fbpx
Laugardagur 28.desember 2024
Fókus

Örvar Þór:„Ein móðirin grét svo mikið af gleði að átta ára dóttir hennar fór að gráta líka“

Auður Ösp
Föstudaginn 16. desember 2016 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég var að hlusta á útvarpsþátt þar sem kona var valin úr ábendingum og vann jólatré og inneign í fataverslun. Hún bókstaflega hágrét af þakklæti þegar þáttarstjórnendur hringdu í hana og ég var bara í molum þegar ég hlustaði á þetta. Þessi kona átti tvö þúsund krónur í vasanum til að halda jól. Ég varð hálfhissa á að einhver skyldi vera svona þakklátur fyrir hlut sem mér fannst vera sjálfsagður. Maður var kannski bara svona einfaldur, og hélt að allir hefðu það jafn gott um jólin og maður sjálfur,“ segir Örvar Þór Guðmundsson, þriggja barna faðir úr Hafnarfirðinum en umrætt atvik í byrjun desember 2012 varð til þess að hann hóf að safna fé til styrktar fjölskyldum og einstaklingum sem eiga um sárt að binda. Söfnunarstarfið átti svo sannarlega eftir að vinda upp á sig og hefur Örvar nú, ásamt fleirum komið á fót góðgerðasamtökunum Samferða.

Í samtali við blaðamann DV segir Örvar að í kjölfar þess að hafa hlustað á umræddan útvarpsþátt í desember 2012 hafi hann ákveðið að hjálpa umræddri konu að halda gleðileg jól og tókst honum á einum degi að safna 150 þúsund krónum með hjálp vina sinna á Facebook. Ári síðar hvöttu vinir Örvars hann til að endurtaka leikinn, og fékk hann þá aðstoð við finna fjölskyldur tveggja langveikra barna. Viðbrögðin við söfnuninni voru slík að Örvar sá að framtak hans var komið til að vera.

„Upphaflega setti ég mér það markmið að safna 300 þúsund krónum, 150 þúsundum fyrir hvora fjölskyldu, en sú upphæð endaði síðan í 1.700 þúsund krónum. Fjölskyldurnar fóru frá því að vera tvær yfir að vera tólf. Þetta varð eiginlega hálfgerð sprengja.“ Seinustu tvenn jól hefur Örvar síðan safnað alls tæplega sjö milljónum króna fyrir Kraft og Ljósið og hafa rúmlega þrjátíu fjölskyldur notið góðs af.

Fyrstu þrjú árin fór allt söfnunarstarfið eingöngu fram á persónulegri Facebook-síðu Örvars. Það sem byrjaði að hans sögn sem „lítið og krúttlegt konsept“ hefur nú undið upp á sig og orðið til þess að nú á haustmánuðum kom Örvar á fót góðgerðasamtökunum Samferða ásamt þeim Rúti Snorrasyni og Hermanni Hreiðarssyni. Tilgangur samtakanna er að aðstoða fólk fjárhagslega sem hefur orðið fyrir áföllum í lífinu, svo sem vegna veikinda, en fimm manna stjórn kemur saman einu sinni í mánuði og vinnur úr ábendingum sem hafa borist um fjölskyldur og einstaklinga sem eiga um sárt að binda.

Jólin voru kvíðavaldur

Þetta ritaði ung kona í þakkarbréfi til Örvars

„Jólin voru bara kvíðavaldur hjá mér. Í gær var ég með hnút í maganum þegar ég var að reyna að kaupa jólagjafir. Það er svo gríðarlega þungu fargi af mér létt. Ég skuldaði bankanum skólagjöldin og það var virkilegur baggi á mér því ég átti engan veginn peninga til að borga þau. Nú get ég borgað skólagjöldin, keypt í matinn, keypt kuldaskó á dóttur mína, keypt bensín á bílinn, keypt jólagjafir og samt átt afgang.“

Í öðru þakkarbréfi ritar kona:

„Ég get ekki lýst með orðum hversu þakklát við erum. Við erum sex manna fjölskylda með börn á öllum aldri. Við höfum búið við fjárhagsáhyggjur þennan tíma þótt þær blikni í samanburði við þær áhyggjur sem maður hefur þegar maður er að glíma við lífshættulegan sjúkdóm. Ég hef glímt við krabbamein í rúmt ár og viku áður en ég greindist, greindist tengdamóðir mín einnig með krabbamein þannig að síðasta árið og rúmlega það hefur verið erfiður tími fyrir fjölskylduna. En mitt í myrkrinu glittir í ljóstýru sem er þessi yndislega óeigingjarna gjöf frá þér.“

„Við setjum mesta púðrið í þetta núna fyrir jólin og höfum safnað yfir þremur milljónum í jólasöfnuninni okkar, með framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Við höfðum samband við tíu fjölskyldur í gærkvöldi og munum hafa samband við fleiri fjölskyldur á næstu dögum. Bæði eru þetta fjölskyldur langveikra barna og einnig fjölskyldur þar sem annað hvort foreldrið er að berjast við krabbamein. Kona, sem fékk styrk frá okkur, glímir við krabbamein og á 50 þúsund krónur til aflögu hver mánaðamót þegar hún er búin að greiða húsaleigu og þarf þá fara tvisvar á spítala til að fara í rannsóknir og eftirlit. Þegar við hringdum í hana og létum hana vita um styrkinn hágrét hún, enda átti hún aðeins 50 krónur og var á leið í krabbameinsrannsókn daginn eftir.“

Örvar segir engan kostnað hljótast af starfi samtakanna, svo sem vegna auglýsinga, húsaleigu eða launakostnaðar, og allt er unnið í sjálfboðavinnu. „Við gerum ekkert sem kallar á kostnað heldur rennur allt sem safnast til viðkomandi fjölskyldna eða einstaklinga. Þannig að allt sem safnast fer beint út, sem telst nokkuð óalgengt í þessum heimi en ég trúi því að það sé vel hægt.

Örvar tekur undir að það sé svo sannarlega afar gefandi að geta létt undir með fjölskyldum og einstaklingum og ekki sé óalgengt að fólk gráti gleðitárum þegar því er tilkynnt um styrk.

„Ein móðirin grét svo mikið af gleði að átta ára dóttir hennar fór að gráta líka. Það er stórkostlegt að finna þetta gífurlega þakklæti og sjá hvað þetta skiptir fólk miklu máli. Það er erfitt að trúa því hvað hundrað þúsund krónur geta gert mikið fyrir jólin hjá fólki,“ segir Örvar að lokum en nafnið á samtökunum á sér einfalda skýringu. „Við erum öll samferða í þessu lífi. Við verðum að standa saman.“

Þeir sem vilja leggja samtökunum Samferða lið er bent á styrktarreikninginn 0327-26-114, kt. 651116-2870 og þá er hægt að senda ábendingar á netfangið godgerdarsamtokin@gmail.com.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni

Gunnar Máni og fjölskylda misstu heimili sitt í Grindavík – Hálfu ári síðar missti hann vinnuna vegna eldsvoðans í Kringlunni
Fókus
Fyrir 6 dögum

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði

Blake Lively kærir Baldoni fyrir kynferðislega áreitni á tökustað – Vildi ekki fleiri kynlífsatriði