„Konan mín er grunnskólakennari. Ég veit líka að hún er vinsæll og góður kennari. Ég verð samt að hryggja nemendur hennar og foreldra þeirra að ég hef hvatt hana til að hætta. Ég hef hvatt hana til að finna sér starf þar sem hún er metin að verðleikum,“ þetta segir Birgir Örn Guðjónsson í pistli á Facebook-síðu sinni. Þar fjallar hann um kjör kennara en margir í þeirri stétt brugðust ókvæða við þegar í ljós kom að Kjararáð hefði ákveðið að hækka laun alþingismanna um hundruð þúsunda.
„Þegar öllu er á botninn hvolft er kennarastarfið nefnilega bara vinna. Það er ekki hægt að krefjast þess að kennarar fórni hæfileikum sínum og fjárhagslegri framtíð á altari hugsjónarinnar,“ segir Biggi lögga. „Það er pottþétt oft skemmtilegt og gefandi að vera kennari en það er líka ótrúlega slítandi og þreytandi. Og það sem mestu skiptir, það fylgir því gífurleg ábyrgt að vera grunnskólakennari.“
Birgir segir að miklu máli skipti að fá gott fólk til að mennta börnin. Kennaranámið tekur fimm ár. Nauðsynlegt sé því, að mati Birgis, að fá hæfileikaríkt fólk í störfin.
„Við höfum engan áhuga á að gambla með börnin okkar, það dýrmætasta sem við eigum. Hvernig stendur þá á því að samfélagið hefur ákveðið að verðmeta kennarastarfið sem láglaunastarf?“ spyr Birgir og bætir við að samfélag sem geri slíkt sé ekki gott samfélag. Það eigi sér litla framtíð. „Það er rotið og skemmt.“
Segir Birgir að nú sé tækifæri til að snúa þessu við. Þjóðarsátt um sanngjörn laun fyrir grunnskólakennara sé næsta skrefið.
„Það er nauðsynlegt ef við ætlum ekki að ganga að menntakerfinu algjörlega dauðu. Við erum að tala um framtíð barnanna okkar. Hvernig verðleggjum við hana? Hingað til hefur hún verið sett í ruslflokk. Það er kominn tími á breytingar. Ég styð grunnskólakennara í sinni kjarabaráttu!“