Læknar töldu í fyrstu að hann væri með hettusótt
Þriggja ára sonur dægurlagasöngvarans Michael Buble greindist nýverið með krabbamein. Litli drengurinn var á dögunum í ferðalagi með foreldrum sínum, í Bandaríkjunum, þegar þau leituðu til læknis þar sem þeim þótti hann slappur.
Margir af stærstu slúðurmiðlum heims greina frá þessum hörmulegu fregnum í dag.
Í fyrstu töldu læknarnir að Noah væri með hettusótt. Eftir ítarlegri rannsóknir fékk fjölskyldan þær skelfilegu fréttir að Noah er með krabbamein. Ekki hefur fengist staðfest af hvaða tagi krabbameinið er.
Perez Hilton greinir frá því að hjónin séu búin að aflýsa öllu vinnutengdu á næstunni. Þá segir að nánustu fjölskyldumeðlimir þeirra séu komnir til Bandaríkjanna til að styðja við bakið á þeim. Hjónin eiga að auki soninn Elias sem fæddist í janúar á þessu ári.
Michael og eiginkona hans Luisiana hafa enn ekki gefið frá sér yfirlýsingu vegna veikinda Noah en slúðurpressan gerir ráð fyrir því að hún berist í dag eða um helgina.