Elizabeth Debicki, sem fór með hlutverk Jed í Næturverðinum, hefur slegið í gegn í leikritinu The Red Barn sem sýnt er í National Theatre í London. Leikritið er gert eftir sögu George Simenon. Þar leikur Debicki Monu, fyrrverandi leikkonu, en kvensamur og forríkur eiginmaður hennar hverfur kvöld eitt. Gagnrýnendur hafa hlaðið lofi á leikkonuna og segja frammistöðu hennar frábæra.
Debicki er áströlsk en ólst upp í Frakklandi til fimm ára aldurs en þar störfuðu foreldrar hennar sem dansarar. Fjölskyldan fluttist síðan til Melbourne þar sem Debicki varð fyrirmyndarnemandi. Hún íhugaði að verða lögfræðingur en leiklistin hafði yfirhöndina. Frammistaða hennar í Næturverðinum færði henni frægð. Hún hefur í viðtölum borið lof á meðleikara sína í þeim þáttum og segist hafa náð sérstöku sambandi við Tom Hiddleston sem í dag er vinur hennar, eins og Hugh Laurie en hún segir þann síðarnefnda vera minnst sjálfsupptekna mann á jarðríki.