Stranglega bannað að taka myndir á kjörstöðum
Tónlistarmaðurinn og leikarinn Justin Timberlake er búinn að greiða atkvæði í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Timberlake greiddi atkvæði í heimabæ sínum í Tennessee á mánudag og birti mynd af sér á Instagram þar sem hann sést fyrir framan kosningavélina á kjörstað.
Þessi tiltekna myndataka gæti hinsvegar komið Timberlake í klandur. Samkvæmt lögum sem samþykkt voru í Tennessee á síðasta ári er stranglega bannað að taka myndir eða myndbönd á kjörstöðum. Þeir sem gerast brotlegir gegn þessum geta átt von á að verða sóttir til saka og eru viðurlögin 30 daga fangelsi eða sekt sem nemur 50 Bandaríkjadölum, rúmum 5.700 krónum.
TMZ greinir frá því að sakskóknaraembættið í Memphis sé með málið til skoðunar. Svo gæti farið að Justin verði sá fyrsti sem sóttur er til saka í ríkinu samkvæmt þessum nýju lögum. Timberlake er búsettur í Los Angeles en er á kjörskrá í Memphis.