Fékk kvíðakast við tökur á Night at the Museum 3 – Mundi ekki línurnar sínar – Áhrifamikil grein í Neurology
Susan Schneider Williams, ekkja leikarans Robins Williams, skrifar hjartnæma grein í fagritið Neurology þar sem hún lýsir síðustu mánuðunum í lífi eiginmanns síns. Williams, sem var einn vinsælasti gamanleikari heims um áraraðir, svipti sig lífi í ágúst 2014, 63 ára að aldri.
Robin glímdi við sérstaka tegund heilabilunar sem kallast Lewy Body. Talið er að sjúkdómurinn sé næstalgengasti heilabilunarsjúkdómurinn á eftir Alzheimers og er engin lækning til við honum. Í grein á vef Doktor.is kemur fram að sjúkdómurinn sé kenndur við próteinútfellingar í taugafrumum í heila sem kallaðar eru Lewy body. Útfellingarnar finnast í ýmsum öðrum sjúkdómum, svo sem Alzheimers og Parkinsons, og það gerir greininguna erfiðari og um leið erfitt að átta sig á tíðni hans.
Í grein sinni, sem ber yfirskriftina The terrorist inside my husband’s brain, biðlar Susan til taugalækna að gefast ekki upp í baráttunni gegn heilabilunarsjúkdómum. Hún segir að Lewy Body-sjúkdómurinn hafi heltekið eiginmann sinn sem hafi hægt og rólega misst vitið. Hann hafi verið meðvitaður um það og þjáðst af ofsóknaræði, kvíða, ofsjónum og svefnleysi síðustu mánuði ævi sinnar. Segir Susan að þrátt fyrir fjölda heimsókna til lækna hafi þeim hjónum aldrei tekist að fá skýr svör við því hvað væri að honum. Sjúkdómurinn hafi valdið miklu þunglyndi sem á endanum varð til þess að Williams svipti sig lífi.
Williams var í fyrstu talinn vera með Parkinsons-sjúkdóminn, en þegar einkennin ágerðust og andlegri og líkamlegri heilsu hans hrakaði með hverri vikunni sem var ljóst að eitthvað annað og meira var að. Það var ekki fyrr en við krufningu að í ljós kom að hann var haldinn Lewy Body-heilabilun.
Í grein sinni lýsir Susan því hvernig sjúkdómurinn tók hægt og rólega yfir allt líf þeirra. Í október 2013 hafi Robin byrjað að þjást af svefnleysi, kvíða og átt erfitt með þvaglát. Þessi einkenni hafi stigversnað þennan vetur og snemma í apríl 2014 hafi Robin fengið alvarlegt kvíðakast þegar hann var við tökur á myndinni Night at the Museum 3.
„Þar þurfti hann að muna mörg hundruð setningar og gerði ekki ein mistök. Hann var eyðilagður yfir þessu.“
„Læknirinn hans ráðlagði honum að taka geðdeyfðarlyf til að hjálpa honum að ráða við kvíðann. Að sumu leyti virtist það hjálpa honum en að öðru leyti ekki. Það var ekki fyrr en eftir andlát hans að ég komst að því að notkun geðdeyfðarlyfja getur haft þveröfug áhrif á fólk með Lewis Body.
Hún segir að Robin hafi átt erfitt með að muna línurnar sínar í umræddir kvikmynd og ástandið hafi verið það slæmt að hann gat ekki lagt eina setningu á minnið. „Aðeins þremur árum áður hafði hann komið fram, nokkrum sinnum í viku í fimm mánuði – og stundum tvisvar á dag –, í Broadway-sýningunni Bengal Tiger at the Baghdad Zoo. Þar þurfti hann að muna mörg hundruð setningar og gerði ekki ein mistök. Hann var eyðilagður yfir þessu,“ segir hún og bætir við að þegar þarna var komið við sögu hafi hún yfirleitt getað hughreyst hann en þarna – og eftir þetta – hafi henni ekki tekist það.
Í greininni á vef Doktor.is, sem vísað er í hér að framan, kemur einmitt fram að einstaklingar með þessa tegund heilabilunar hafi gjarnan meira af Parkinson-einkennum heldur en Alzheimers-sjúklingar. Þá sýni þeir einkenni sem eru sameiginleg með Alzheimers-sjúklingum, svo sem minnistap, skert dómgreind, ranghugmyndir, áhugaleysi og stundum depurð eða þunglyndi. Í grein sinni segir Susan að líkamleg einkenni hafi minnt á Parkinsons-sjúkdóminn en þegar heili hans var skoðaður hafi sannleikurinn komið í ljós. Susan segir að greiningin hafi ekki komið henni á óvart.
Eftir andlát Williams hefur Susan kynnt sér sjúkdóminn í þaula og er hún í stjórn American Brain Foundation sem hefur því hlutverki að gegna að styðja við rannsóknir á heilabilunarsjúkdómum eins og Alzheimers og Lewy Body.
Frábæra grein Susan má lesa hér