Í gær deildi leikkonan Shannen Doherty því með fylgjendum sínum á Instragram að í stað þess að leggjast undir sæng, líkt og hana langaði mest til að gera, dreif hún sig í ræktina daginn eftir erfiða lyfjameðferð.
Shannen sem er 45 ára var í bílnum á leiðinni í ræktina þegar hún setti myndskeiðið á Instagram. Hún segist trúa að það skipti gríðarlega miklu máli að halda líkamanum á hreyfingu á sama tíma og hann glímir við alvarleg veikindi.
Líkt og áður hefur komið fram greindist Shannen með brjóstakrabbamein árið 2015. Í ágúst greindi hún frá því að krabbameinið væri búið að dreifa sér í eitla og hún þyrfti því að byrja í nýrri geisla- og lyfjameðferð.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=BXIJ6PC4D1Q&w=560&h=315]
Shannen segir í myndskeiðinu að henni líði ekkert alltof vel líkamlega. Hún hafi fundið fyrir ógleði, væri með verki, roða og mjög þrútin í andlitinu vegna steragjafar. Allt eru þetta hliðarverkanir krabbameinsmeðferðarinnar.
Ásamt myndinni sem birtist hér að ofan skrifaði Shannen að eftir erfiðan dag hefði hún tröllatrú á því að hreyfingin hjálpaði líkama hennar að losna við eiturefnin.
Þá segir hún að krabbameinið hafi gefið sér nýja sýn á lífið. „Ég hef séð góða vini hverfa og ókunnugt fólk koma okkur til aðstoðar. Lífið er núna.“