Nýjasta mynd Toms Hanks er Inferno sem byggð er á sögu Dan Brown, en þar fer hann í þriðja sinn með hlutverk háskólaprófessorsins Roberts Langdon. Leikarinn hefur mætt í viðtöl vegna kvikmyndarinnar en þar hefur hann ekki bara verið spurður um myndina heldur einnig veikindi konu sinnar, Ritu Wilson. Wilson greindist með krabbamein árið 2014 og fór í brjóstnám. Hanks, sem hefur verið stoð og stytta eiginkonu sinnar í veikindum hennar, gerir ekki mikið úr sínum þætti. „Hlutverk mitt var að sýna stuðning og hlýju, ef maður getur það ekki þá er maður heigull,“ segir hann og bætir við: „Eiginmaður konu sem berst við krabbamein er ekki hugrakkur. Sá hugrakki er einstaklingurinn sem berst. Það eina sem ég get gert er að hneigja mig í auðmýkt fyrir hugrekki konu minnar.“
Hjónin hafa verið gift frá árinu 1988 og leikið saman í kvikmyndum. Þess má geta að miklar líkur eru taldar á að Hanks verði tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Sully.