Sænska Nóbelsakademían átti í mestu vandræðum með að hafa uppi á Bob Dylan eftir að tilkynnt var að hann hlyti bókmenntaverðlaun Nóbels. Margir töldu að Dylan stæði nákvæmlega á sama um valið og hefði ekki áhuga á að þiggja verðlaunin. Svo er þó ekki því Dylan hafði á dögunum samband við ritara nefndarinnar og sagðist hafa orðið orðlaus þegar hann frétti að verðlaunin féllu sér í skaut. Hann sagðist vitaskuld þiggja verðlaunin og hann kynni sannarlega að meta þennan mikla heiður. Í viðtali við Telegraph sagðist Dylan endilega vilja mæta á verðlaunaveitinguna 10. desember, ef hann mögulega kæmist. Dylan er mjög sérsinna og því ómögulegt að giska á hvort hann muni mæta. En þar sem hann er þakklátur fyrir Nóbelinn þá er spurning hvað sé brýnna á dagskrá hans en að bregða sér til Stokkhólms og taka við verðlaununum úr hendi Svíakonungs.