fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Skemmtilegheitin sigra reiðina

Halldór Baldursson ræðir um skopteikningar, pólitíska rétthugsun, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Konung flónanna

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 5. desember 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flestir Íslendingar kannast við pólitískar skopteikningar Halldórs Baldurssonar. Í rúman áratug hefur spéspegill hans birst daglega í nokkrum stærstu dagblöðum landsins og gefið þjóðinni færi á að hlæja að sjálfri sér og ráðamönnum á einhverjum mestu ólgutímum í sögu lýðveldisins.

Það þekkja færri manninn á bak við myndirnar, hinn lágmælta og glottandi skopmyndateiknara sem er alinn upp á fótboltamyndum og kínverskum kommúnistaáróðri, sem trúir á bernskan boðskap barnaævintýra en hefur lúmskt gaman af gamaldags karlrembugríni.

DV hitti Halldór og spjallaði um skopteikningar, pólitíska rétthugsun, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Konung flónanna – nýútkomið skopmyndasafn hans.

Mao-tse Tung og fótboltamyndir

Halldór Baldursson er fæddur árið 1965 og alinn upp í smáíbúðahverfinu í Reykjavík, sonur kennaranna Baldurs Ragnarssonar og Þóreyjar Kolbeinsdóttur. Hann var síteiknandi sem barn og fékk sína helstu útrás á teikniblöðunum, en hann tætti í sig heilu bunkana af ljósritunarpappír. „Ég held að flestir teiknarar hafi verið „intróvert“ krakkar, sem tóku ekki mikinn þátt í skrípalátunum úti en fengu útrásina inni að teikna. Ég var þannig,“ segir Halldór og bætir við að helstu viðfangsefnin hafi verið stríð og fótbolti – og hafi það bætt upp fyrir litla íþróttahæfileika.

Snemma fann hann að hægt var að fá athygli og öðlast virðingu með teikningunum. Fyrsta skiptið sem styr stóð um mynd eftir hann var strax í barnaskóla þegar hann hafði teiknað mynd af blindfullum presti. Teikningin vakti mikla kátínu samnemenda en kennarinn neitaði að hengja hana upp á vegg í kennslustofunni. „Ég man eftir „kikkinu“ sem ég fékk úr því að skemmtilegheitin sigruðu þetta leiðinlega, að ég hafi þorað að segja eitthvað og sett málfrelsið á stall.“

Halldór stundaði nám á myndlistarbraut FB og stefndi á að verða arkitekt en fann fljótlega að hönnunin átti ekki við sig og fór í grafíkdeild Myndlista- og handíðaskólans. Þegar hann stundaði þar nám á seinni hluta níunda áratugarins var hann byrjaður að teikna fyrir auglýsingastofu og skreyta ýmsar kennslu- og barnabækur. Í MHÍ kynntist hann líka félögum sem áttu síðar eftir að stofna myndasögutímaritið GISP! sem lifir enn 27 árum síðar – þótt það hafi ekki komið út í nema ellefu eintökum í gegnum tíðina.

„Ég fór fyrst í skopmyndirnar eftir að Viðskiptablaðið var stofnað 1994. Þá var ég fenginn í að myndskreyta en var fljótlega beðinn um að vera með pólitískt grín. Ég hafði reyndar haft áhuga á því lengi og man eftir að hafa farið inn á DV einhverjum árum áður, hitt Jónas Kristjánsson og reynt að fá vinnu. Hann sagði að ég væri ekki tilbúinn, ég held að það hafi verið rétt hjá honum.“

Þú hefir þá líklega haft mikinn áhuga á pólitík, þar sem þú sóttist eftir þessu starfi, eða hvað?

„Já, það var mikið rætt um pólitík á heimilinu þegar ég var að alast upp. Systkini mín voru miklir kommúnistar og hugsjónafólk. Ég er því alinn upp í mikilli pólitískri innrætingu, fékk Mao Tse-Tung-áróður og fleira frá bróður mínum. Maður lærði samt fljótt að ástunda gagnrýna hugsun og innrætingin fór þannig í mig að ég fór bara að vinna fyrir Viðskiptablaðið – óvininn mikla,“ segir Halldór og glottir prakkaralega.

Aðspurður segist hann hafa sveiflast um miðjuásinn í pólitík í gegnum tíðina, en það fylgi þó starfinu að vera alltaf í andstöðu, að gera mest grín að hinum valdamestu. „Það er verkefnið. Forsætisráðherrann verður alltaf aðalpersónan.“

Mynd: Halldór Baldursson

Konungur flónanna

Síðasti forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er því óhjákvæmilega í aðalhlutverki í nýjustu bók Halldórs, Konungi flónanna, safni skopmynda frá síðustu þremur árum þar sem störf og og saga síðustu ríkisstjórnar er gerð upp. Bókin er þriðja skopmyndasafn Halldórs sem kemur út, áður komu Í grófum dráttum árið 2006 og Skuldadagar árið 2009, en sú síðarnefnda fjallaði um hina ævintýralegu daga í kringum hrunið.

Framan á nýju bókinni er Sigmundur Davíð í hlutverk ljónsungans og verðandi ljónakonungsins Simba í endurgerð af plakati Disney-myndarinnar Lion King – Konungs ljónanna. Davíð Oddsson er í hlutverki gamla ljónakonungsins sem kynnir arftakann og í jaðrinum er Bjarni Benediktsson, sár og vonsvikinn með að missa af tigninni.

„Þessi mynd birtist um það leyti sem ríkisstjórnin var mynduð. Mér fannst þetta bara lýsa andrúmsloftinu í kringum myndun ríkisstjórnarinnar svo vel. Nafnið á bókinni kom svo seinna. Mér finnst titillinn reyndar svolítið erfiður því ég veit ekki alveg hver flónin eru. Ef við segjum að Sigmundur Davíð sé konungur flónanna þá hljómar þetta svolítið eineltislegt, en ef þetta vísar til mín – og skopmyndateiknarar eru flónin – þá hljómar þetta mjög hrokafullt.“

Er hægt að segja eitthvað um hvað hefur einkennt þessi þrjú síðustu ár og fráfarandi ríkisstjórn?

„Ég held hreinlega að Sigmundur Davíð sé helsta einkennið. Hann var einkennilegur forsætisráðherra. Hans persóna litaði þetta tímabil mjög sterkt, og hans karakter hafði mikil áhrif á eftirhrunsárin, hvort sem það var til góðs eða ills. Það er að minnsta kosti öruggt að hann sameinaði ekki þjóðina. Hann er náttúrlega mjög umdeildur og ég held að allir hafi sterka skoðun á honum. Ég hef á tilfinningunni að næsta þing verði mun friðsælla, margir sem voru oft með mikil læti eru á leiðinni út. Nú verða Píratar hins vegar sterkir og spurning hvort jarðsprengjusvæðið verði í kringum þá.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Gleraugu Geirs og ráðalaus Bjarni

„Mér finnst ekki aðalatriði að túlka stjórnmálamenn nákvæmlega eins og þeir eru. Ég bý til eins konar hliðarkaraktera sem mér finnst henta pólitíska söguþræðinum hverju sinni. Í þessari ríkisstjórn fannst manni eiginlega eins og Framsóknarflokkurinn hafi leitt. Hann kom með stór loforð sem fólk keypti og Sigmundur fékk að vera forsætisráðherra þótt hann fengi minna fylgi. Manni fannst ekki eins og Sjálfstæðisflokkurinn nyti sín alveg. Í flestum myndunum mínum er Bjarni Ben því frekar ráðalaus, umkomulaus og segir lítið. Ég er samt ekkert viss um að hann sé þannig í raun og veru.“

Er einhver persóna í stjórnmálunum undanfarin ár sem þér finnst sérstaklega skemmtilegt að teikna?

„Já, ég hafði til dæmis alltaf mjög gaman af því að teikna Geir Haarde, ég var kominn með svo skemmtilega leið til að vinna með gleraugun hans. Það var svolítið langt á milli augnanna, augabrúnirnar eins og þær væru fastar ofan á gleraugunum, og augun inni í gleraugunum sem náðu eiginlega út fyrir andlitið,“ segir Halldór og hlær.

Áttu þér einhverja óskaríkisstjórn – sem skopmyndateiknari frekar en borgari?

„Já, ætli það væri ekki bara þjóðstjórn … eða kannski yrðu það of margir. Í augnablikinu hef ég mjög gaman af Óttari og Benedikt, sem eru alltaf saman einhvern veginn. Svo yrði örugglega hægt að fara enn lengra með Óttar í túlkunum. Ég verð að viðurkenna að ég orðinn örlítið þreyttur á Bjarna, en kannski fær hann bara nýtt hlutverk hjá mér. Það væri reyndar líka gaman að fá Kötu inn til að geta teiknað hana meira. Og jafnvel Samfylkingargaurinn. Ég sá hann á fótboltapöbb um daginn og leist svolítið vel á hann … Nei, nú er ég orðinn allt of jákvæður!“

Mynd: Halldór Baldursson

Brandarar sem enginn hefur samið áður

Halldór skapar skopmyndirnar sínar á vinnustofu sinni í vesturbænum en býr í miðborginni ásamt Hlíf Unu Bárudóttur sem er einnig lærður teiknari. Saman eiga þau von á sínu fyrsta barni í mars á næsta ári, en fyrir á Halldór þrjá stráka í kringum tvítugt.

Vinnurútína skopmyndateiknarans er að lesa blöðin vel og kynna sér mál málanna í morgunsárið, vinna í öðrum verkefnum fram að hádegi. Á meðan fæðast einhverjar hugmyndir sem hann byrjar svo að skissa seinni partinn.
„Oftast byrja ég á að finna málefnið. En stundum byrja ég á einhverri líkingu, eða tilfinningu fyrir brandara – sem ég þarf svo að máta við einhver mál.“

Ef illa gengur að finna hugmyndir leggur hann sig með tónlist í græjunum og þegar hann rankar við sér er hann yfirleitt kominn með einhverja skondna hugmynd. „Þetta kveikir á skrýtnu stöðunum í heilanum.“ Hann teiknar með pennastöng með vatnsheldu bleki og vatnslitar ofan í og skilar myndinni á sjöunda tímanum.

Halldór segist leggja mikið upp úr því að vinna með fjölbreyttan húmor í myndunum, frá fimmaurabröndurum til margræðra menningarlegra tilvísana.

„Ég geri fimm myndir á viku og hef teiknað meira en þrjú þúsund myndir í gegnum árin. Ef ég væri alltaf í hnyttnum „one-linerum“ og einföldum bröndurum færi ég að endurtaka mig of mikið. Þess vegna vil ég stundum vera með margræðar myndir sem fólk þarf að spá og spekúlera í, svo vil ég stundum vera súrrealískur – óvæntur og skrýtinn – og koma með brandara sem enginn hefur samið áður. Mér finnst þurfa að vera ákveðið jafnvægi í þessum fimm myndum sem ég teikna á viku – eins og á einni hlið á vínylplötu, það er grípandi lagið og langa leiðinlega lagið.“

Kemur oft fyrir að fólki nái hreinlega ekki bröndurunum?

„Já, það kemur oft fyrir. Oft er það eldra fólk, eða mjög ungt fólk. Maður sér þetta betur núna með Facebook, hversu mörg „like“ myndirnar fá. Góðar hugmyndir geta svo klikkað á alveg furðulegustu smáatriðum. Oft þarf ég að teikna myndir tvisvar, er með góða hugmynd en finnst hún einfaldlega ekki virka í fyrra skiptið.“

Túttumyndir og rétttrúnaður

„Pólitíska skopmyndin er að vissu leyti íhaldssamt fag í myndheiminum. Jafnvel þegar maður skoðar myndir frá því um 1900 getur maður lesið vel í pólitík þess tíma. Húmorinn hefur ekki breyst það mikið, og leiðin til að segja skoðun sína hefur ekki breyst mikið. Það þarf alltaf að vera einhver greining eða boðskapur, þú getur sett þetta fram með kaldhæðni, líkingum, merkingum, og tilvísunum í sögu, menningu, blandað saman ólíkum hlutum og látið undirliggjandi sannleika koma fram á kaldhæðinn hátt. Listin hefur farið í gegnum mikinn rússíbana síðustu tvö hundruð árin – í gegnum módernisma, póstmódernisma, myndasögur orðið æ skrýtnari, tónlistin farið í allar áttir, Björk komin í 3D og svo framvegis – en samt er pólitíska skopmyndin nánast eins og hún var fyrir 200 árum. Kannski þykir þetta ekki fínt, en mér finnst virðingarvert að hún nái að vera þessi hornsteinn í menningunni. Hún hefur verið ferskur andblær inn í dagblöðin og ég held að hún hafi ekki breyst af því að hún virkar. Kannski breytist fólk bara ekki jafn mikið og heimurinn.“

Nú hefur verið talað um að samtíminn sé sérstaklega hneykslunargjarn og minna umburðarlyndi sé gagnvart gríni – sem sést jafnt í árásum öfgamanna á gríntímaritið Charlie Hebdo og svo umræðum um pólitískan rétttrúnað. Er þetta eitthvað sem þú finnur fyrir?

„Ég fæ þetta stundum á tilfinninguna … Það er oft erfitt að gagnrýna á hátt sem er ekki of kaldhæðinn eða særir vitund almennings. Án þess að ætla að verða einhver Jakob Bjarnar og bölva „góða fólkinu,“ þá er horfið ákveðið „naughtiness“ sem var áberandi á síðustu öld. Þá var til dæmis gert mikið grín að hlutskipti kynjanna og oft dálítið kynferðislegir undirtónar. Þetta var það sem var byrjað að fara í taugarnar á mörgum við Sigmund síðust árin hans á Morgunblaðinu. Hann var bara af ákveðinni kynslóð en smám saman átti þetta ekki lengur við: berbrjósta Hillary í mannætupotti – það virkaði bara ekki lengur. Ég verð samt að viðurkenna að það er einhver strengur í mér sem fílar svona brandara og ég velti því stundum fyrir mér af hverju við erum svona rosalega viðkvæm. Tútturnar á Hillary eru ekki svona mikið mál – þær eru jú þarna einhvers staðar. Ég upplifi mig samt ekki sem eitthvað aðþrengdan í starfinu þó að ég fái ekki að teikna túttumyndir. Það hafa eflaust opnast einhverjar aðrar gáttir í staðinn sem ekki stóðu opnar áður.“

Davíð skipti sér aldrei af skopinu

Halldór segist þó vera meira hugsandi yfir hinni miklu reiði sem hefur litað samfélagið undanfarin ár.

„Ég er svolítið hræddur um að þessi neikvæðni og ótti eitri út frá sér. Þessi ótti er drepandi, hann elur á heimsku og skapar skrímsli eins og Trump og annað öfgafólk. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að við búum ekki við eitthvað hörmungarástand, við búum í býsna góðu samfélagi. Það þarf að veita passlegt aðhald og reyna að gera samfélagið aðeins betra – en það er hægt að gera samfélagið aðeins betra og fallegra, eins og er alltaf verið að boða í öllu barnaefni: Dýrunum í Hálsaskógi eða Lion King. Það er þessi bernski boðskapur sem fólk tekur ekki rassgat mark á. En ég held að það sé allt í lagi að reyna að vera bjartsýnn.“

Hefur þú fengið miklar reiðiöldur yfir þig vegna teikninga sem fólki hefur mislíkað?

„Nei, aldrei. Kannski er það vegna þess að mín nálgun er ekki mjög „agressíf.“ Ég reyni yfirleitt að hafa myndirnar þannig að það hafi allir útgönguleið úr þeim. Ég er ekki að reyna að drepa í fólki eða ausa yfir það hatri. Ég er auðvitað að vinna fyrir Fréttablaðið sem er mjög „mainstream“ og er dreift í öll hús. Það er kannski ekki alveg staðurinn fyrir grófan Charlie Hebdo-húmor – afhausaðan Múhameð á forsíðunni eða álíka,“ segir Halldór.

Áttu almennt í einhverju samtali við ritstjórana þína um viðfangsefni skopmyndanna, eða hefur þú lent í því að ritstjóri stöðvi teikningu sem þú ætlar að birta?

„Nei. Þetta er svolítið öðruvísi en margir ímynda sér. Ég hef unnið undir hátt í 20 ritstjórum og enginn þeirra hefur skipt sér af því sem ég hef gert. Þegar ég var á Morgunblaðinu héldu margir að Davíð Oddsson væri að hringja og skipa mér að teikna hitt eða þetta, en það var aldrei þannig. Það var bara af eigin hvötum sem ég ákvað að fara yfir á Fréttablaðið. Ég held að þetta eigi líka við um aðra skopmyndateiknara hér á landi – jafnvel þá sem eru umdeildari.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir