Eva Björk Davíðsdóttir handboltakona í efstu deild Gróttu segir verulega halla á handbolta kvenna þegar kemur um umfjöllun í fjölmiðlum. Handbolti karla sé ávallt settur á hærri stall og umfjöllun um hann háværari.
„Ég held að vandinn liggi í einhverju rótrgónu grundvallarviðhorfi. Íþróttir kvenna eru einfaldlega ekki settar á sama stall og íþróttir karla og þannig er það búið að vera allt of lengi. Körlunum er alltaf gert hærra undir höfði,“ segir Eva Björk í samtali við DV.is en hún vakti athygli á málinu í pistli á fésbókarsíðu sinni. Hafa rúmlega 200 manns deilt pistlinum er þetta er ritað og segir Eva augljóst að um þarfa umræðu sé að ræða.
„Ég er búin að spila í efstu deild í handbolta í að verða 6 ár og alveg sama hversu mikið maður tuðar og vælir þá virðist ekki vera hægt að breyta einum ákveðnum hlut. Karladeildin fær ALLTAF meiri og betri umfjöllun en kvennadeildin hjá stærstu fréttamiðlum landsins. Það er bara því miður staðreynd. Ég veit fyrir víst að kvartanir eru sendar inn reglulega en það virðist bara ekki breyta neinu,“ ritar Eva Björk í pistli sínum og nefnir því næst ákveðið tilvik.
„Þessa dagana standa yfir 8-liða úrslit í bikarkeppni karla og kvenna í handboltanum. Tveir leikir voru hjá körlum á sunnudaginn síðasta og aðrir tveir svo á mánudagskvöld. ALLIR fjórir leikirnir voru í beinni lýsingu með tilheyrandi tölfræði og umfjöllun hjá bæði visir.is og mbl.is. Þrír leikir fóru svo fram kvennamegin á núna í kvöld. Ekki EINN þeirra var í beinni lýsingu, hvort sem það var mbl.is eða visir.is og maður má bara þakka fyrir ef að úrslitin koma inn svona eins og klukkutíma eftir leik eða svo.“
„Og svo þegar úrslitin loksins koma, þá fylgir auðvitað ekki sama flotta tölfræðin og umfjöllunin eins og fylgdi með fréttunum um karlaleikina,“ segir Eva jafnframt og bætir við að hún og liðsfélagar hennar í meistaraflokki Gróttu muni spila síðasta leik 8-liða úrslitana á morgun við Selfoss. „Og af fyrri reynslu get ég sagt til ykkar, sem ekki ætla að gera sér ferð á Selfoss, úrslit og helstu markaskorarar munu koma inn um svona tíuleytið annað kvöld.“