Leiklistarverðlaun Evening Standard voru veitt um síðustu helgi. Harry Potter og bölvun barnsins var valið besta leikritið, en þess má geta að það er nýkomið út á bók í íslenskri þýðingu. Leikstjóri sýningarinnar, John Tiffany, tók á móti verðlaununum og sagði að leikritið fjallaði um hætturnar af einangrun, mikilvægi samstöðu, fjölskyldu og ást. Leikritið er gert eftir sögu J.K. Rowling sem var ekki viðstödd en sendi orðsendingu þar sem hún þakkaði Tiffany og höfundi leikritsins Jack Thorne fyrir að hafa gert einstaka sýningu úr sögu hennar.
Meðal annarra sigurvegara voru Ralph Fiennes, sem var valinn besti leikarinn fyrir leik sinn í Ríkharði III og Sólnes byggingameistara, og Billie Piper, sem var valin besta leikkonan fyrir leik sinn í Jermu. Glenn Close fékk verðlaun fyrir bestu frammistöðuna í söngleik, en hún hefur slegið í gegn í Sunset Boulevard. John Malkovich var valinn besti leikstjórinn fyrir Good Canary.