fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fókus

„Ég lærði að lifa upp á nýtt“

Björk Vilhelmsdóttir er nýkomin frá Palestínu – Hefur lifað í allsnægtum – Samfélagsumræða oft byggð á fáfræði – Flestir aldraðir hafa það gott

Ritstjórn DV
Föstudaginn 19. febrúar 2016 14:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björk Vilhelmsdóttir, félagsráðgjafi og fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er nýkomin heim frá Palestínu þar sem hún gegndi sjálfboðastarfi í fjóra mánuði. Hún komst í hann krappan, lét gott af sér leiða og lærði að lifa upp á nýtt. Þrátt fyrir að Björk hafi sagt skilið við pólitíkina þá hefur hún enn sterkar skoðanir og liggur ekki á þeim. Hún vill til að mynda sjá nýtt afl í pólitíkinni og þykir merkilegt hvernig fólk virðist í óánægju sinni tilbúið að gefa valdinu lausan tauminn með því að setja traust sitt á Pírata. Blaðamaður settist niður með Björk og ræddi um stöðuna í pólitíkinni í dag, óþolandi mýtur í samfélagsumræðunni og Palestínuförina sem breytti lífi hennar.

Við mælum okkur mót í mötuneyti Kennaraháskólans við Stakkahlíð þar sem Björk stundar nám. Hún byrjar á því að sækja sér soðið vatn út í teið sem hún tók með sér að heiman. Það er hagkvæmara en að kaupa það tilbúið í skólanum og þar fyrir utan er teið að heiman miklu betra. „Ég er búin að læra að lifa ódýrara og það gefur mér ótal tækifæri. Ég finn að ég þarf ekki þessar tekjur sem ég hafði og það er ótrúleg frelsun. Að vera ekki í kapphlaupi eftir einhverju meira,“ segir Björk sem lækkaði eðlilega töluvert í tekjum þegar hún fór úr borgarstjórn og settist á skólabekk.

Hún er að ljúka síðustu einingunum í meistaranámi í félagsráðgjöf og sér svo fyrir sér að starfa við fagið, líkt og hún gerði áður en hún hellti sér út í pólitíkina. Björk taldi að hún yrði eftirsóttur starfskraftur þegar hún sagði skilið við pólitíkina, enda með mikla reynslu á ýmsum sviðum. En það er smám saman að renna upp fyrir henni að kannski verði það ekki raunin. Ekki af því reynslan er ekki nógu mikil, heldur frekar af því hún er of mikil og kannski aldurinn of hár. Það er þægilegra fyrir atvinnurekendur að fá yngra fólk í vinnu – meðfærilegri starfskrafta sem hægt er að greiða lægri laun. Hún vonast þó til að reynslan verði metin að verðleikum einhvers staðar og hún fái að gera gagn.

„Ég fann það eftir þriggja mánaða aðskilnað hvað við urðum hræðilega ástfangin og það stendur enn – að mestu“

Þurfti smá „break“

Björk var borgarfulltrúi í þrettán ár. Kunni vel við starfið og leið vel þennan tíma. Hún ákvað hins vegar síðastliðið sumar að nú væri kominn tími til að draga sig út úr pólitíkinni. Í september sat hún sinn síðasta borgarstjórnarfund og skömmu síðar var hún flogin til Palestínu þar sem hún sinnti sjálfboðastarfi í fjóra mánuði. „Ég fann að tíminn minn var kominn. Mér fannst ég ekki hafa neitt nýtt að gefa. Þótt ég hafi kannski áhuga á málunum sem eru til umfjöllunar þá fannst mér ég ekki vera nógu fersk. Ég held að maður þurfi stundum smá „break“ í lífinu, eins og ég tók í Palestínu. Ég lærði svolítið að lifa upp á nýtt þar. Það er svo ótrúlega hollt að fara og læra að lifa,“ segir hún einlæg.

Er ekki búin að fá nóg

Björk hafði farið nokkrum sinnum áður til Palestínu, en þá alltaf með eiginmanni sínum, Sveini Rúnari Haukssyni, lækni og formanni félagsins Ísland-Palestína. Hún vildi prófa að fara á sínum eigin forsendum og upplifa Palestínu á annan hátt en áður. Sem varð raunin.

„Mig langaði að tengjast fólki á dýpri hátt. Ná lengri, betri og dýpri tengslum en Sveinn hefur getað náð. Hann hefur alltaf þurft að hafa svo mikla yfirferð. Hann hefur heimsótt marga og viðhaldið margvíslegum tengslum, meðal annars til þess að undirbúa komu sjálfboðaliða, sem hafa verið hátt í 40 síðastliðin tuttugu ár. Þannig hefur hann líka náð að skilja ótal víddir hernáms Ísraels og skilað því til þjóðarinnar. Mig langaði líka frekar að vinna með fólki á landsbyggðinni,“ segir Björk sem stefnir á að fara aftur til Palestínu næsta haust. „Ég er ekki búin að fá nóg. Mér finnst svo stórkostlegt frelsi að fara frá íslenska samfélaginu þar sem fólk þekkir mig. Í Palestínu vissu fæstir að ég væri pólitíkus. Ég var bara félagsráðgjafi. Mér fannst svo frábært að geta kynnt mig á mínum eigin forsendum, eins og ég vil vera, án þess að fólk væri búið að ákveða fyrirfram hvernig ég væri, af því ég hefði verið í borgarstjórn.“

Herinn hikar ekki við að beita táragasi og skotvopnum á mótmælendur. Björk lenti í því að mótmælendur voru skotnir steinsnar frá henni.
Táragas Herinn hikar ekki við að beita táragasi og skotvopnum á mótmælendur. Björk lenti í því að mótmælendur voru skotnir steinsnar frá henni.

Gott fyrir ástina

Fjórða mánuðinum í Palestínu vörðu Björk og Sveinn þó saman. Dvalarleyfi er aðeins veitt til þriggja mánaða og því fór Björk og hitti Svein í Mílanó á Ítalíu rétt fyrir jól. Þar voru þau í nokkra daga með dóttur sinni sem býr þar og starfar, en hún var ráðin til eins árs sem ung söngkona við Teatro alla Scala-óperuna. Það er óhætt að segja að miklir fagnaðarfundir hafi átt sér stað á Ítalíu þegar þau hjónin hittust. „Ef fólk vantar frekari rök fyrir því að taka „break“ í lífinu, þá er það líka ótrúlega gott fyrir ástina. Ég fann það eftir þriggja mánaða aðskilnað hvað við urðum hræðilega ástfangin og það stendur enn – að mestu,“ segir Björk og skellir upp úr. „Við Sveinn fórum svo saman á Þorláksmessu til Palestínu og vorum um jólin í Betlehem. Ég hef alltaf verið kristin og mér fannst alveg æðislegt að vera þarna á jólunum. Ekki bara okkar jólum heldur líka jólum austurkirkjunnar sem eru 7. janúar. Þá fögnuðum við jólunum með þúsundum flóttamanna frá Eritríu, ungu fólki með lítil börn sem búa ólöglega í Ísrael. Þau voru öll í sömu stöðu og Jósef og María á sínum tíma, komu til borgarinnar og höfðu ekki í nein hús að venda.“

Þá var Sveinn gerður að heiðursborgara í Palestínu í þessari ferð, sem þykir mikill heiður. „Hann er númer 25 í röðinni sem fær þessa viðurkenningu, með vegabréf númer 25. Utanríkisráðherra og aðstoðarutanríkisráðherra Palestínu höfðu talað sig saman um að það væri kominn tími á að hann fengi þessa viðurkenningu, en við vissum ekkert af því fyrr en út var komið. Sveinn lítur ekki bara á þetta sem heiður fyrir sig persónulega heldur líka fyrir íslensku þjóðina sem hefur staðið með Palestínumönnum.“

„Maður reynir að vera ekki í skotlínu, en ég setti mig reyndar kannski í óþarfa hættu þarna“

Líkránum mótmælt

Björk fór til Palestínu á vegum sjálfboðaliðasamtakanna IWPS og ISM og sinnti ýmsum krefjandi verkefnum. Meðal annars ólífutínslu, en ólífurækt er undirstöðuatvinnugrein í Palestínu. Sjálfboðaliðar aðstoða við tínslu á svæðunum við landnemabyggðirnar þar sem áreitið frá hermönnum og landnemum getur verið mikið. Tínslufólki á þessum svæðum er gert mjög erfitt fyrir með boðum og bönnum sem virðast vera sett á eftir hentugleika hverju sinni. Annað verkefni var að taka þátt í friðsömum mótmælum sem fara fram í hverri viku. Til dæmis í þorpinu Kufr Qaddum. „Þeirra barátta segir mjög mikið. Þorpið er úthverfi frá Nablus en svo var reist landtökubyggð þar á milli. Í mörg ár reyndu íbúar að semja um að fá að keyra framhjá landtökubyggðinni til að þurfa ekki að fara um langan veg til Nablus, án árangurs. Eftir margra ára þref hófust því vikuleg mótmæli og hafa staðið samfellt í um fimm ár.“

Þá tók Björk þátt í mótmælum gegn líkránum, sem eru alltaf að færast í aukana. Ísraelar halda þá eftir líkum Palestínumanna sem drepnir hafa verið til að hindra að greftrun fari fram. En það er mjög mikilvægt bæði í íslam og gyðingdómi að greftrun látinna fari fram eins fljótt og auðið er.
„Fólk vill ekki gefast upp. Það er ótrúleg seigla í fólki,“ segir Björk um mótmælendurna. „Mótmælin bera ekki alltaf árangur en það kemur fyrir og með því að koma saman helst samstaðan og þrautseigjan. Ekki veitir af og fólkið finnur þörfina á að halda áfram.“

Ísraelski herinn er þarna tilbúinn að takast á við mótmælendur í friðsömum bænamótmælum. Þessi Palestínumaður biður fyrir því að jörðin verði ekki tekin undir landnemabyggð.
Bænamótmæli Ísraelski herinn er þarna tilbúinn að takast á við mótmælendur í friðsömum bænamótmælum. Þessi Palestínumaður biður fyrir því að jörðin verði ekki tekin undir landnemabyggð.

Skotnir rétt fyrir framan Björk

Það er þó ekki hættulaust að taka þátt í friðsamlegum mótmælum, því ísraelski herinn notar hiklaust táragas og skotvopn til að halda aftur af mótmælendum. Björk lenti til að mynda í því að mótmælendur voru skotnir, bæði rétt fyrir framan hana og rétt við hlið hennar. Í mótmælum í Silwad var hún að taka myndband upp á símann sinn og áttaði sig ekki á aðstæðum fyrr en hún skoðaði myndbandið síðar. „Maður, rétt fyrir framan mig, var skotinn þegar ég var að mynda,“ segir Björk á meðan hún leitar að myndbandinu til að sýna blaðamanni. „Auðvitað getum við ákveðið hversu nálægt við förum. Það er hættulegt að vera í fremstu víglínu og að standa með strákunum sem kasta grjóti. Það eru þeir sem eru skotmarkið, þrátt fyrir að margir aðrir verði fyrir skotum. Maður reynir að vera ekki í skotlínu, en ég setti mig reyndar kannski í óþarfa hættu þarna,“ viðurkennir hún, á sama tíma og hún setur myndbandið af stað. Þar sést glögglega hvar skotin dynja og lenda á mótmælendum, steinsnar frá Björk.

„Við erum afæturnar“

Í pólitíkinni á Íslandi barðist Björk fyrir bættum kjörum þeirra sem þurfa samfélagslegan stuðning í lífinu og jafnari lífskjörum fólks. Hún telur jafnari lífskjör einu skynsömu lausnina á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag.

„Ég hef mikla trú á jöfnuði, ekki bara innan okkar samfélags, heldur líka á milli samfélaga og þjóða. Núna eru Evrópuþjóðirnar að takast á við mikinn flóttamannastraum og hann mun bara vaxa. Núna er straumurinn vegna ófriðar í Mið-Austurlöndum og bágra lífskjara víða í Afríku. Það eru nánast engin lönd þar sem almenn lífskjör eru jafn mikil og hér. Og með netinu sér fólk um allan heim hvernig við höfum það. Til okkar mun því leita fólk sem er í leit að betra lífi fyrir sig og sína fjölskyldu. Það er mjög eðlilegt. Við eigum ekki endilega að vera þeir útvöldu einstaklingar sem eiga að hafa það best í heiminum. En við megum heldur ekki koma því þannig í kring að allur heimurinn fari að lifa á sömu lífskjörum og við. Þá verður enginn heimur til,“ segir Björk og á þar meðal annars við að ef allar þjóðir heims lifðu sama neyslumynstri og Vesturlandabúar væru auðlindir jarðar fljótar að klárast. „Við erum afæturnar sem kalla á flóðin og fellibylina á suðurhveli jarðar,“ bætir hún við.

Björk er að klára síðustu einingarnar sem hún á eftir í félagsráðgjöfinni. Svo sér hún fyrir sér að vinna við fagið, líkt og hún gerði áður.
Klárar meistaranám Björk er að klára síðustu einingarnar sem hún á eftir í félagsráðgjöfinni. Svo sér hún fyrir sér að vinna við fagið, líkt og hún gerði áður.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Hefur lifað í allsnægtum

Eitt það besta við Palestínuferðina var að sögn Bjarkar að prófa að búa við önnur lífskjör en hún er vön. „Ég er manneskja allsnægta. Ég hef lifað í allsnægtum svo lengi og hafði svo brjálæðislega gott af því að fara og lifa eins og stærstur hluti jarðarbúa lifir, við kröpp kjör. Þar sem ekki var kjöt eða fiskur á boðstólum nema einstaka sinnum. Það er bara lúxus. Vatnsskortur er meiri í Palestínu en víðast hvar. Ísraelar hafa tekið allt vatn eignarnámi, einkavætt það og skammtað og selt Palestínumönnum. Tölur frá Sameinuðu þjóðunum sýna að Palestínumenn nota margfalt minna vatn en flestar aðrar þjóðir. Ísraelsmenn nota hins vegar meira vatn en flestir.“

Þennan mun má glögglega sjá á myndum sem Björk tók og sýnir blaðamanni. Þar sést meðal annars hvar reisulegt hús úr landnemabyggð Ísraelsmanna, með grænni grasflöt og frísklegum trjám, sker sig rækilega úr umhverfinu á hálfskrælnuðum ólífuökrum Palestínumanna.

Hættum að kaupa fleiri nærbuxur

„Ef þessi dvöl mín í Palestínu hefur ekki kennt mér nægjusemi þá er ekki hægt að kenna nægjusemi,“ segir Björk og hlær. „Ég var þarna í fjóra mánuði með hlutina mína í einni ferðatösku og saknaði einskis. Svo kom ég heim og ætlaði að setja fötin inn í skáp, þá voru skáparnir bara fullir fyrir. Það er vandinn okkar. Við erum að lifa allt of dýru lífi. Mjög margir hafa það allt of gott. Ég hef verið í þeim hópi sem hefur haft of mikið. Allt of mikið – samt er ég langt frá þeim mörkum sem ætti að greiða auðlegðarskatt. Mitt líf sýnir hversu fráleitt það var að taka af þann skatt. Samfélagið í heild þarf að minnka neysluna, fara frá þessari efnis- og neysluhyggju. Bæði af umhverfisástæðum og til að geta jafnað kjörin á milli okkar og þeirra sem annars munu sækja í það sem við höfum of mikið af. Ef við ætlum að taka á flóttamannavandanum þá eigum við að hætta að eyða í óþarfa. Hætta að kaupa fleiri nærbuxur. Ég til dæmis tók með mér tíu nærbuxur og þegar ég ætlaði að setja þær aftur inn í skáp heima þá voru þar fyrir tuttugu eða þrjátíu nærbuxur. Við eigum ekki bara að tæma skápana reglulega og gefa Rauða krossinum eða í flóttamannasafnanir, við eigum frekar að hætta að kaupa og eyða of miklu,“ segir Björk.

Björk og Jussi með Palestínumanninum sem þau smygluðu yfir landamærin til Ísraels, þar sem hann þurfti á læknisaðstoð að halda.
Björk og Jussi með Palestínumanninum sem þau smygluðu yfir landamærin til Ísraels, þar sem hann þurfti á læknisaðstoð að halda.

Smygluðu veikum manni yfir landamærin

„Ég mæli með að sem flestir fari til Palestínu. Þar upplifir maður það líka hvað það þýðir að vera frjáls og geta ferðast. Sem skiptir svo miklu máli.“
Björk upplifði einmitt forréttindi sín sem frjáls manneskja mjög sterkt þegar hún aðstoðaði Palestínumann við að sækja sér læknisaðstoð hinum megin við aðskilnaðarmúrinn. En það var eitt af því sem hún tók að sér að gera sem sjálfboðaliði.

„Ísrael ber alla ábyrgð á því að veita heilbrigðisþjónustu til þeirra sem þeir hafa hertekið, þannig eru alþjóðalög. Það er því ekki af góðmennsku að öll flóknari heilbrigðisþjónusta er veitt á sjúkrahúsum í Ísrael. Palestínsk sjúkrahús hafa ekki bolmagn til þess að veita hana,“ útskýrir Björk, en Palestínumaðurinn sem hún smyglaði yfir landamæri, ásamt dönskum sjálfboðaliða, hafði gengist undir krabbameinsmeðferð á ísraelsku sjúkrahúsi. Hann var laus við meinið en þurfti að vera undir eftirliti hjá lækni í Ísrael. Hann fékk hins vegar ekki leyfi fyrir því að fara yfir til Ísraels á þeim forsendum, þar sem hann taldist vera læknaður. „Hann fékk ekki að fara yfir þrátt fyrir ítrekaðar skriflegar beiðnir lækna, en það er ekki heilbrigðismenntað fólk sem metur það hvort einstaklingur kemst yfir landamærin. Það eru stofnanir sem segja bara nei ef maður er ekki með lífshættulegan sjúkdóm, ef maður þarf bara eftirlit. Þess vegna fórum við Jussi, danski sjálfboðaliðinn, og leigðum okkur bíl með gulri númeraplötu. Já, bílnúmeraplöturnar segja heilmikið um aðskilnaðinn. Ísraelar keyra um á gulum númeraplötum og slíkir bílar mega keyra til Palestínu. Palestínumenn keyra hins vegar um á hvítum númeraplötum og mega ekki keyra yfir til Ísraels. Og við sem erum frjáls gátum leigt okkur bíl í Ísrael, keyrt til Palestínu og smyglað Palestínumanni yfir.“

„Flestir aldraðir hafa það bara mjög gott“

Þurfti í aðgerð

Björk segir þau hafa tekið töluverða áhættu með smyglinu. Ef þau hefðu verið tekin á landamærastöðinni hefði þeim væntanlega verið vísað úr landi og ekki fengið að koma aftur næstu tíu árin. Hún segir þó nokkuð um það að sjálfboðaliðar fái slíka brottvísun, þrátt fyrir að þeir taki einungis þátt í friðsömum mótmælum. „Stundum tekur maður samt áhættu því það er þess virði og í þessu tilfelli þá reyndist það svo sannarlega þess virði því maðurinn þurfti á aðgerð að halda þegar hann kom yfir. Hann er mjög veikur. En það var gaman að geta hjálpað,“ segir Björk og sýnir blaðamanni myndir af umræddum manni. Hún hefur verið í sambandi við hann eftir að hún kom heim til Íslands og veit því að hann er enn á lífi.

„Á sumum landamærastöðvum hleypa þeir fólki á gulum númerum í gegn án sérstakrar skoðunar, sérstaklega ef þeir sjá að um vestræna túrista er að ræða, eða Ísraela sem þeir þekkja. Í þessu tilfelli þá fylltum við Jussi vel upp í framrúðuna á lítilli Nissan Micra-bifreið, þannig að landamæraverðirnir sáu ekki Palestínumanninn í aftursætinu. Hann hélt fyrir andlitið og gerði sig ósýnilegan.“

„Það er ekkert gaman að vera ein af þessu vonda fólki“

Vill nýtt afl í pólitíkinni

En nú þegar Björk er komin aftur heim er ekki úr vegi að fara aðeins með henni ofan í saumana á pólitíkinni á Íslandi, sérstaklega stöðu Samfylkingarinnar, sem er ekki kræsileg um þessar mundir.

„Ég vil sjá nýtt afl í pólitíkinni, helst leitt áfram af Katrínu Jakobsdóttur. Eða einhverjum öðrum. Það þarf ekki að vera einhver sem er í pólitíkinni núna. Samfylkingin hefur gríðarlega góða stefnu í velferðarmálum, jöfnun lífskjara, umhverfisvernd og alþjóðamálum, sem þarf að standa vörð um. Þetta er stefna sem mjög margir eru sammála um. Það er í raun auðvelt að selja stefnu Samfylkingarinnar en það er hræðilega erfitt að selja Samfylkinguna sjálfa. Þess vegna vil ég sjá nýtt afl. Það eru svo margir sammála; Vinstri grænir, Björt framtíð, við og þorri almennings. Að minnsta kosti þorri launafólks. En það væri samt rangt að fara að sameina flokkana, frekar að fá inn nýtt og óháð fólk sem vill gera eitthvað með þessi stefnumál. Ef við höfum gert eitthvað rangt og erum ekki á réttri línu þá verður almenningur að taka af skarið.“

Björk segir vandamálið þó að miklu leyti vera að almenningur vilji lítið vita af stjórnmálum og sé í raun óvirkur. „Það er svo vond staða ef fólk lítur á stjórnmálin sem vond öfl og telur að stjórnmálamenn séu hræðilegir. En hvað eigum við að gera? Við viljum lýðræði og höfum ekkert annað fyrirkomulag,“ segir Björk ákveðin. Þrátt fyrir að hafa dregið sig til hlés í pólitíkinni hefur hún enn mikinn áhuga og sterkar skoðanir, enda situr hún í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar. Starfar í pólitíkinni bakvið tjöldin.

Björk var stundum við útfarir Palestínumanna, líkt og hundruð annarra. Hún segir herinn stunda það að halda eftir líkum Palestínumanna sem drepnir hafa verið, í allt að þrjá mánuði. En bæði í íslam og gyðingdómi er mjög mikilvægt að greftrun fari fram eins fljótt og auðið er.
Lík borin til grafar Björk var stundum við útfarir Palestínumanna, líkt og hundruð annarra. Hún segir herinn stunda það að halda eftir líkum Palestínumanna sem drepnir hafa verið, í allt að þrjá mánuði. En bæði í íslam og gyðingdómi er mjög mikilvægt að greftrun fari fram eins fljótt og auðið er.

„Ég er góð“

„Mér finnst pólitíkin skipta svo miklu máli. En ég hef fundið vel hvernig þetta almenna viðhorf gagnvart pólitíkinni grefur undan manni sjálfum. Það er ekkert gaman að vera ein af þessu vonda fólki. Ég er góð. Mér finnst ég vera góð manneskja og kannast ekki við að hafa verið spillt eða eitthvað slíkt. Maður vill þá ekki vera hluti af þeirri ímynd. En auðvitað gerist stundum eitthvað nálægt manni sem kalla má spillingu. Hún þrífst samt aðallega þegar stjórnmálamenn kunna ekki að segja nei og reyna að finna leiðir að já-inu þrátt fyrir að vita að það sé rangt. En við setjum reglur og lög til að reyna að koma í veg fyrir það. Stundum gerum við reyndar of mikið af því. Þannig hefur orðið til stofnanavæðing í stjórnmálunum sem fólk vill heldur ekki sjá. Það er vandlifað og stundum erfitt að vera hluti af Samfylkingunni vegna þessa. Flokkurinn á meira regluverk en flesta grunar, en það er til að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir, fyrirgreiðslu og óundirbúnar ákvarðanir. Það hefur orðið okkur til dæmis stórmál að geta haldið landsfund út af stöðu mála; allri umræðunni og neikvæðninni. Það er nefnilega í lögum flokksins að halda landsfund annað hvert ár – kannski oftar ef það eru kosningar. En það er flókið ferli að boða til slíkra funda utan þess tíma,“ segir Björk og vísar þar til þeirrar ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar að flýta landsfundi flokksins fram í júní á þessu ári.

Tiltrúin er farin

Henni þykir hin neikvæða umræða í garð Samfylkingarinnar að mörgu leyti ósanngjörn, enda hafi flokkurinn staðið sig vel í því að betrumbæta sig frá hruni. Til dæmis með starfi umbótanefndar og sáttanefnd, það hafi verið settar siðareglur og margar umbótatillögur samþykktar. „Það er búið að gera þetta allt, en það skiptir engu máli, því tiltrúin er farin. Fólk hefur heldur ekki áhuga á að heyra af þessu. Það eru engin hlustunarskilyrði úti í samfélaginu. Það er kannski einn helsti vandi Samfylkingarinnar,“ segir Björk. Hún fyllist hálfgerðu vonleysi þegar hún ræðir þetta, enda erfitt að vekja athygli á góðum málum þegar enginn vill hlusta.

„Mér finnst Árni Páll mjög góður drengur og frambærilegur. Ég hef stutt hann, en hann virðist hafa misst tiltrú fólksins. Hann er skaddaður af störfum sínum í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem hann var í erfiðri stöðu, en taldi sig gera rétt á sínum tíma. Það er svo oft sem eitthvað er gert á ákveðnum tíma sem stenst ekki mat almennings. En það er svo aftur margt sem stenst ekki almenningsálitið sem mun kannski standast söguskoðun. Það tvennt þarf ekki að fara saman. Ég er til dæmis alveg viss um það að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mun standast söguskoðun.“

Landnemi áreitir Björk og einn Palestínumann þar sem þau eru við ólífutínslu. Landnemabyggðirnar teygja sig inn á ólífuakrana og tínslufólk fær oft ekki frið fyrir áreiti, bæði frá landnemum og hernum.
Áreiti Landnemi áreitir Björk og einn Palestínumann þar sem þau eru við ólífutínslu. Landnemabyggðirnar teygja sig inn á ólífuakrana og tínslufólk fær oft ekki frið fyrir áreiti, bæði frá landnemum og hernum.

Fólk til í að gefa valdinu lausan tauminn

En nú þegar landsfundur Samfylkingarinnar hefur verið boðaður, er ekki hægt annað en að spyrja Björk hvern hún vill sjá sem næsta formann.

„Ég held að það væri gott fyrir Samfylkinguna ef það væri einhver utan þingflokksins. Það er erfitt að fá utanaðkomandi fólk, en í okkar baklandi er gríðarlega öflugt fólk. En af hverju ætti maður að bjóða sig fram í stjórnmálum vitandi að fólk mun tala mann niður og ætla mann einhvern annan en maður er?“ spyr Björk réttilega. Hún er komin í ham og heldur áfram: „Svo er mjög merkilegt að fólk er tilbúið að setja trú sína á fólk sem það veit ekki einu sinni hvað stendur fyrir. Eins og umræðan sem er að eiga sér stað um það hvort Píratar séu frjálshyggju- eða félagshyggjufólk. Flokkur sem er með 40 prósenta fylgi. Það er mjög merkilegt því það skiptir svo miklu máli fyrir hvað stjórnmálaöflin standa. Það skiptir auðvitað máli hverjir stjórna. Frjálshyggjuflokkur er svolítið eins og þeir sem eru nú við völd, sem eru ekki til í að beita skattakerfinu til að jafna lífskjörin. Félagshyggjuflokkarnir eru til þess. Það er því merkilegt hvernig fólk er tilbúið, í óánægju sinni og blekktri tiltrú á því hvað stjórnmálin eru vond, að gefa valdinu alveg lausan tauminn. Að það megi bara gera hvað sem er.“

„Ég hef verið í þeim hópi sem hefur haft of mikið. Allt of mikið – samt er ég langt frá þeim mörkum sem ætti að greiða auðlegðarskatt.“

Umræða byggð á fáfræði

Þrátt fyrir að Björk sé ekki lengur í borgarstjórn getur umræða tengd störfum fyrrverandi kollega vakið hjá henni reiði. Hún nefnir sem dæmi umræðu um yfirvofandi niðurskurð í sérkennslu grunnskólanna sem hún segir byggjast á fáfræði. „Það er talað um að svona niðurskurð þurfi að skoða vel. Auðvitað er búið að skoða þetta vel. Við erum bæði með pólitíkusa og embættismenn sem eru búnir að skoða þetta virkilega vel og sjá að þarna er hægt að hagræða. Það eru ekki pólitíkusarnir sem finna upp á einhverju vondu. Það hefur orðið gríðarleg aukning útgjalda í þessum málaflokki síðustu ár og stundum þarf bara að breyta verklagi og gera eitthvað ódýrara. Stundum eru settir miklir fjármunir í einhver verkefni sem skila ekki því sem til er ætlast. Þá þarf að fara til baka,“ útskýrir hún.

Eitt hlutverk sjálfboðaliðanna er að aðstoða við ólífutínslu, en ólífurækt er undirstöðuatvinnugrein í Palestínu.
Við tínslu Eitt hlutverk sjálfboðaliðanna er að aðstoða við ólífutínslu, en ólífurækt er undirstöðuatvinnugrein í Palestínu.

Hataðasta ákvörðunin

En það mál sem hvað mest hefur verið gagnrýnt og Björk bar ábyrgð á í borgarstjórn var að hækka aldur fólks sem fær ókeypis í sund. Hann var hækkaður úr 67 árum í 70 ár. „Þetta er hataðasta ákvörðun sem ég hef staðið frammi fyrir. Þetta var í kreppunni og við urðum að skera niður. Þetta er búið að vera stóra málið hjá Félagi eldri borgara og mörgum öðrum. Ég spyr á móti; af hverju eiga þeir sem eru 67 til 70 ára að fá ókeypis í sund? 67 ára eftirlaunaaldurinn var settur í lög árið 1936. Þá var lífaldur fólks 20 árum skemmri en hann er núna. Það eru allir á móti þessari breytingu en á sama tíma og talað er um að hækka eftirlaunaaldurinn. Næstum 50 prósent fólks á þessum aldri er í fullri vinnu og stór hluti er í hálfu starfi. Þetta er hópurinn sem í öllum könnunum kemur fram að sé fjárhagslega sterkastur í samfélaginu.“

Ef gefa ætti fleirum ókeypis í sund þá ætti frekar að hækka aldur barna sem fær ókeypis, að mati Bjarkar, enda hafi barnafjölskyldur það verst í samfélaginu. „Þetta hefur líka verið gagnrýnt út frá lýðheilsusjónarmiðum, en offituvandamálið er mest á meðal barna, ekki fólks á þessum aldri. Umræðan í samfélaginu er oft svo mikið rugl. Við verðum að tala út frá staðreyndum en ekki mýtum. Stundum er ætlast til að teknar séu ákvarðanir út frá mýtum en það rétta er að stjórnmálamenn taka ákvarðanir út frá staðreyndum, þótt þær séu stundum óvinsælar,“ segir Björk sem er heitt í hamsi þegar hún ræðir þessi mál. Henni finnst samfélagsumræða sem er byggð á staðreyndavillum einstaklega þreytandi.

„Ég vil sjá nýtt afl í pólitíkinni, helst leitt áfram af Katrínu Jakobsdóttur“

Aldraðir fjársterkur hópur

„Það er alltaf verið að tala um aldraða sem svo illa staddan hóp en stærstur hluti aldraðra í dag er í eigin húsnæði sem þeir keyptu áður en lán urðu verðtryggð. Lánin voru svo étin upp á verðbólgutímanum þannig að hvað eignir varða eru aldraðir mjög fjársterkur hópur þótt hann hafi kannski ekki úr miklu að spila í daglega lífinu, sérstaklega ekki þeir sem hafa bara tekjur úr almannatryggingakerfinu,“ segir Björk en bendir á að sá hópur sé rétt um 10 prósent aldraðra. „Við tölum oft eins og allir aldraðir séu í þeim hópi, sem er alveg fjarri lagi.“

Máli sínu til stuðnings vísar Björk til rannsókna um hagi eldri borgara sem gerðar eru á nokkurra ára fresti, sem Reykjavíkurborg, öldrunarráð og velferðarráðuneytið standa að. Í þessum rannsóknum, sem taka til tæplega 2.000 einstaklinga á aldrinum 67 til 87 ára, kemur ýmislegt áhugavert fram. Í síðustu rannsókn, frá árinu 2012, kom til að mynda fram að um 70 prósent svarenda höfðu sjaldan eða aldrei fjárhagsáhyggjur. Þrátt fyrir það töldu um 75 prósent af sama hópi að aldraðir þyrftu á fjárhagsráðgjöf að halda. Upp til hópa virðast aldraðir því telja að jafnaldrar þeirra hafi það töluvert verra en þeir sjálfir.

„Lítill hluti aldraðra hefur miklar fjárhagsáhyggjur. En auðvitað er það okkar að tala fyrir því að þeir aldraðir sem hafa bara tekjur af almannatryggingum og eða lítinn lífeyrissjóð hafi það betra. Þeir og öryrkjar áttu til dæmis að fá afturvirkar greiðslur eins og allir aðrir. En ég get ekki talað fyrir því að allir aldraðir eigi að hafa það betra, því ég veit hvernig staðan er. Flestir aldraðir hafa það bara mjög gott.“

Björk á leið í ólífutínslu á eldgamalli dráttarvél, en slíkir farkostir þykja góðir og gildir í Palestínu.
Sjálfboðaliði Björk á leið í ólífutínslu á eldgamalli dráttarvél, en slíkir farkostir þykja góðir og gildir í Palestínu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðbjörg bjó ein 12 ára gömul og allir vissu það en enginn gerði neitt – „Þetta var auðvitað mikil höfnun“

Guðbjörg bjó ein 12 ára gömul og allir vissu það en enginn gerði neitt – „Þetta var auðvitað mikil höfnun“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð
Fókus
Fyrir 3 dögum

50 stærstu stjörnur YouTube berjast um 1 milljón dala -„Þú ert vondur maður, herra Beast“

50 stærstu stjörnur YouTube berjast um 1 milljón dala -„Þú ert vondur maður, herra Beast“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Shannon Doherty látin aðeins 53 ára að aldri

Shannon Doherty látin aðeins 53 ára að aldri
Fókus
Fyrir 5 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar