Komust undan með skartgripi sem eru metnir á milljónir evra
Raunveruleikastjörnunni Kim Kardashian var ógnað með byssu í París í nótt þegar tveir grímuklæddir karlmenn réðust inn í hótel-íbúð þar sem hún dvelur. Þjófarnir sem komust undan stálu skartgripum sem metnir eru á milljónir evra.
Ránið varð um klukkan þrjú í nótt að staðartíma. BBC greinir frá. Talsmaður Kardashian segir hana ómeidda eftir ránið en í miklu áfalli.
Óstaðfestar fregnir herma að hún og lífvörður hennar hafi verið bundin á meðan þjófarnir athöfnuðu sig. Engan annan sakaði.
Ekkki er vitað hvort börn Kardashian hafi verið á staðnum þegar ránið var framið. Kardashian er í París ásamt móður sinni og yngri systur, Kendall Jenner, vegna tískuvikunnar sem þar er í fullum gangi.
Kanye West, eiginmaður Kardashian, stóð á sviði þegar hann fékk fréttirnar af árásinni. Hann stöðvaði tónleikana sem voru í fullum gangi í New York samstundis og er nú á leið til eiginkonu sinnar.
Starfsmaður West gekk í framhaldinu á svið og sagði áhorfendum að upp hafi komið neyðartilvik í fjölskyldunni.