Folaldið Köggur kom í heiminn á bænum Ríp í Hegranesi fyrir tveimur vikum. Hann hefur tekið sérstöku ástfóstri við einn af íbúum bæjarins, hinn fjögurra gamla Þórð Braga en sögn móður Þórðar, Sigurlínu Erlu Magnúsdóttur er óborganlegt að fylgjast með þeim félögum leika sér saman, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.
Í samtali við blaðamann DV segir Sigurlína að fæðing Köggs hafi verið óvænt, og þurfti því að hafa hraðar hendur við að koma hryssunni og hinu nýfædda folaldi inn í hús. Þar eru þau saman í stíu.
„Þórður Bragi fékk síðan að sjá folaldið nýfædda og eftir það hafa þeir orðið sífellt forvitnari um hvorn annan. Hann hefur komið með okkur í hesthúsið þar sem við höfum leyft Köggi að koma fram á gang og þar hafa þeir leikið sér saman og farið í eltingaleiki,“ segir Sigurlína og bætir við að það sé ávallt mikið fjör þegar vinirnir tveir koma saman.
„Það er eins og Köggur sæki sérstalega mikið í Þórð Braga. Hann eltir hann mikið frekar en okkur,“ segir Sigurlína þvínæst en meðfylgjandi myndskeið var tekið af þeim félögum í hesthúsinu í gær. „Það var æðislegt að sjá Þórð Braga klappa honum af því að þá hristi Köggur alltaf taglið á sér.“
Þórður Bragi valdi sjálfur nafnið á nýja vin sinn, en það kemur úr teiknimyndunum vinsælu um Hvolpasveitina. „Það er ótrúlega gaman að fylgjast með þeim, og gaman fyrir þá líka að hafa félagsskap af hvor öðrum.“