Björk Vilhelmsdóttir er nýkomin frá Palestínu – Hefur lifað í allsnægtum – Mjög margir hafa það allt of gott
Björk Vilhelmsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og félagsráðgjafi, er nýkomin heim frá Palestínu þar sem hún dvaldi í fjóra mánuði við sjálfboðastörf. Hún segir að eitt það besta við ferðina hafi verið að prófa að búa við önnur lífskjör en hún er vön. „Ég er manneskja allsnægta. Ég hef lifað í allsnægtum svo lengi og hafði svo brjálæðislega gott af því að fara og lifa eins og stærstur hluti jarðarbúa lifir, við kröpp kjör. Þar sem ekki var kjöt eða fiskur á boðstólum nema einstaka sinnum. Það er bara lúxus. Vatnsskortur er meiri í Palestínu en víðast hvar. Ísraelar hafa tekið allt vatn eignarnámi, einkavætt það og skammtað og selt Palestínumönnum. Tölur frá Sameinuðu þjóðunum sýna að Palestínumenn nota margfalt minna vatn en flestar aðrar þjóðir. Ísraelsmenn nota hins vegar meira vatn en flestir.“
Þennan mun má glögglega sjá á myndum sem Björk tók og sýnir blaðamanni. Þar sést meðal annars hvar reisulegt hús úr landnemabyggð Ísraelsmanna, með grænni grasflöt og frísklegum trjám, sker sig rækilega úr umhverfinu á hálfskrælnuðum ólífuökrum Palestínumanna.
„Ef þessi dvöl mín í Palestínu hefur ekki kennt mér nægjusemi þá er ekki hægt að kenna nægjusemi,“ segir Björk og hlær. „Ég var þarna í fjóra mánuði með hlutina mína í einni ferðatösku og saknaði einskis. Svo kom ég heim og ætlaði að setja fötin inn í skáp, þá voru skáparnir bara fullir fyrir. Það er vandinn okkar. Við erum að lifa allt of dýru lífi. Mjög margir hafa það allt of gott. Ég hef verið í þeim hópi sem hefur haft of mikið. Allt of mikið – samt er ég langt frá þeim mörkum sem ætti að greiða auðlegðarskatt. Mitt líf sýnir hversu fráleitt það var að taka af þann skatt. Samfélagið í heild þarf að minnka neysluna, fara frá þessari efnis- og neysluhyggju. Bæði af umhverfisástæðum og til að geta jafnað kjörin á milli okkar og þeirra sem annars munu sækja í það sem við höfum of mikið af. Ef við ætlum að taka á flóttamannavandanum þá eigum við að hætta að eyða í óþarfa. Hætta að kaupa fleiri nærbuxur. Ég til dæmis tók með mér tíu nærbuxur og þegar ég ætlaði að setja þær aftur inn í skáp heima þá voru þar fyrir tuttugu eða þrjátíu nærbuxur. Við eigum ekki bara að tæma skápana reglulega og gefa Rauða krossinum eða í flóttamannasafnanir, við eigum frekar að hætta að kaupa og eyða of miklu,“ segir Björk.