Í heimabæ Melaniu Trump, Sevnica í Slóveníu, eru íbúar stoltir af sinni konu sem ólst þar upp. Þegar hefur orðið vart við aukinn ferðamannastraum og sjá má spjöld með áletrunum á borð við: „Velkomin til lands forsetafrúarinnar.“ Bæjarstjórinn segist vonast til að nýi forsetinn og forsetafrúin heimsæki bæinn.
Melania ólst ekki upp við ríkidæmi, það þótti vera lúxus þegar hún fékk kókakólaflösku á 14 ára afmælisdaginn sinn. Hún fór í nám í arkitektúr en hætti eftir ár og gerðist módel í New York og Mílanó. Í ljósmyndatöku fyrir tímaritið GQ sat hún fyrir nakin, nokkuð sem engin önnur forsetafrú Bandaríkjanna hefur á ferilskrá sinni. Kunningi hennar frá þessum tíma segir hana hafa verið feimna og bókelska stúlku sem hafði gaman af að horfa á Friends.
Melania hitti Donald Trump þegar hún var 28 ára gömul og þau giftust árið 2005. Það tók hálft ár að gera brúðkaupskjól hennar. Bill og Hillary Clinton voru meðal gesta í brúðkaupinu. Sonurinn Barron fæddist ári síðar. Foreldrar Melaniu búa mestan hluta ársins í Trump-turninum í New York, en faðirinn er bílasölumaður og fyrrverandi meðlimur kommúnistaflokks Júgóslavíu. Sagan segir að hann erfi gömul föt tengdasonar síns, en þau munu ekki vera neitt slor.