Segja tónleikana í Kaupmannahöfn í gærkvöldi hafa verið barnatónleika
Danir eru gríðarlega ósáttir við frammistöðu Justin Bieber í Parken í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Gagnrýnendur hafa látið gamminn geysa um tónleikana á vefmiðlum í morgun en Bieber var sömuleiðis skotinn niður á Twitter.
Útreiðin sem Bieber fær frá Dönum er af sama toga og hann fékk eftir tónleikana í Kórnum í Kópavogi í byrjun september. Norðmenn vöru sömuleiðis mjög ósáttir við frammistöðu Bieber í Oslo á dögunum.
Gagnrýnandi Metroexpress, sem er einn vinsælasti vefmiðill Danmerkur, segir tónleikana hafa verið „barnatónleika.“ Hann segir að unglingsstelpurnar, sem skríktu alla tónleikana, hafi flestar sagt að þetta væru bestu tónleikar ársins.
Aðrir tónleikagestir hafi orðið fyrir gríðarlega miklum vonbrigðum.
Gagnrýnandinn, Kristian Dam Nygaard, segir í umfjöllun sinni um tónleikana að hann hafi aldrei séð Bieber brosa og í hvert einasta skipti sem hann talaði til áhorfenda hafi það virkað þaulæft.
Kristian spyr í umfjölluninni hvað sé eiginlega í gangi hjá einni vinsælustu poppstjörnu samtímans.
„Getur hann yfirhöfuð komið fram á tónleikum? Kann hann ekki lengur að syngja? Stundum gleymdi hann að hreyfa varirnar og að þykjast syngja á meðan röddin hans ómaði úr hátalarakerfinu,“ segir í gagnrýninni.
Þá segir að það eina jákvæða við tónleikana hafi verið þegar Bieber greip kassagítarinn og söng lögin Cold Water og Love Yourself. Þá hafi sést glitta í hæfileikana sem hann heillaði heimsbyggðina með á sínum tíma.
Kristian sem gefur tónleikunum 2 stjörnur af 6 mögulegum segir að lokum að margir hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum, verið pirraðir og séð eftir að hafa keypt rándýra miða á tónleikana og það sé vel skiljanlegt.