaþjálfari, fékk í apríl árið 2012 hálsbólgu og varð í kjölfarið verulega veik. Eftir að hafa verið veik í sjö daga leitaði Kristfríður til læknis sem sendi hana á Barnaspítala hringsins. Í ljós kom að Kristfríður var með Lemierre’s syndrome, eða falda sjúkdóminn líkt og hann kallast á íslensku.
„Ég fékk hita og kuldaköst til skiptist og endaði á að sofa upp í rúmi foreldra minna þegar ég var orðin sem verst. Það var ekki fyrr en eftir sjö daga, í veikindum heima, þegar hitinn fór yfir 42.0°C að ég leið út af. Þessu augnabliki man ég ekkert eftir,“ segir Kristfríður en hún greindi frá veikindum sínum og endurhæfingu í pistli á vefsíðunni Motivation.is.
Kristfríður, sem er 20 ára og frá Ólafsvík, segir að hún hafi aldrei heyrt um sjúkdóminn áður en hún greindist með hann.
„Læknirinn útskýrði fyrir mér að þetta væri baktería sem allir væru með og gæti farið af stað eftir hálsbólgu en er tilfellið einn á móti milljón,“ segir Kristfríður og bætir við:
„Hefðu þau ekki greint mig þarna hefði ég þurft að fá ný líffæri, en var bakterían einnig komin í nýrun. Ég var sett strax á pensilín sem myndi vinna gegn þessu sem var léttir sérstaklega að fá þær fréttir hvað væri að mér en á sama tíma fannst mér svo ósanngjarnt ég þurfti að lenda í þessu. Fram undan tóku andvökunætur, svitaköst, verkjastillandi og uppköst í rúmar fimm vikur.“
Kristfríður var í rúma tvo mánuði á sjúkrahúsi vegna veikinda sinna og var hún bundin við hjólastól í rúman mánuð af þeim tíma. Þá léttist Kristfríður verulega á meðan hún dvaldi á sjúkrahúsinu.
„Ég fór úr 59 kílóum niður í 49. Ég var hjá sjúkraþjálfara þegar ég var sem veikust til að vinna upp vöðvana og kraftinn en var ég í hjólastól í rúman mánuð og fékk ekki heldur að fara út einfaldlega því ég gat það ekki. Ég gat ekki gengið upp stiga nema með aðstoð samt stóð ég á öndinni í hvert skipti þegar einhver aðstoðaði mig, þarna þurfti ég að byggja mig upp alveg frá nýtt.“
Eftir tvo mánuði á sjúkrahúsi fékk Kristfríður svo að fara heim. Við tók tveir mánuðir til viðbótar á lyfjum. Kristfríður segist hafa lært að meta lífið upp á nýtt á þessu tímabili og gert sér grein fyrir að hún hefði fengið annað tækifæri í lífinu.
„Þetta var eitthvað sem átti að gerast og þurfti ég að takast á við þessa hraðahindrun í lífi mínu.“
Kristfríður lét veikindin þó ekki halda aftur að sér. Hún hélt til að mynda áfram í skóla og náði markmiði sínu að útskrifast úr framhaldsskóla á tveimur og hálfu ári. Þá hélt hún einnig áfram að stunda líkamsrækt og sumarið 2013 var hún farin að æfa fótbolta á ný.
„Það að ná þessu markmiði sýndi mér að ekkert gat stoppað mig nema ég sjálf. Hefði ég ekki verið jákvæð og haft trú á mér á þessum erfiða tíma hefði þetta aldrei tekist,“ segir Kristfríður en hún kláraði einnig Snæfellsjökulshlaupið, sem er hálft maraþon, á tveimur tímum og 19 mínútum síðasta sumar.
„Þarna sigraði ég mig og sýndi mér aftur að ég gæti allt sem ég vildi.“
Að lokum segir Kristfríður að sú lífsreynsla sem hún hafi gengið í gegnum síðastliðin fjögur ár hafi gert hana að þeirri manneskju sem hún er í dag.
„Ég veit hvernig það er að þurfa að byggja sig upp eða byrja alveg upp á nýtt og vera á byrjunarreit.“