Arnold Schwarzenegger hefur í áratugi verið ímynd hreysti og sjálfstrausts. Sjálfur segist hann alltaf hafa þjáðst af skorti á sjálfsöryggi og hafi aldrei verið ánægður með líkama sinn. Jafnvel þegar hann hafi verið á toppnum og unnið alls kyns titla í vaxtarræktarkeppni hafi hann aldrei verið fullkomlega ánægður með útlit sitt. „Það var alltaf eitthvað sem skorti upp á. Ég fann milljón hluti sem mér fannst vera í ólagi og það varð til þess að ég hélt stöðugt áfram að æfa.“
Kappinn er orðinn 69 ára gamall og hefur nokkurn ama af því að sjá líkamann hrörna. Nú er svo komið að hann segist helst vilja kasta upp sjái hann spegilmynd sína. Hann segist samt ekki finna fyrir aldrinum og segist gera allt það sama og hann gerði fyrir tuttugu árum. Hann heldur ótrauður áfram að styrkja og þjálfa líkamann og byrjar daginn á æfingum og æfir einnig fyrir svefninn. „Ég ætla að halda mér í formi eins lengi og ég get,“ segir þessi fyrrverandi Herra Alheimur, fyrrverandi ríkisstjóri og alheimsstjarna.