Síðasta kvikmyndin sem hún lék í áður en hún lést – Innihélt handskrifaða minnispunkta leikkonunnar
Handrit að síðustu kvikmynd Marilyn Monroe, Something‘s Got to Give, sem var í eigu leikkonunnar var selt á uppboði á fimmtudag fyrir rúmar 2,8 milljónir króna. Handritið innihélt handskrifaða minnispunkta frá Monroe þar sem hún leitar leiða til að gera hin ýmsu atriði myndarinnar kynþokkafyllri
Það var Nate D Sanders uppboðshúsið sem annaðist uppboðið en handritið var slegið heppnum aðdáanda sem var reiðubúinn að sjá á eftir 25 þúsund dölum til að eignast handritið. Vefsíða TMZ bendir á að af minnispunktunum megi ráða að Marilyn hafi ekki verið neitt sérstaklega góð í stafsetningu.
Marilyn Monroe var, sem frægt er orðið, rekin við tökur myndarinnar, sem var með Dean Martin í aðalhlutverki í júní 1962. Hún hafi verið óstýrlát og til vandræða. Hún fannst látin tveimur mánuðum síðar.
Aldrei var lokið við myndina því að Dean Martin neitaði að halda áfram eftir að Monroe hvarf á braut.