diCaprio sló í gegn í Hollywood en Adam festist í viðjum fíknar
Eitt sinn voru þeir eins nánir og bræður geta orðið en í dag er staðan önnur og verri – að minnsta kosti fyrir annan þeirra. Adam Farrar er nafn sem hringir ekki mörgum bjöllum hjá mörgum, en stjúpbróðir hans, Leonardo DiCaprio, er öllu þekktari enda Óskarsverðlaunaleikari og einn tekjuhæsti leikari heims.
Farrar segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum þeirra bræðranna. Eftir að hafa verið nánast óaðskiljanlegir í æsku er nú svo komið að Farrar heyrir aldrei í bróður sínum.
„Við vorum einu sinni svo nánir. Ég elskaði hann og geri enn en við höfum ekki talað saman í nokkur ár. Ég sá hann seinast í afmælisveislu hans og hann faðmaði mig og var ánægður að sjá mig. En þegar ég reyni að hafa samband við hann og skil eftir skilaboð til hans er þeim ekki svarað. Í dag er hann með heilan her af fólki í kringum sig og það er ómögulegt að ná sambandi við hann,“ segir Farrar í viðtali sem birtist á vef Mail Online um helgina.
Óhætt er að segja að þeir bræðurnir hafi farið í sitthvora áttina þegar þeir komust á fullorðinsár. Leonardi DiCaprio byrjaði leiklistarferil sinn með stæl en á sama tíma festist Farrar, sem er 45 ára, í viðjum eiturlyfjafíknar sem hann hefur glímt við stóran hluta ævi sinnar.
Í dag kveðst hann vera laus við fíkniefnadjöfulinn en hann og kærasta hans, Charity, eiga erfitt með að ná endum saman um hver mánaðamót. Þá er þeirra eina barn, tíu ára stúlka sem heitir Normandine, í umsjá föður þeirra bræðra, George, eftir að Adam og Charity voru svipt forræðinu yfir henni. Adam hefur aldrei áður tjáð sig opinberlega um samband þeirra bræðra, ekki fyrr en nú um helgina í viðtali við Mail on Sunday.
„Ég ætlast ekki til neins af honum og vil einfaldlega fá hann aftur inn í líf mitt.“
„Leo [Leonardo diCaprio, innsk.blm] vill bjarga heiminum og virðist uppteknari af umhverfinu og loftslagsbreytingum en hann er af bróður sínum. Það er sárt,“ segir hann.
Þegar Leonardo var eins árs skildi faðir hans við móður hans, Irmelin, og kynntist móður Adams, Peggy, skömmu síðar. Þeir ólust því upp eins og bræður og þó þeir hafi ekki verið blóðskyldir var samband þeirra náið, segir Farrar.
Í viðtalinu kemur fram að það hafi verið Farrar sem hafi kveikt áhuga diCaprio á leiklist. Þegar Farrar var tíu ára var honum boðið í áheyrnarprufur í heimaborg sinni, Los Angeles. diCaprio leit upp til stjúpbróður síns og vildi feta í hans fótspor. Óhætt er að segja að restina af þeirri sögu þekki flestir, enda er diCaprio í dag einn þekktasti og vinsælasti leikari heims. Á sama tíma og diCaprio var að slá í gegn í Hollywood vann Adam við að aðstoða bróður sinn. Þeir bræður áttu góða vini sem síðar áttu eftir að slá í gegn í Hollywood, leikara eins og Tobey Maguire, Ben Affleck og Mark Wahlberg.
Það geta fylgt því freistingar að lifa í vellystingum í Los Angeles. Fíkniefni voru á hverju strái og á sama tíma og diCaprio sniðgekk þau með öllu átti Adam erfiðara með að halda sig fjarri þeim. Árið 2008 fór allt í handaskol hjá Adam, en þá fór hann að fikta með harðari fíkniefni á borð við heróín. Þá ákvað diCaprio að fjarlægjast bróður sinn. Farrar kveðst ekki hafa notað heróín síðan árið 2013 og hann segist sakna bróður síns og telur að hann njóti ekki lífsins til fulls.
„Ég ætlast ekki til neins af honum og vil einfaldlega fá hann aftur inn í líf mitt,“ segir hann.