Lady Gaga sendi frá sér nýjan geisladisk á dögunum, Joanne, í minningu látinnar frænku sinnar. Joanne var föðursystir Lady Gaga og lést einungis 19 ára gömul árið 1974, 12 árum áður en Lady Gaga fæddist. Lady Gaga er með dánardægur Joanne tattóverað á handlegg sinn og veitingastaður hennar í New York ber nafn þessarar ungu frænku. Söngkonan segir að dauði Joanne hafi verið harmleikur í lífi fjölskyldu sinnar og að faðir sinn hafi ekki enn jafnað sig.
Joanne var með sjúkdóm sem nefnist rauðir úlfar og veldur skemmdum á vefjum líkamans. Læknar vildu taka hendurnar af Joanne en móðir hennar lagði blátt bann við því og sagði að þar sem Joanne væri skáld og rithöfundur ætti hún ekki að lifa handalaus. Sjúkdómurinn dró Joanne til dauða. „Ég held að í lífi allra sé manneskja eins og Joanne, allir hafa misst einhvern eða vita að þeir munu missa einhvern sem er þeim kær,“ segir Lady Gaga sem heitir fullu nafni Stefani Joanne Angelina Germanotta.