Poppstjarnan var ekki í sérstaklega góðu skapi á tónleikum í Manchester
Poppstjarnan Justin Bieber er sem kunngt er á tónleikaferðalagi um þessar mundir og í gærkvöldi tróð hann upp í Manchester á Englandi. Eitthvað virðist Bieber hafa verið illa fyrir kallaður því hann stormaði af sviði þegar áhorfendur bauluðu á hann. Bieber ku hafa eytt of miklum tíma á milli laga í að tala en áhorfendur vildu að hann héldi áfram með tónleikana.
Purpose-tónleikaferðalag þessa 22 ára Kanadamanns hófst eins og flestir vita á Íslandi og síðan þá hefur hann meðal annars haldið tónleika á Norðurlöndunum.
Í frétt Mail Online má sjá myndband af uppákomunni en á henni sést þegar Bieber kastar míkrófóninum frá sér og gengur af sviðinu. Óhætt er að segja að tónleikagestir hafi verið lítt hrifnir af þessu uppátæki. Hann sneri aftur á svið skömmu síðar þar sem hann útskýrði þessa ákvörðun sína stuttlega. Áður en að síðasta laginu kom útskýrði hann uppákomuna betur.
„Ástæðan fyrir því að ég komst í uppnám var vegna þess að ég ferðast um allan heim til að koma hingað. Ég hef helgað líf mitt því að koma fram og ná fram brosi á andlitum fólks. Mér fannst eins og fólk væri ekki að sýna mér nægjanlega mikla virðingu á móti. Það særði mig. En við endum þetta á laginu Baby,“ sagði Bieber.
Eins og við var að búast sköpuðust fjörugar umræður á Twitter þar sem sumir gagnrýndu poppstjörnuna á meðan aðrir sýndu henni stuðning. „Frægðin hefur svo sannarlega stigið þér til höfuðs, Justin Bieber,“ sagði einn á meðan annar sagðist finna til með Bieber.
Myndbönd af uppákomunni má sjá hér að neðan: